Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sandra Hlíf annaðist deyjandi föður sinn í Chile: „Ég myndi aldrei gera þetta fyrir þig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sandra Hlíf Ocares var í litlum samskiptum við föður sinn sem barn. Leiðir foreldra hennar skildu áður en Sandra kom í heiminn og faðirinn sinnti henni ekki mikið. Í helgarviðtali Fréttablaðsins segir Sandra meðal annars frá vanlíðan sinni á unglingsárum og því hve mikilvægt það sé að fólk sem starfi með börnum og unglingum átti sig á því ef eitthvað er í ólagi. Sjálf hefur Sandra starfað um árabil hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar og var aðeins 29 ára gömul þegar hún tók við sem formaður þar. Hún gefur nú kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Faðir Söndru, Julio Cesar Ocares Romo, var í háskólanámi í Chile og að vinna fyrir ríkið þegar Pinochet komst til valda þar í landi. Julio var sendur í pyntingarbúðir, sem hann náði að flýja úr og eftir mikið ferðalag kom hann hingað til lands, til Akureyrar, sem flóttamaður árið 1979. Þá var hann 27 ára gamall. Sandra segir að ef faðir hennar hefði ekki flúið land hefði hann vafalaust verið drepinn. „Þetta voru bara aftökur,“ segir Sandra í viðtalinu.

 

Faðirinn á gjörgæslu í Chile

Einn dag árið 2008 fékk Sandra símtal frá systur sinni, sem sagði henni að faðir þeirra væri kominn á gjörgæslu í Chile. Julio hafði skilið við konuna sína og flutt aftur út til Chile, en komið til Íslands annað hvert ár til að heimsækja fjölskyldu og afkomendur.

Sandra hélt strax af stað til Chile. Faðir hennar hafði greinst með heilaæxli rétt rúmlega fimmtugur og systurnar voru þess fullvissar að hann lægi fyrir dauðanum.

„Þrátt fyrir að pabbi hafi ekki alltaf komið vel fram við mig þá er foreldri alltaf foreldri og römm er sú taug. Þarna var ég líka búin að gera þetta svolítið upp og ákvað að elska hann fyrir það sem hann var og bera virðingu fyrir því. Gera þetta bara á mínum forsendum,“ segir Sandra í samtali við Fréttablaðið.

- Auglýsing -

Fjölskylda Söndru í Chile, sem hún hafði aldrei hitt fyrr, tók á móti henni og skutlaði henni upp á sjúkrahús.

„Ég myndi aldrei gera þetta fyrir þig,“ sagði faðir hennar við hana þegar hún kom til hans. Sandra segist vita það að hann hefði aldrei gert það sama fyrir hana en segist jafnframt ekki sárna þessi orð hans. Hún segir að hún myndi sjálf gera þetta fyrir hann, aftur og aftur. Þannig séu hennar gildi. Svar hennar til hans var því einfaldlega: „Ég veit það. En gott að sjá þig, pabbi minn.“

„Ég myndi aldrei gera þetta fyrir þig“

 

- Auglýsing -

Önnuðust hann við slæmar aðstæður

Julio, föður Söndru, voru upphaflega gefin þrjú ár eftir þetta en hann endaði þó á því að lifa í sjö. Þegar hann lá banaleguna komu systurnar til hans og dvöldu hjá honum í þrjár vikur. Þær hugsuðu um föður sinn og hjúkruðu honum áður en bróðir þeirra kom honum síðan fyrir hjá konu sem leigði út rúm hjá sér fyrir fólk til að deyja í. „Það er engin líknardeild eða heimahjúkrun og við eiginlega úti í sveit,“ segir Sandra.

Sandra lýsir því hvernig þær systur þurftu að annast föður sinn við aðstæður sem myndu teljast ansi slæmar á okkar mælikvarða. Til að mynda hafi þær þurft að gefa föður sínum lyf, skipta á honum, skipta um á rúminu og þvottavélin hafi verið léleg. Enginn þurrkari hafi verið á heimilinu. Þá hafi húsið verið heldur hrörlegt.

„Við myndum ekki kalla þetta hús, göt í veggjum og köngulær um allt. Við notuðum flugvélakoddana undir höfuðið og kyntum með einum gasofni sem við þorðum ekki að sofa með í gangi,“ segir Sandra.

Hún segir tímann þó hafa verið dýrmætan og að þrátt fyrir að þetta hafi verið erfitt hugsi hún til þess alls með hlýju. Hún segir að auk þess að hafa annast deyjandi föður sinn og eytt tíma með honum, hafi þær systur, sem ólust upp í sitthvoru lagi, náð að tengjast enn betur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -