Miðvikudagur 10. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Séra Auður Eir rengir rétt vistheimilanefndar: „Fólk hefur svo gaman af þessu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

​​Blaðamaður hitti séra Auði Eiri Vilhjálmsdóttur til þess að falast eftir svörum hennar við þeim ásökunum sem á hana, Bjarg og starfskonur heimilisins hafa verið bornar í gegnum tíðina. Meðal þeirra ásakana eru þær sem koma fram í viðtali við Sonju Ingvadóttur í nýjasta tölublaði Mannlífs, en hún er ein þeirra sem vistuð var á Bjargi á sínum tíma.

Hér fyrir neðan er brot af svörum séra Auðar Eirar sem birtust í blaðinu, en viðtalið við hana verður birt í heild sinni á vefnum innan tíðar.

 

Segist engu hafa ráðið 

Þegar blaðamaður hefur á orði að margir hafi talað um að hún sjálf hafi haft töluvert um rekstur Bjargs að segja, segir hún það ekki rétt.

„Þessu var stjórnað af þeim starfskonum sem þarna voru og svo yfirstjórn Hjálpræðishersins. Ég var ekki í yfirstjórn Hjálpræðishersins. Ég var í stjórn heimilisins,“ segir hún þegar hún er beðin um að lýsa stjórnarfyrirkomulaginu.

„Ég réð svosem ekki neinu. Ekki þannig.“

- Auglýsing -

 

Menntamálaráðherra og barnaverndarnefnd

Talið berst að því ekki hafi verið höfðað formlegt mál á hendur Bjargi í kjölfar kærunnar á sínum tíma, vegna ónógra sannana. Menntamálaráðuneytið var yfir vistheimilum og átti þátt í þeirri ákvörðun, enda fór málið meðal annars inn í ráðuneytið þegar það var rannsakað og fór á milli embætta.

Og menntamálaráðherra á þessum tíma er föðurbróðir þinn. 

- Auglýsing -

„Já.“

Blaðamaður bendir á að fólk hafi velt fyrir sér þessum tengslum. Hvort þau hafi eitthvað haft um málið að segja. Aðspurð hvað henni finnist um það svarar séra Auður Eir:

„Ekkert. Það hefur áreiðanlega ekki neitt að segja. Engan veginn. Þó ekki væri. Því svona mál verða bara að hafa sinn gang. Það verður að reka svona mál til þrautar, allra aðila vegna. Þannig að það er útilokað. Þetta er bara þannig.“

Málið fór á sínum tíma í gegnum barnavernd, hvar móðurbróðir séra Auðar Eirar, séra Gunnar Árnason sat.

Aðspurð um mat hennar á því hvort mennirnir tveir hafi verið til þess fallnir að gæta hlutleysis í störfum sínum, vegna þess að hún hafi verið náfrænka þeirra, segir hún:

„Ég segi að það sé áreiðanlegt og ég er fullviss um að þeir hafi ekki beitt sér á nokkurn einasta máta til þess að hlífa frænku sinni, enda ekki nokkur einasta ástæða til þess. Það hefði verið bara skelfilegt. Skelfilegt fyrir mig og skelfilegt fyrir þá, held ég. Svona mál verða að ganga fyrir sig.“

Hún segist glöð yfir því að málið hafi gengið sinn gang og fengið þessa niðurstöðu; hún sé viss um að niðurstaðan hafi verið rétt.

„Og ég er svona að velta því fyrir mér af hverju er alltaf verið að taka þetta upp aftur.“

Hvað heldur þú? 

Séra Auður Eir lækkar róminn. „Fólk hefur svo gaman að þessu.“

Hún vill vita hvort blaðamaður treysti ekki dómsniðurstöðunni.

Blaðamaður bendir séra Auði Eiri á, sem hún veit, að vistheimilanefnd taldi í skýrslu sinni, eftir úttekt, rannsóknir og viðtöl, að líklegra en ekki hafi verið að stúlkurnar á Bjargi hafi mátt þola ofbeldi og illa meðferð meðan þær dvöldu þar. Séra Auður Eir spyr hvaðan sú setning komi, sem blaðamaður svarar sem er, að komi úr skýrslu vistheimilanefndar.

„Já, frá Róbert Spanó. Já. Takk fyrir að segja þetta.“

Blaðamaður furðar sig á þökkunum.

Hvað áttu við?

„Vegna þess að fyrir mér er þetta svo lögfræðileg spurning, hvort vistheimilanefnd hefur lögfræðilegan rétt til að vefengja niðurstöðu dóms. Þetta er lögfræðileg spurning. Gífurlega alvarleg spurning. Ég bara þakka þér hjartanlega fyrir að segja þetta.“

Blaðamaður bendir á rannsóknarvinnu vistheimilanefndar og það að tekin hafi verið viðtöl við málsaðila; forstöðukonuna á Upptökuheimilinu, starfsfólk, séra Auði Eiri sjálfa, við konur sem dvöldu á Bjargi.

„Þetta er frelsi.“

Séra Auður Eir brosir allt í einu breitt.

„Takk.“

Hún teygir handleggina út hvorn í sína áttina á borðinu sem við sitjum við og hallar höfðinu aftur á bak. Hún hleypir út andardrætti, eins og hún sé fegin. Svo lítur hún aftur á blaðamann og klappar höndunum saman.

Hún segir það allt í lagi að blaðamaður viti ekki hvers vegna hún þakki honum fyrir með slíkum tilþrifum.

„Ég er að þakka þér fyrir það að hafa trú á vistheimilanefnd, frekar heldur en dómi héraðsdóms.“

Hún flissar.

Blaðamaður bendir séra Auði Eiri á, þótt líklega sé það óþarfi, að hægt sé að taka mál upp aftur síðar ef rökstudd ástæða þyki til þess.

„Fínt, fínt, fínt. Ég þarf ekki… Þetta er bara fínt, takk fyrir bara. Ég segi bara takk innilega fyrir.“

 

„Þær eru allar að segja ósatt“

Blaðamaður ber það upp við séra Auði Eiri að konurnar haldi ásökunum sínum til streitu, öllum þessum árum síðar.

Eru þær allar að segja ósatt?

„Þessar ásakanir sem þú last fyrir mig eru rangar.“

Þannig að þær eru allar að segja ósatt?

„Þær eru allar að segja ósatt.“

Aðspurð hvort hún sjái eftir einhverju segir hún svo ekki vera.

„Nei. Það held ég ekki. Ég gæti nú kannski ekki alveg sungið eins og Edith Piaf, „Non, je ne regrette rien“. “

 

Viðtalið, ásamt frásögn Sonju af Bjargi, má finna í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -