Miðvikudagur 29. júní, 2022
9.8 C
Reykjavik

Refsiþyngingu beitt í sérlega grófu nauðgunarmáli – Sakborningur þarf þó aldrei að sitja í fangelsi

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í nýjasta tímariti Mannlífs er fjallað um skilorðsbindingu nauðgunardóma og þá staðreynd að sakborningar í grófum kynferðisbrotum þurfa í mörgun tilfellum ekki að sitja af sér dóma sína hér á landi. Farið er yfir nýlegt mál þar sem brotið þótti svo gróft að refsiþyngingarákvæði var beitt, en dómurinn var þrátt fyrir það skilorðsbundinn að fullu.

Í greininni er málið reifað og íslenska dómskerfið borið saman við það sænska, hvað varðar kynferðisbrotamál og refsingar. Einnig er rætt við nokkra álitsgjafa.

 

Löng málsmeðferð

Í fréttaskýringaþættinum Kveik var nýverið fjallað um brotalamir á málsmeðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Einn brotaþolinn sem steig fram með sögu sína í þættinum lýsti því hvernig meðferð á nauðgunarmáli hennar hefði tekið sex ár í heildina, á tveimur dómstigum. Málið endaði með sakfellingu – en dómurinn var skilorðsbundinn að fullu. Ástæða þess var sögð löng málsmeðferð og að ekki væri hægt að kenna sakborningi um það. Sama skýring var gefin á skilorðsbindingu dómsins yfir Jóni Páli Eyjólfssyni.

Það brot átti sér stað á hótelherbergi erlendis árið 2008. Árið 2018 hóf lögregla frumkvæðisrannsókn á málinu, sem endaði með ákæru. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll þann 30. nóvember árið 2020, lýsir grófu ofbeldi Jóns Páls á hendur brotaþola. Þar segir meðal annars að hann hafi kastað sér á konuna þar sem hún lá í rúmi á hótelherberginu og haldið henni fastri. Hún hafi barist um og átökin endað með því að konan féll í gólfið. Þar hafi Jón Páll komið í veg fyrir að hún gæti staðið á fætur með því að grípa í fótlegg hennar, svo hún skall harkalega með hnéð í gólfið og datt á bakið. Þá hafi hann sett hné sitt í bringu hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut stóran marblett af.

Þar segir meðal annars að hann hafi kastað sér á konuna þar sem hún lá í rúmi á hótelherberginu og haldið henni fastri.

Eftir þetta hafi konunni tekist að skríða aftur upp í rúm sitt en þangað hafi Jón Páll elt hana, lagst ofan á hana og haft við hana samræði án samþykkis hennar. Skýrslur frá neyðarmóttöku, sem konan leitaði til daginn eftir, við komuna til Íslands, sýna að hún hefði meðal annars hlotið marga marbletti og sár á ýmsum stöðum, rispur og núningssár auk sprungu í slímhúð við leggangaop. Allt var þetta talið samræmast sögu hennar. Myndir voru teknar af áverkunum á neyðarmóttöku.

- Auglýsing -

Í niðurstöðukafla skýrslu læknis segir að brotaþoli hafi gefið greinargóða sögu þegar hún leitaði á neyðarmóttöku og gekkst undir skoðun. Hún hafi verið dofin, tætt og aum um allan líkama og í kynfærum.

Meðal gagna í málinu voru skrifleg samskipti Jóns Páls og brotaþola þar sem Jón Páll gekkst afdráttarlaust við brotinu. Framburðir vitna fyrir dómi voru taldir auka trúverðugleika framburðar brotaþola en draga úr trúverðugleika framburðar Jóns Páls. Brotaþoli var sagður hafa verið samkvæmur sjálfum sér um meginatriði málsins frá upphafi og framburður því talinn trúverðugur.

Hún hafi verið dofin, tætt og aum um allan líkama og í kynfærum.

Jón Páll Eyjólfsson.

 

Skilorðsbinding jafnar refsiþyngingarákvæði við jörðu

- Auglýsing -

Jón Páll var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa án samþykkis haft samræði við brotaþola, með því að beita hana nánar tilgreindu ofbeldi og ólögmætri nauðung svo að hún hlaut áverka af.

Í héraðsdómi beitti héraðsdómarinn Barbara Björnsdóttir refsiþyngingarákvæðinu (195. gr. almennra hegningarlaga), sem er einungis beitt þegar ofbeldið er „stórfellt og sérlega sársaukafullt og meiðandi“. Þannig er ákvæðið almennt einungis notað í tilfelli nauðgana sem taldar eru sérlega ofbeldisfullar og alvarlegar. Þrátt fyrir þetta var sú ákvörðun tekin að skilorðsbinda refsinguna, sem svo var staðfest af Landsrétti. Með öðrum orðum; Jón Páll Eyjólfsson þarf aldrei að sitja í fangelsi fyrir brot sitt.

Í augum hins almenna leikmanns getur það ekki annað en vakið undrun að refsiþyngingarákvæði sé beitt í máli sem þessu, en dómurinn svo skilorðsbundinn að fullu. Þarna má segja að skilorðsbindingin, refsileysið, jafni refsiþyngingarákvæðið við jörðu.

Með öðrum orðum; Jón Páll Eyjólfsson þarf aldrei að sitja í fangelsi fyrir brot sitt.

Héraðsdómari lagði til grundvallar skilorðsbindingu dómsins að langt væri liðið frá því brotið var framið og að rannsókn hefði dregist á langinn.

Þegar málið er skoðað í samhengi við þá skýringu kemur ýmislegt í ljós sem dregur úr réttmæti hennar.

Þegar málið var kært var um áratugur liðinn frá brotinu. Kynferðisbrot þar sem þyngsta refsing varðar meira en tíu ára fangelsi fyrnast á fimmtán árum. Rannsókn málsins tók um 14 mánuði, sem er ekki lengra en gengur og gerist í þessum málaflokki. Auk þess var það ekki ákvörðun brotaþola að kæra málið, heldur hóf lögregla frumkvæðisrannsókn á málinu, eins og fram kemur í dómnum og réttargæslumaður brotaþola hefur bent á. Augljóslega þótti lögreglu því full ástæða til að rannsaka brotið og færa það svo inn á borð ákæruvaldsins, enda er um að ræða sérlega ofbeldisfulla árás.

 

Greinina má í heild sinni lesa í vefútgáfu blaðsins. Einnig má nálgast ókeypis eintak af tímaritinu í Hagkaup, Bónus og á N1.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -