Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Rauði krossinn hefur farið í 46 útköll frá 1. desember – „Við pössum okkur mjög vel að dreifa álagi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rauði krossinn hefur farið í 46 útköll frá 1. desember, þar sem ýmist er veitt áfallahjálp eða fjöldahjálparstöðvar opnaðar. Upplýsingafulltrúi Rauða krossins, Brynhildur Bolladóttir, segist ekki muna eftir öðru eins. Þar er þess þó gætt að fólk brenni ekki út. „Við pössum okkur mjög vel að dreifa álagi. Það á enginn að upplifa kulnun í sjálfboðaliðastarfinu,“ segir hún.

 

Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa veitt um 1.560 einstaklingum aðstoð frá því í byrjun desember. Rauði krossinn bregst á hverju ári við fjölda alvarlegra atburða, svo sem náttúruhamförum, sam gönguslysum, húsbrunum og vinnuslysum. Á hans vegum eru hundruð sjálfboðaliða til taks allan sólarhringinn ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Um er að ræða starfsfólk með mismunandi sérþekkingu; meðal annars í stjórnun aðgerða, upp setningu fjöldahjálparstöðva og í að veita sál ræn an stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Upplýsingafulltrúi Rauða krossins, Brynhildur Bolladóttir.

Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðarvarnarkerfi Rauða krossins í gang. Hlutverk Rauða krossins í almanna vörnum ríkisins er fjöldahjálp og félagslegt hjálp arstarf sem felst einkum í því að útvega fæði, klæði og húsaskjól og veita upplýsingar til fólks á neyðar stundu. Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar koma þarf stórum hópum fólks í skjól, svo sem vegna rýmingar hverfa eða landssvæða og í kjölfar náttúruhamfara.

183 sjálfboðaliðar í áfallateymi

Rauði krossinn rekur áfallateymi, sem segja má að sé fyrsta sálræna hjálpin sem fólk fær í kjölfar slysa eða annarra alvarlegra atburða. Brynhildur segir að í langflestum tilvikum sé það áfallateymi Rauða krossins sem veiti áfallahjálpina en áfallateymi sé einnig starfrækt á Landspítalanum og á vegum stærri sveitarfélaga.

„Í áfallateymunum sjálfum eru 183 sjálfboðaliðar en um 600 manns eru skráðir í fjöldahjálp hjá okkur,“ segir hún. Brynhildur segir að álagið að undanförnu hafi verið svakalega mikið. Engu að síður hafi starfið gengið vel. Hún rifjar upp að þótt álagspunktar hafi orðið í vissum landshlutum hafi útköllin dreifst býsna vel um landið. Það sé lán í óláni. „Við vildum hins vegar gjarnan að við hefðum minna að gera. Rauði krossinn vildi að hann væri óþarfur.“

- Auglýsing -

Sálræn skyndihjálp

Aðspurð segir Brynhildur að áfallateymið veiti björgunarfólki reglulega áfallahjálp. Björgunarfólk þurfi oft að upplifa mjög erfiða atburði. Aukin þekking hafi sannað að í kjölfar slíkra aðstæðna sé mikilvægt að geta talað við einhvern. „Björg unarfólkið þarf að huga mjög vel að sér,“ segir hún. „Þegar koma upp erfiðar aðstæður erum við til staðar fyrir björgunarsveitirnar og aðra sem koma að. Við erum í dag sem samfélag meðvitaðri um hvaða áhrif það getur haft að verða vitni að erfiðum atburðum.“

Hún tekur þó fram að lögreglu­ og sjúkraflutningafólk sé með fólk innan sinna vé banda, sem komi því til aðstoðar. Í áfallateymi Rauða krossins eru sem fyrr segir 183 sjálfboðaliðar. Í þeim hópi eru einhverjir sálfræðingar en áfallahjálpin er í raun ekki fagleg aðstoð, að sögn Brynhildar. „Þetta eru sérþjálfaðir sjálfboðaliðar sem hafa lokið námskeiði í sálrænum stuðningi. Þeir eru margir mjög reynslumiklir.“ Hún segir að áfallahjálpin felist ekki síst í því að koma saman eftir slys, tala saman og veita upplýsingar. „Það nægir oft mjög mörgum en alls ekki öllum.“

- Auglýsing -
Rauði krossinn hefur farið í 46 útköll frá 1. desember. Hér ráða meðlimir ráðum sínum, enda er oftast nær í mörg horn að líta

Sumir þurfa á frekari aðstoð að halda og þá beinir áfallateymið þeim til fagaðila, svo sem til sálfræðinga. Áfallateymið veiti eins konar sálræna skyndihjálp og hún dugi í mörgum tilvikum. „Við dreifum oft bæklingum sem innihalda upplýsingar um hvert fólk getur leitað og hvernig því getur liðið. Fólk þarf stundum bara að vita hvort það sé eðlilegt að líða svona eða hinsegin eftir erfiða atburði. Við hvetjum fólk annars til að leita sér faglegrar aðstoðar ef ástæða þykir til,“ segir Brynhildur. Þess má líka geta að Rauði krossinn heldur úti Hjálparsímanum, 1717, og netspjalli á 1717.is, sem opið er allan sólarhringinn. Þar hlusta sjálfboðaliðar og svara. Þeir geta líka veitt upplýsingar til fólks um hvert það eigi að snúa sér í kerfinu.

Snjóflóðin 1995 upphafið að áfallahjálpinni

Meðlimir áfallateymis Rauða krossins eru á bak vakt allt árið um kring. Brynhildur segir að þeir séu staðsettir um allt land en misjafnt sé eftir staðsetningu óhapps hversu margir séu til taks. Öfugt við það sem tíðkist í starfi björgunarsveitanna geti tiltölulega fáir einstaklingar í áfallateyminu veitt stórum hópi aðstoð. Hún nefnir sem dæmi að í stóra útkallinu við Langjökul í janúarbyrjun, þar sem 39 ferðamenn voru hætt komnir, hafi sjö manns úr áfallateymi veitt fólkinu stuðning þegar það var komið til byggða.

Áfallateymi Rauða krossins hefur hjálpað fjölmörgum einstaklingum, sem upplifað hafa erfiða hluti undanfarnar vikur.

„Í snjóflóðunum sem urðu fyrir vestan sendum við tíu manns frá Ísafirði til Flateyrar.“ Brynhildur segir að fyrsta fjöldahjálparstöð Rauða krossins hafi verið opnuð eftir Vestmannaeyjagosið. Þar hafi fjögur þúsund manns verið hjálparþurfi. Fyrsta áfallahjálpin hafi hins vegar verið veitt í tengslum við snjóflóðin mannskæðu 1995. Hún segir að á þeim 25 árum sem liðin séu frá þeim atburðum hafi orðið til mikil þekking. „Þetta er orðið miklu betra núna. Í dag erum við partur af almannavörnum,“ útskýrir Brynhildur. Aðspurð segir hún að innan raða Rauða krossins sé enn starfandi fólk sem hafi komið að aðgerðum á Flat eyri og Súðavík á sínum tíma. „Það er hjá okkur fólk sem hefur farið með okkur í gegnum þetta allt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -