Fimmtudagur 21. september, 2023
3.8 C
Reykjavik

Reykjavíkurborg mismunar börnum eftir búsetu

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þegar litið er á opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavíkurborg virðist vera að borgin mismuni börnum borgarinnar eftir búsetu.

Lítið samræmi hefur verið undanfarin ár í félagsmiðstöðvastarfi borgarinnar þegar kemur að opnunartímum þeirra og er sá tími síbreytilegur milli ára. Börn í 5. – 7. bekk sem eru búsett í Norðlingaholti geta búist við að fá tvo klukkutíma í viku í sinni félagsmiðstöð samkvæmt heimasíðu félagsmiðstöðvarinar Holtsins, sem er staðsett í hverfinu. Það er talsvert minna en krakkar sem búa í Selási, sem er hinumegin við götuna frá Norðlingaholti, fá. Krakkar í 5. – 7. bekk sem búa í Árbænum (Ártúnsholt, Árbær og Selás) fá að minnsta kosti tíu tíma í viku í þeirra félagsmiðstöð. Það er fimmfaldur munur á tíma sem krakkarnir fá úthlutað. Svipuð mismunun er einnig hjá eldri krökkum þessara hverfa en unglingar í 8. – 10. bekk í Norðlingaholti geta aðeins mætt á kvöldopnun annan hvern föstudag meðan krakkar í flestum öðrum félagsmiðstöðvum fá að mæta öll föstudagskvöld.

Mismununin er í sumum tilfellum innan hverfa. Félagsmiðstöðvarnar Laugó og Buskinn eru með opið á kvöldin fyrir unglinga þrisvar í viku meðan félagsmiðstöðin Þróttheimar er með opið fjögur kvöld fyrir sama aldurshóp. Allar félagsmiðstöðvarnar eru staðsettar í Laugardalnum. Þeir félagsmiðstöðvastarfsmenn sem Mannlíf ræddi við segja að mismunandi opnunartímar félagmiðstöðva hafi reglulega komið upp í samtölum á fundum og hittingum á undanförnum árum en fátt sé um svör. Sérstaklega þyki það skrýtið að krakkar í 5. – 7. bekk í sama hverfi sem æfi íþróttir með sömu íþróttafélögum séu ekki með samræmdan opnunartíma í hverfinu og hafi það neikvæð áhrif á starf bæði íþróttafélaga og félagsmiðstöðva. Þá þyki það furðulegt að sumar félagsmiðstöðvar séu opnar til 23:00 á föstudagskvöldum meðan aðrar loki klukkan 22:00.

„Samræmdur opnunartími á mánudags- og miðvikudagskvöldum hefur verið kl. 19.30-22:00 en verður frá og með næsta hausti frá 19.30-21.45. Samkomulag hefur verið á milli stjórnenda félagsmiðstöðva um að á föstudagskvöldum sé svigrúm til að aðlaga opnunartíma að aðstæðum í hverri félagsmiðstöð eða hverfi og verður það áfram þannig næsta haust,“ svaraði Reykjavíkurborg eftir fyrirspurn Mannlífs um málið. Þegar þessi skerðing var samþykkt á fundi borgarstjórnar kom það mörgum félagsmiðstöðvastarfsmönnum í opna skjöldu enda hafa ýmsir embættismenn og deildarstjórar verið duglegir að gorta sig í viðtölum við innlenda og erlenda fjölmiðla af þeim árangri í starfi sem náðst hefur undanfarin áratug í félagsmiðstöðvunum. Einnig rímar svarið ekki við opnunartíma sem félagsmiðstöðvar birta sjálfar á heimasíðum sínum þar sem ljóst er að einhverjar eru með kvöldopnanir á þriðjudagskvöldum.

„Opnun tvisvar í viku fyrir 10-12 ára hópinn er útfærsluatriði þar sem sá fjöldi sem verið er að þjónusta, fjöldi úthlutaðra stöðugilda og það húsnæði sem félagsmiðstöðvar hafa til umráða er mismunandi eftir félagsmiðstöðvum og því hafa ekki verið sett inn skýrari ákvæði í reglurnar um þjónustu við þennan aldurshóp en nú er,“ svaraði borgin um muninn á opnunartímum hjá 5. – 7. bekk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -