Sunnudagur 4. desember, 2022
-2.2 C
Reykjavik

Ripp í uppreisn og farinn að heiman: Skellti sér í verslunarferð

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í dag var dagurinn sem frumburður tjaldahjónanna Tryggva og Tryggvínu hóf sig til flugs. Ábúendur í Ármúla fylgdust átekta með kennslustundum foreldranna, þar sem mátti sjá þá lokka ungana fram að brún þaksins á Ísól, þar sem fjölskyldan er búsett.

Blaðamenn Mannlífs nöguðu á sér neglurnar meðan þeir fylgdust með æfingunum, efins um þroska unganna til að hefja sig til flugs. Foreldrarnir hlytu að vera að misreikna sig.

Eins og Mannlíf hefur greint frá er einn unginn, Rupp, ansi smávaxinn ennþá. Blaðamenn þurftu að standast þá freistingu að vaða upp á þakið að sækja þann stutta eftir að fuglafræðingur tjáði þeim að sennilega leggðu foreldrarnir meiri áherslu á hina tvo í fæðuöflun; að þeir veðjuðu á þá sterkbyggðu og að sá minnsti kæmi sennilega ekki til með að lifa af.

Það gerir hann hins vegar enn sem komið er og sést gjarnan á fleygiferð um þakið með orm í gogginum, hlaupandi undan stærri og fyrirferðarmeiri bræðrum sínum.

Á meðan blaðamenn reyndu að koma þeim skilaboðum á framfæri við þau Tryggva og Tryggvínu að tríóið væri hreint ekki tilbúið til að hætta sér út í hinn stóra heim lét Ripp vaða fram af þakinu. Hann lenti þó ekki á bílaplaninu við Ísól, eins og venjan er hjá ungum hjónanna ár hvert, heldur kastaðist hann heldur klaufalega til um loftið, niður á næsta plan fyrir neðan.

Hvað er planið núna, haldiði?

Þá voru góð ráð dýr. Foreldrarnir héldu aftur upp á þak að reyna að sannfæra hina tvo um að skella sér á eftir bróður sínum. Það tóku þeir Rapp og Rupp hins vegar ekki í mál. Á meðan hljóp Ripp um neðra bílaplanið, hreint ekki eins hugaður og hann hafði verið einungis stuttu áður. Blaðamenn og aðrir velunnarar í nágrenninu áttuðu sig fljótlega á því að sá stutti væri líklega ekki alveg jafn fleygur og hann hafði viljað vera að láta. Þegar blaðamenn Mannlífs brugðu sér á planið hjá Ísól til þess að ná nokkrum myndum af Ripp á neðra planinu sáu þeir sér til hryllings hvar hann lét sig hverfa niður fyrir byggingarnar sem snúa út að Suðurlandsbraut. Þetta gat ekki endað vel.

- Auglýsing -

Blaðamenn létu sig því gossa fimlega niður veggi og steypustyrktarjárn til að kanna aðstæður. Þegar komið var niður á bílaplönin við Suðurlandsbraut var Ripp hvergi sjáanlegur (blaðamenn leituðu undir bílum og létu engan flöt ósnertan).

Tryggvi, úfinn, leitar að Ripp. Hann er þarna, ofarlega hægra megin.

Þegar komin var uppgjöf í mannskapinn og næsta víst að Ripp hefði steypt sér í glötun kom í ljós að hann var aftur mættur upp á bílaplanið. Hann hafði þá gert sér lítið fyrir og skellt sér inn í verslun. Ekki er vitað hvað hann ætlaði sér að aðhafast þar eða hvað ævintýraþyrstir ungar almennt girnast í verslunum, en starfsmenn verslunarinnar gengu vasklega til verks og tóku hann mjúklega í fangið, þar sem hann hafði tekið sér bólfestu uppi við innréttingu. Starfsmaður skilaði svo strokufanganum aftur upp á planið, þar sem hann hljóp um nokkra stund í taugatrekkingi, en óskaddaður að öðru leyti.

Þegar þetta er skrifað virðast þeir Rapp og Rupp enn hafast við á þakinu og Tryggvi og Tryggvína hafa fullt í fangi með að fá frumburðinn til að halda sig innan bílaplansins, enda margt sem hugurinn girninst þegar einu sinni hefur verið skyggnst inn í verslun.

Var þetta skynsamlegasti lendingarstaðurinn, Ripp? Við höfum öll áhyggjur.
- Auglýsing -

Hér fyrir neðan gefur að líta myndband af Ripp, tekið úr öruggri fjarlægð (myndin hefur verið færð nær), þar sem annar blaðamaður heyrist stynja úr áhyggjum, á meðan hinn dáist að hraða og leikni hins fiðraða landkönnuðar:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -