2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Grænkeri gefur góð ráð fyrir Veganúar

Í tilefni af Veganúar 2019 fengum við grænkerann Vigdísi Þórðardóttur til að gefa þeim sem ætla að taka þátt góð ráð. Hún segir fyrsta skrefið vera að kíkja inn á vef Veganúar.

„Á vef Veganúar er að finna ýmsar uppskriftir og máltíðarskipulag ásamt fróðleik um veganisma. Einnig er hægt að skrá sig sem þátttakanda í Veganúar þar inni og fá sendan tölvupóst daglega með ráðum og uppskriftum. Frekari fróðleik er svo að finna á heimasíðu Samtaka grænkera á Íslandi,“ segir Vigdís.

Spurð út í hvar sé best fyrir grænkera að versla í matinn segir Vigdís: „Ótrúlegt en satt þá eru vegan valkostir orðnir ansi algengir í Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaup og Hagkaup. Það er meira að segja skemmtilegt vegan horn í Blómaval Skútuvogi! Kaffi Vinyl og Veganæs eru að gera góða huti í vegan matseld og svo er meira að segja 100% vegan Gló veitingastaður á Laugarvegi með stóran matseðil, það ætti enginn að láta þessa staði fram hjá sér fara.“

Vigdís bendir þá áhugasömum á að skoða vefinn www.guide.veganisland.is. „Þar er hægt að sjá hvaða veitingastaðir bjóða upp á ljúffenga vegan valkosti. Svo er að koma út app frá þeim sem kallast Vegan Iceland, það er sniðugt fyrir svangt vegan fólk á ferðinni.“

Ekki megrunarkúr

AUGLÝSING


Algengur misskilningur er að veganlífsstílinn sé einhvers konar megrunarkúr en svo er ekki. Hvað sælgæti og snakk varðar segir Vigdís úrvalið vera mikið.

Það kann að koma mörgum á óvart að Oreo-kex er vegan.

„Allskonar góðgæti er „óvart“ vegan, t.d. dökkar súkkulaðirúsínur frá Góu, lakkrísdýr frá Freyju (ekki frá Góu samt), suðusúkkulaði, Skittles, Oreo-kex,  dökkt Brak merkt Iceland í þeim verslunum er fáránlega gott. Papriku Stjörnusnakk, original og papriku Pringles, salt&pipar og papriku Maruud, svart chilli Doritos, Turkish pepper og Dracula brjóstsykur. Brynjuís er með vegan ís úr vél og vegan nammi til að gera bragðaref og svo er veganbudin.is með ótrúlega gott úrval af allskonar vegan góðgæti,“ segir Vigdís.

Gott að hafa stuðningsnet

Vigdís segir gott stuðningsnet koma sér vel fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í Veganúar. „Fyrir þá sem eru góðir í ensku þá mæli ég með 22 daga áskorun inni á www.challenge22.com. Þar fær fólk aðgang lokuðum hóp á Facebook hóp þar sem allir standa saman í því að vera vegan í 22 dag. Reynslumiklir grænkerar svara spurningum og menntaðir næringarfræðingar gefa góð ráð. Á hverjum degi er svo boðið upp á skemmtilega áskorun. Þetta er frábært stuðningsnet.“

Að lokum mælir Vigdís með að fólk skoði Veganúar á Facebook og þá viðburði sem haldnir verða í janúar.

Hvað er Veganúar?

Veganúar er árlegt átak sem haldið er allan janúar mánuð til að hvetja fólk til að prófa að vera vegan.

Hvað er að vera vegan?

Veganismi er lífsháttur þar sem leitast er við að útiloka og forðast eftir fremsta megni hagnýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu.

Mynd / Yawen Zheng

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum