Sunnudagur 8. september, 2024
7.4 C
Reykjavik

Sandra Sigrún dæmd í 37 ára fangelsi – þyngsti dómur sem Íslendingur hefur hlotið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Magga og Sandra Sigrún Fenton. Mynd/skjáskot.

Aðstand­end­ur ís­lenskr­ar konu sem hlaut 37 ára fang­els­is­dóm í Banda­ríkj­un­um fyr­ir tvö bankarán settu af stað söfn­un árið 2016, þegar hún var 26 ára svo hægt væri að kanna mögu­leika á end­urupp­töku máls­ins fyr­ir banda­rísk­um dóms­stól­um. Dóm­ur­inn er sá þyngsti sem Íslend­ing­ur hef­ur hlotið, svo vitað sé. DV fjallaði um málið fyrst miðla hér á landi, en Auður Ösp, blaðamaður tók viðtal við Söndru á þeim tíma. Í þessum flokk, baksýnisspegli er unnið út frá heimildum úr málum sem áttu sér stað í fortíðinni. Í þessu erfiða máli skal tekið fram að allar heimildir eru unnar út frá opinberum heimildum. DV fjallaði um málið fyrst árið 2016 og vekur Mannlíf athygli á því út frá þeim heimildum.

Ákærð vegna tveggja bankarána

Sandra Sigrún var 24 ára gömul þegar dómurinn féll í hennar máli árið 2014. Sandra var ákærð fyrir að hafa rænt tvo banka í Virgínuríki árið 2013. Einnig var hún ákærð fyr­ir rán, sam­ráð um að fremja rán, notk­un skot­vopna í glæp­sam­leg­um til­gangi og skot­vopna­eign í ólög­leg­um til­gangi, þrátt fyr­ir að hafa ekki verið með vopn á sér.

Dómarinn var varla búinn að sleppa orðunum þegar Sandra Sigrún hrynur niður. Hún grætur og öskrar að sögn móður hennar í samtali við DV. Lögreglumaður sparkar í hana og skipar henni að standa á fætur. Magga hleypur að þeim og segir honum að hann sparki ekki í barnið hennar. Hann lítur á hana og segir blákalt: „She´s mine.“ Hún er fangi og þar með eign ríkisins, segir í grein sem Auður Ösp tók saman á DV.

„Að horfa upp á hana þarna er það það versta og ógeðslegasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað í lífinu,“ segir Margrét þegar hún lýsir einu erfiðasta augnabliki ævi sinnar.

Var efnilegur námsmaður með bjarta framtíð

Sandra Sigrún Fenton. Mynd/skjáskot.

Þegar Sandra var fimmtán ára var hún ungur og efnilegur námsmaður með bjarta framtíð en missti tökin á lífinu og sökk á kaf í fíkniefnaneyslu. Magga telur að þar hafi tvö atvik skipt sköpum. Sandra hafði þá orðið fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi af hálfu manns sem var kvæntur frænku hennar. Áfallið og vanlíðanin í kjölfar þess áttu eftir að hafa langvarandi áhrif.

Í DV segir móðir Söndru: „Síðar þetta sama ár lenti hún í alvarlegu bílslysi, þá var keyrt á hana og hún mjaðmarbrotnaði illa. Henni var ávísað mjög sterkum verkjalyfjum og varð fljótlega háð þeim. Ég vissi áður að hún hafði verið að fikta við áfengi en þarna byrjaði vandamálið fyrir alvöru, fyrst verkjalyf og svo harðari efni. Þegar hún var komin út í kókaínneyslu bað hún mig um hjálp og óskaði eftir að ég myndi senda hana eitthvert þar sem hún gæti fengið hjálp. Hún vissi það sjálf að vandamálið væri alvarlegt. Hún fór tvisvar í meðferð þetta ár en það dugði ekki til.“

- Auglýsing -

Ekki er óalgengt að ungmenni sem leiðast út í neyslu og glæpi hafi sem börn verið greind með einhvers konar þroskaraskanir, hegðunarörðugleika eða námserfiðleika. Sú var ekki raunin með Söndru.

Móðir hennar heldur áfram að segja frá dóttur sinni í samtali við DV: „Það voru aldrei nein vandræði. Henni gekk alltaf mjög vel í skóla, enda er hún afskaplega vel gefin og klár. Hún var forvitin og henni fannst skemmtilegt að grúska í hlutunum og vildi vita hvernig allt virkaði. Henni fannst til dæmis óskaplega gaman að taka í sundur hluti, eins og klukkur og tölvur, og setja síðan saman aftur. Skólinn samþykkti hana í sérstakt prógramm sem komið var á fyrir krakka sem voru klárir í tölvum þar sem þeim var kennt að byggja og búa til tölvur.

Fjölmargar fíkniefnameðferðir

Sandra Fenton með fjölskyldu. Mynd/skjáskot

Ekki varð meira úr skólagöngu hjá Söndru eftir þetta og lenti hún að sögn Möggu á hrakhólum; fékk vinnu tímabundið á hinum og þessum stöðum en gekk illa að halda sér frá dópinu. „Á sumum vinnustöðum hérna úti þarf fólk að gangast undir eiturlyfjapróf til að fá að halda vinnunni og það stóðst hún auðvitað aldrei.“

- Auglýsing -

Næstu árin tóku við fjölmargar fíkniefnameðferðir sem skiluðu litlu. Sandra sökk djúpt í kókaínneyslu. Hún átti eftir að leiðast út í afbrot meðfram neyslunni og hlaut nokkra styttri dóma fyrir smávægileg brot á borð við fíkniefnavörslu, búðarhnupl og hraðakstur. „Það var alltaf verið að taka hana fyrir eitthvað, en aldrei voru þetta þó alvarleg brot, engin ofbeldisbrot eða neitt þannig. Hún fór fyrst í fangelsi 22 ára og sat þá inni í sex mánuði. Henni var síðan hleypt út á ökklabandi og á þeim tíma kynntist hún barnsföður sínum. Þá tóku við nokkrir góðir mánuðir þar sem hún var edrú.“

Sonur Söndru, Rylan, kom síðan í heiminn árið 2011. Hann hefur reynst ömmu sinni og afa mikill gleðigjafi. Á tímabili leit loksins út fyrir að allt væri að ganga vel en þegar sonurinn var tíu mánaða, í nóvember 2011, féll Sandra á ný og í þetta sinn sökk hún eins djúpt ofan í hyldýpið og hugsast gat. Hún hafði hitt manninn sem hafði nauðgað henni. Það varð henni gjörsamlega um megn.

„Það bara fór með hana, það opnaðist fyrir einhverja gátt og það blossuðu upp allar gömlu og ljótu minningarnar. Hún réði einfaldlega ekki við þetta. Þarna leiddist hún út í þennan mikla viðbjóð sem heróín er, og það er eins og sagt er: það eru bara tvær leiðir út úr heróíni. Fangelsi eða dauði.“

Bílstjórinn var heróínsalinn

Bandarískir fréttamiðlar greindu frá því þann 13. ágúst 2013 að ung kona hefði gengið inn í útibú banka í hafnarborginni Norfolk í Virginíu, krafið gjaldkerann um peninga og gefið í skyn að hún væri með vopn. Hún hafi flúið út með peningana þar sem 33 ára karlmaður beið fyrir utan á flóttabíl. Þau hefðu síðan keyrt yfir til Chesapeake-borgar og rænt þar annan banka á sama hátt. Umrædd kona var Sandra Sigrún. Bílstjórinn var heróínsalinn hennar, maður að nafni Duane P Goodson.

Þetta er dóttir mín sem þið eru að lýsa eftir

Sandra Sigrún Fenton. Mynd/skjáskot.

Síðla parts þennan sama dag hringdi eldri dóttur Möggu í hana og sagði henni að kveikja á sjónvarpinu. Þar blöstu við upptökur úr öryggismyndavélum bankans í Norfolk. Það var ekki um að villast hver var þar á ferð.

„Ég vissi þá hvar Sandra var því þennan dag átti hún bókaðan tíma hjá skilorðsfulltrúa í dómshúsi borgarinnar og pabbi hennar og strákurinn hennar voru þar með henni. Ég hringdi á lögregluna og sagði þeim einfaldlega: „Þetta er dóttir mín sem þið eruð að lýsa eftir. Þið verið að fara núna og ná henni áður en hún sleppur.“

Sandra hefur ætíð haldið því fram að pilturinn hafi þvingað hana til verknaðarins. Ekki er við annað að styðjast en hennar frásögn og segir Magga enga ástæðu til að draga það í efa.

Fangelsið rukkar fanga um leigu

Síðan dómur féll hefur Sandra setið inni í Fluvanna Correctional Center for Women – ríkisreknu kvennafangelsi sem staðsett er í Troy, rúmlega 90 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Richmond.

„Það eru tvær manneskjur í hverjum klefa, sem er læstur klukkan tíu á hverju kvöldi. Á daginn hafast þær við í dagstofu þar sem þær horfa á sjónvarpið og geta svo stundað einhverja vinnu. Sandra fékk starf við að þrífa klefana fyrir 30 sent á tímann. Hún hefur líka verið að stunda nám í rafvirkjun,“ segir móðir hennar í samtali við Auði Ösp, blaðamann á DV.

Fangelsið rukkar fanga um leigu fyrir vistina, 30 dollara á mánuði, og þá þurfa fangarnir að greiða aukalega ef þeir vilja auka nærföt eða undirföt innan undir fangabúninginn. Allar nauðsynjavörur á borð við sápu og tannkrem þurfa fangarnir að greiða sjálfir dýru verði. Vinna í fangelsinu er af skornum skammti og þannig fékk Sandra aðeins 30 sent á tímann fyrir þrif á klefum. Hún þarf því að reiða sig á fjárstuðning utan frá.

Minna er um eiturlyfjaneyslu heldur en gengur og gerist almennt í fangelsum enda eftirlitið gífurlegt. Reglulega eru gerðar rassíur þar sem klefum er snúið við og leitað á öllum föngum. Sömuleiðis er föngum gert að berhátta sig eftir hverja heimsókn sem þeir fá og leitað á líkömum þeirra. Niðurlægingin er mikil.

Foreldrar Söndru reyna hvað þeir geta til að gera daga hennar í fangelsinu bærilega, enda lítil afþreying í boði önnur en sjónvarpsgláp. En þar inni kostar allt peninga „ Sandra er að eðlisfari afskaplega glettin og skemmtileg og hefur gaman af svo mörgu. Hún hefur unun af að teikna og mála þannig að við höfum sent henni peninga svo hún geti keypt tréliti og málningu og hún hefur teiknað mjög skemmtilegar myndir. Hún teiknar mikið á vasaklúta, þar sem hún fær ekki pappír,“ segir móðir Söndru í samtali við Auði Ösp á DV.

Magga segir fangaverðina misjafna í framkomu sinni við fangana, á meðan sumir komi fram við þá af virðingu séu aðrir sem leggi sig fram um að gera þeim lífið leitt. Hún segir viðhorf og framkomu fangavarðanna til fanganna að mestu leyti afar ómannúðlega. Þeir hiki ekki við að láta reiði sína og gremju bitna á föngunum. Sömuleiðis nýti þeir óspart tækifærið til að flagga valdi sínu.

„Þeir nýta það óspart að taka ýmiss konar réttindi af föngunum þegar þeir fá tækifæri til þess. Í nokkur skipti sem ég hef hringt og kvartað þá hefur það umsvifalaust verið látið bitna á henni.“

Var neydd til að taka þátt í ráninu

Aðal­heiður Ósk Þor­steins­dótt­ir, frænka Söndru Sigrún­ar, sagði í sam­tali við mbl.is að ekki hafi verið tekið til­lit til sér­stakra aðstæðna Söndru Sigrún­ar. Hún hafi verið neydd til að taka þátt í rán­inu.

„Í júlí 2013 kom sá sem seldi Söndru heróín heim til henn­ar og náði í hana, hún taldi sig vera að kaupa meira efni. Hann gaf henni efni og keyrði með hana dágóða stund áður en hann fór með hana að banka. Þar tók hann fram byssu og sagði að ef hún færi ekki þar inn og rændi bank­ann myndi hann drepa hana ásamt for­eldr­um henn­ar og syni. Þenn­an leik end­ur­tók hann í öðrum banka og tók all­an pen­ing­inn fyr­ir bæði rán­in,“ sagði frænka hennar.

Sandra var hand­tek­in sam­dæg­urs og var mjög sam­vinnuþýð við lög­regl­una að sögn Aðal­heiðar Óskar. „Sandra gaf upp mik­il­væg­ar upp­lýs­ing­ar sem urðu til þess að sá sem hafði hótað henni líf­láti náðist tveim­ur sól­ar­hring­um seinna, með byss­una og all­an pen­ing­inn. Sandra var með mjög lé­lega lög­fræðinga í þess­um mál­um. Þeir réðu ekki við þessi mál og því fór sem fór,“ segir Aðalheiður á þeim tíma sem málið var í hámæli.

Binda von­ir við end­urupp­töku máls­ins

Sandra Sigrún Fenton. árið 2011 með syni sínum. Mynd/skjáskot.

Ný­lega kom í ljós að maður­inn sem var hand­tek­inn ásamt Söndru Sigrúnu í tengsl­um við rán­in var fund­inn sek­ur um að hafa framið morð árið 2007. Von­ast fjöl­skyld­an til þess að þess­ar upp­lýs­ing­ar muni ýta und­ir hugs­an­lega end­urupp­töku máls­ins.

„Ef engu verður breytt mun Sandra sitja í fang­elsi þar til hún verður rúm­lega 60 ára,“ seg­ir Aðal­heiður Ósk. Fjöl­skyld­an hef­ur hafið söfn­un fyr­ir end­urupp­töku á máli Söndru Sigrún­ar í Banda­ríkj­un­um.

Hægt er að leggja fjölskyldunni lið með því að leggja inn á söfn­un­ar­reikn­ing 0565-26-130260, kt. 081062-5879.

 

Heimildir:

Auður Ösp. 26. ágúst 2016. Sandra Sigrún dæmd í 37 ára fangelsi í Bandaríkjunum: Öskrin og gráturinn nísti inn að beini- Hlaut þyngsta dóm sem Íslendingur hefur hlotið – Í klefa með morðingja. DV.

Innlent. 26.október.2016. Valið stóð á milli bankaráns eða lífláts. Morgunblaðið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -