Sif Sigmarsdóttir skrifar um ósýnileika kvenna: „Virðing fyrir konum og störfum þeirra er hins vegar nýjung“

Deila

- Auglýsing -

Sif Sigmarsdóttir rithöfundur skrifar í pistli sínum í Fréttablaðinu um að ósýnileiki kvenna virðist ætla að verða lífseigur.

 

Vísar Sif til myndaalbúms Hildar Lilliendahl þar sem hún hefur safnað saman skjáskotum af umfjöllunum fjölmiðla þar sem birtar eru myndir af konum, en nafna þeirra er ekki getið í fyrirsögnum og/eða myndatextum. Yfirskrift albúmsins á Facebook er: „Eru konur til? Heita þær eitthvað?“

Vísar Sif sem dæmi til myndar úr þingsal. „Sem dæmi má nefna mynd úr þingsal þar sem sjá má Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem síðar varð dómsmálaráðherra. Undir myndinni stendur: „Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.“ Áslaug Arna er hins vegar ekki nafngreind. Vissulega mátti sjá Gunnar Braga og Óla Björn á myndinni; það glitti í Gunnar Braga í sætaröð fyrir aftan Áslaugu Örnu og Óla Björn á aftasta bekk. En myndin var af Áslaugu Örnu.“

Sif bendir einnig á að nýlega hlaut veitt pólska skáldkonan Olga Tokarczuk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. „Hingað til hafa verðlaunin verið karllæg,“ sagði  Anders Olsson, aðalritari Sænsku akademíunnar, af því tilefni. „En nú þegar svona margar konur eru farnar að vera svona góðar vonum við að verðlaunin verði víðfeðmari.“

Sif bendir hins vegar réttilega á að konur hafa alltaf verið skáld, þrátt fyrir að sænska akademían sé líklega fyrst núna að átta sig á því. „Hvað veldur því að ein vitrasta – og virtasta – stofnun veraldar telji að konur séu nýjar af nálinni?“

Segir Sif fyrrnefndar blaðaljósmyndir sýna að nærvera karlmanns sé nóg til að varpa svo dökkum skugga yfir konu að hún sést ekki lengur.

„En konurnar eru þarna. Þær eru dómsmálaráðherrar og skáld og allt þar á milli. Það er hins vegar ekki sama Jón og séra Jón; eða öllu heldur Jón og Jónína,“ segir Sif.

„Mergurinn málsins er þessi: Handtak karlmanns nýtur virðingar. Sama handtak konu gerir það ekki,“ segir Sif og bætir við:

„Það eru ekki konur sem eru nýjar af nálinni. Þær hafa alltaf verið til, þær hafa alltaf borið nöfn og þær hafa alltaf verið skáld. Virðing fyrir konum og störfum þeirra er hins vegar nýjung. Sú nýjung hefur þó ef til vill ekki hlotið jafnmikla útbreiðslu og talið var. Ætli hún sé ekki jafnútbreidd og nöfn kvenna í myndatextum fjölmiðla.“

Mynd / Rut Sigurðardóttir

- Advertisement -

Athugasemdir