Fimmtudagur 12. september, 2024
8.8 C
Reykjavik

Segja MAST ekkert gera vegna illrar meðferðar á kindum: „Þetta er bara aðför að okkur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2003 var ábúandinn á bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarfirði sakfelldur fyrir að vanrækja umhirðu og fóðrun á búfé. Hlaut bóndinn fyrir það sekt. Um fjögur hundruð kindur voru annað hvort flutt til slátrunar eða í fóðrun á næstu bæi en bóndinn var ekki sviptur leyfi til að hafa dýr. Nú, tuttugu árum síðar virðist sem ástandið á bænum hafi ekkert lagast.

Ljósmynd af dauðu lambi sem sagt er vera frá Höfða en það lá dautt á Grjóthálsi. Ljósmynd: Facebook-skjáskot

Ljósmyndir og myndbönd af illa förnum og illa hirtum kindum hafa verið á dreifingu á Facebook undanfarið en þær eru við bæinn Höfða í Þverárhlíð í Borgarfirði. Er talið að fjöldi þeirra sé talsvert yfir þúsund en pláss er í fjárhúsinu fyrir um 300 kindur. Sveitungar bóndans eru uggandi yfir ástandinu og telja Matvælastofnun ekki hafa gert nóg til að stöðva þessa meðferð á dýrunum.

Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Dýralæknir gagnrýnir MAST

Mannlíf rædd við Gunnar Gauta Gunnarsson dýralækni um málið. Minnist hann dómsins fyrir tuttugu árum er bóndinn fékk sekt en fékk að halda áfram búskapnum. „Bæði í lögum um dýrahald, dýravernd og búfjárhald, þar er talað um að menn þurfi að hafa húspláss fyrir sín dýr. Það var alveg útilokað að dýrin kæmust fyrir á bænum, þarna innandyra, samkvæmt lögum. En hann fékk bara sekt. Það kom ekkert fram í dómnum að hann þyrfti að fækka svo hann hefði pláss en nei, hann fékk bara sekt. En þegar maður fór að grennslast fyrir um það þá fékk hann bara sekt en ekki þyngri dóm af því að hann hafði ekki fengið dóm áður. Þetta er eins og að ef þú dræpir mann og kæmist upp með það því þú hafðir ekki drepið mann áður. Fáránlegt argument.“ Segir Gunnar að þetta ástand hafi verið svona í fjöldi ára á bænum. „Þetta hefur viðgengist þarna áratugum saman, þetta er bara sorglegt. Ég er búinn að vera hérna í fjörutíu ár. Fólkið á bænum hefur verið heilsulaust í áratugi og sinnir þessu ekki. Þarna eru að bera úti í grjóthálsinum, kindur sem hafa sloppið og ekki komist frá burði. Ætli þær drepist ekki drottni sínum einhvers staðar í hálsinum?“

Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Gunnar er ósáttur við Matvælastofnun: „Hún getur verið að skipta sér að einhverju sárasaklausu en þar sem kemur eitthvað svona stórt upp á, þá hafa þeir bara gefist upp. Þarna fyrir nokkrum vikum þá var þarna kálfur sem hafði verið borinn úti, þá kom Matvælastofnun að því, að kálfurinn væri ekki númeraður. Og þá þurfti að gera leit og finna kálfinn og ná honum svo það fari í hann númer, það var aðal atriðið. Þetta á bara ekki að eiga sér stað.“

Gunnar hefur verið dýralæknir síðan 1983 en í nærri tuttugu ár starfaði hann sem héraðsdýralæknir. „Þá hafði maður þetta eftirlitshlutverk á hendi. En svo voru einhvernveginn dregnar úr manni vígtennurnar með það að þegar dómstólar koma svona fram, að dæma ekki manninn til þess að þurfa að hafa pláss fyrir sín dýr sem stendur í lögum um búfjárhald. Við gerðum skýrslu sem lögð var fyrir dómsstóla, ætli það hafi ekki verið með myndum um 20 til 30 síður. Við sýndum fram á alvarleika málsins en þá er tekið svona á þessu fyrir dómi. Þetta er til háborinnar skammar.“

- Auglýsing -

Ekki við bændurnar að sakast

Mannlíf ræddi einnig við heimildarmann sem vildi ekki láta nafn síns getið en hann þekkir til málsins og hefur komið inn í fjárhúsið. „Þetta er bara hræðilegt. Mér finnst kjarninn í þessu máli vera auðvitað Matvælastofnun og viðbrögð hennar. Bændurnir eru bara gamalt fólk sem gengur ekki alveg heilt til skógar. Málið er að þetta hefur viðgengist í áratugi. Það er svo margt skrítið í þessu. Eins og þú kannski veist fá bændur greitt frá ríkinu eftir svokölluð gæðastýringakerfi, þá þurfa þeir að uppfylla ákveðin skilyrði eins og skýrsluhald og allt mögulegt. Þetta fólk hefur aldrei gert það en alltaf fengið peninginn. Þau hafa gefið það upp að þau séu með eitthvað rétt undir 800 fjár að vetri. En það er algengt að það er ekki að heimtast hjá þeim 300 til 400 hausar eftir síðustu slátrun. Svo er þessu ekkert endilega slátrað á næsta ári þannig að þetta er örugglega vel yfir 1100, 1200 en þau segjast hafa 800.“ Aðspurður hvort sá fjöldi komist fyrir í fjárhúsinu á bænum svarar heimildarmaðurinn neitandi. „Nei, nei, nei, það er bara fyrir 300. Þeir ætla bara að troða þeim í fjárhúsin og hafa þetta bara á mörgum hæðum einhvern veginn og þeim troðið upp í jötunum. En svo er þetta bara úti lang mest. Og heyskapurinn, eins og í fyrra, þá var hann byrjaður í október. Þú sérð það að það verður ekki gott hey úr því. En svo er ekki nóg að heyja, það þarf líka að gefa og það er eiginlega aldrei gert. Og það er líka lögbundin skylda bænda að bólusetja dýrin en það er ekki gert. Og þau hafa ekki merkt dýrin, nema bara brota brot. Svo gengur þetta mikið á annarra manna löndum og það er mikil óánægja með það.“

Hrafnar sveima yfir kindunum.
Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Líkt og dýralæknirinn, er heimildarmaðurinn óánægður með þátt Matvælastofnunar í málinu. „Eins og ég segi, þá snýst þetta fyrst og fremst um það Matvælastofnun og eftirlitsaðilar hefðu átt að vera búin að grípa inn í fyrir löngu síðan. Og það er stundum talað um að samfélagið sé meðvirkt en það tengist þessu ekki. Það er ástæða fyrir því að Matvælastofnun er til. Það er til þess að samfélagið þurfi ekki að ganga í svona mál. Svo segjast þeir ekki hafa heimildir en það er bara ekki rétt. Þeir gætu farið þangað og lokað þessu á morgun ef þeir vilja.“

- Auglýsing -
Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Ekki nokkur fótur fyrir þessu

Þórunn Bergþórsdóttir, einn af ábúendum á Höfða segir ekkert til í þessum ásökunum og segir konuna sem birt hefur gagnrýnt þetta hvað mest á Facebook vera „bilaða“. „Það er enginn fótur fyrir þessu og þessi kona er biluð. Hún er athyglissjúk og það er bara enginn fótur fyrir þessu. Ég á bara erfitt með að koma orðum að þessu sko. Matvælastofnun er búin að skoða allt hjá okkur og það er allt í fínu lagi.“ Aðspurð hvort þau séu ekki með of mörg dýr á bænum, svarar Þórunn því neitandi. „Nei, nei, alls ekki, við erum alveg undir control eins og við megum hafa. Þetta er bara aðför að okkur. Við erum fullorðin sem búum hérna og þetta er bara aðför, ekkert annað. Það er bara ekkert að. Ekkert að kindunum okkar.“

Varðandi það að kindurnar séu farnar að ganga inn á önnur lönd segir Þórunn það eðlilegt í sveitinni. „Það gerist bara í sveitinni. Það eru allar girðingar ónýtar og það eru allir að fara að sleppa núna en það er algjör óþarfi að taka okkur svona fyrir. Þetta er bara illgirni og þessi kona er bara biluð, hún ætti bara að vera lokuð inni á Kleppi,“ sagði hún um konuna sem hefur verið dugleg að deila á bændurnar á Höfða. „Þetta er allt að fara í eyði og það er nýtt fólk að kaupa upp jarðirnar og það vill ekki hafa neitt og þá dembist allt á okkur. Ég er búinn að sitja undir ámæli hjá þessari konu, hún keyrir um hérna og reynir að finna eitthvað og hjá fleirum. Hún þykist vera eitthvað en er bara ekki neitt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -