Sífellt fleiri Reykvíkingar velja aðra ferðamáta en einkabílinn til að komast í og úr vinnu og skóla samkvæmt árlegri könnun umhverfis og skipulagssviðs borgarinnar á ferðavenjum íbúa. Laugardalur og Elliðaárdalur eru vinsælustu útivistarsvæðin í borginni.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar lét gera árlega könnun á ferðavenjum íbúa Reykjavíkurborgar til og frá vinnu eða skóla í nóvember 2021. Hér var um netkönnun að ræða, 1726 íbúar Reykjavíkur 18 ára og eldri sem eru í viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var tæp 52%

Spurt var: Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana? Niðurstaðan var:

  • 11% Fótgangandi
  • 66% Á bíl sem bílstjóri
  • 6% Á bíl sem farþegi
  • 8% Með strætó
  • 6% Á hjóli
  • 2% Á rafmagnshlaupahjóli

Þetta telst jákvæð þróun miðað við markmið stefnu Reykjavíkurborgar í lýðheilsu- og samgöngumálum. Árið 2008 keyrðu 75% aðspurðra sjálfir til og frá vinnu eða skóla á morgnanna en núna voru það 66%. Búast má við að þessi þróun haldi áfram eftir því sem þægilegra verður ferðast með öðrum hætti.

Aldur vegur þungt

Aldur skiptir máli í þessum efnum því 55% aðspurðra á aldrinum 18-34 ára keyra sjálfir til vinnu eða skóla en 75% þeirra sem eru 55 ára og eldri. Búseta er önnur breyta sem vegur þungt. Fæstir keyra á morgnanna úr Vesturbæ og Miðborg eða 51%, íbúar þar ganga gjarnan (21%) eða hjóla (13%) , fara með strætó (8%), sem farþegar á bíl (2%) eða á hlaupahjóli (5%). Aftur á móti keyra 77% Grafarvogsbúar og Kjalnesingar til vinnu eða 77%.

Börn á leið í skóla

Spurt var: Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann í morgun/síðasta skóladag? Niðurstaðan var:

- Auglýsing -
  • 64% Fótgangandi
  • 19% Á einkabíl
  • 10% Með strætó/skólabíl
  • 6% Á hjóli
  • 1% Á rafmagnshlaupahjóli

Niðurstöður við þessari spurningu eru á svipuðu róli og oft áður en þó fækkaði ferðum á hjóli í skóla frá því sem fara fyrir haustið 2020 en það kann að hafa áhrif að könnun fór fram fyrr að haustinu 2020 en nú.  Börn notuðu strætó töluvert og fóru 10% barna með strætó í skólann. 19% barna er skutlað á bíl í skólann. 1% þeirra fara á rafmagnshjóli. Yfir 60% barna í öllum hverfum fara fótgangandi í skólann en þó flest í Breiðholti (67%) og Grafarvogi/Kjalarnesi (68%).

Margir vilja nota aðra ferðamáta en einkabílinn

Í annars konar ferðavenjukönnun sem Maskína gerði fyrir Reykjavíkurborg sl. sumar kemur fram að 43% aðspurðra vilja í raun fara sjálfir á einkabílnum til og frá vinnu. 18% vilja hjóla og önnur 18% ganga til og frá vinnu. Þar kom fram að ef markmiðið er að fækka bílferðum til og frá vinnu, þá virðast liggja tækifæri til þess í hverju hverfi í Reykjavík. Yngri bílstjórar hafa greinilega meiri áhuga til þess en eldri bílstjórar.

Áhugavert er að sjá muninn á milli kynslóða en rúmlega 41% þeirra sem eru 18-29 ára vilja helst fara á einkabíl og segja má að minnihluti 50 ára og yngri vilji fara á bílnum, en um 72% sjötíu ára og eldri vill fara á honum.

- Auglýsing -

Vinsælustu útivistarsvæðin

Einnig var spurt í í leiðinni í þessum spurningarvagni: Hefur þú heimsótt neðangreind útivistarsvæði Reykjavíkurborgar á sl. 12 mánuðum? Vinsamlega merktu við öll þau útivistarsvæði sem þú hefur heimsótt. Þessi reyndust vinsælust

  • 56% Laugardalur (Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og Grasagarðurinn meðtaldir)
  • 55% Elliðaárdalur
  • 48% Reykjavíkurtjörn
  • 47% Nauthólsvík
  • 43% Heiðmörk
  • 42% Klambratún
  • 41% Öskjuhlíð

Þessi útivistarsvæði virðast halda vinsældum sínum á svipaðan hátt ár eftir ár,  þó voru þau mörg hver heldur vinsælli árið 2017. Tíðarfar hefur áhrif á heimsóknir á útvistarsvæði s.s. eins og Nauthólsvík og Bláfjöll.

Könnun á ferðavenjum og útivistarsvæðum