2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjarstæða að kjötát sé nauðsynlegt til að byggja upp vöðvamassa

Anna Hulda Ólafsdóttir segir algjöran óþarfa að borða kjöt og dýraafurðir til að byggja upp vöðvamassa.

Íþróttakonan og grænkerinn Anna Hulda Ólafsdóttir segir sumt fólk enn þá undra sig á að íþróttafólk geti verið hraust og sterkt án þess að borða kjöt. „Mér finnst fólk oftar en ekki furða sig á þessu þó að ég finni fyrir mikilli vitundarvakningu. Það virðist enn þá vera svolítið prentað í fólk að til þess að ná langt í íþróttum og vinna upp vöðvamassa þá þurfi fólk að borða dýr. Það er auðvitað algjör fjarstæða. Við hjónin erum sennilega ágætis dæmi um stæltar grænmetisætur,“ segir Anna Hulda og hlær. Hún starfar sem lektor við verkfræðideild HÍ en stundar crossfit og lyftingar í frítíma sínum.

Anna Hulda borðar ekkert kjöt né fisk og almennt mjög lítið af dýraafurðum. „Ég og maðurinn minn erum vegan heima en „vegiterian í veislum og boðum.“

Hún hefur aldrei verið hrifin af kjöti. „Ég hef aldrei borðað mikið kjöt né dýraafurðir. Ég hef tekið mörg tímabil þar sem ég prófaði að vera alveg vegan, raw vegan og svo grænmetisæta. Núna eru komin tæp þrjú ár síðan ég smakkaði síðasta kjötbitann og ég er nokkuð viss um að ég mun ekki bragða dýr aftur, en ég hef ekki verið eins ströng með annað eins og egg, ost og súkkulaði.“

Ýmsar ástæður að baki

AUGLÝSING


Anna Hulda segir fjórar ástæður liggja á baki þess að hún gerðist grænmetisæta og minnkaði neyslu allra dýraafurða. „Ástæðurnar eru jákvætt viðmót frá æsku í garð þessa lífsstíls og lítill áhugi á kjöti, heilsufarslegar ástæður, vegna umhverfissjónarmiða og svo vegna dýravelferðar.“

„Ég hef aldrei verið hrifin af kjöti frá því að ég man eftir mér, hef t.d. aldrei borðað steik sem ég man eftir. Og um leið og ég náði aldri til að stýra matarvenjum mínum sjálf þá var uppistaðan strax úr plönturíkinu. Ég prófaði mig áfram með alls kyns matarsamsetningu og fannst mér alltaf líða langbest ef ég sleppti öllum dýraafurðum svo það má segja að ég hafi verið mjög jákvæð fyrir þessu frá því ég man eftir mér.“

„Það var svo ekki fyrr en 2010 sem ég fór að skoða matarvenjur í samhengi við krabbamein og aðra sjúkdóma, en mamma var veik með krabba það ár, þegar ég ákvað að prófa raw vegan lífsstíl. Við hjónin prófuðum það í einhvern tíma og leið mjög vel á því mataræði. Við gáfumst þó upp á því að lokum og færðum okkur yfir í grænmetisfæði almennt svona „on off“ þar til 2016 en síðan höfum við bæði verið alveg „plant based“,“ útskýrir Anna Hulda.

„Næsti áhrifavaldur var umhyggja fyrir jörðinni okkar. Ég ber mikla virðingu fyrir jörðinni okkar og á erfitt með að sætta mig við mengunina sem kemur frá kjötiðnaðinum,“ segir Anna Hulda sem á erfitt með að réttlæta kjötát fyrir sjálfri sér eftir að hafa hlustað á marga fyrirlestra um mengun í tengslum við kjötframleiðslu.

„Að lokum hefur dýravelferð komið við hjartað á mér og fest sér rætur þar eftir að ég varð grænmetisæta. Meðferð dýra af mannanavöldum í tengslum við matvælaiðnað er oftar en ekki efni í martraðir fyrir mig. Mér finnst ekki réttlætanlegt fyrir mig að lifandi dýr sé drepið og ég borði það bara fyrir bragð. Við erum svo heppin að það er til nóg af öðrum mat til að borða,“ segir Anna Hulda að lokum. Hún vill vekja fólk til umhugsunar og hljóp því til að mynda í Reykjavíkurmaraþoninu í bol sem á stóð „vegan athlete“. Áhugasamir get fylgst með Önnu á Facebook og á Instagram.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir (@annahuldaolafs) on

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum