Föstudagur 17. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Sigurður G. hjólar í Öfgaherinn: „Meðlimir hans stýra umræðu með ofbeldisfullum hætti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson telur að Öfgar, femíníski baráttuhópurinn, hafi á margan hátt skrumskælt hugtakið ofbeldi og skaðað hagsmuni þeirra sem í raun hafa mátt þola ofbeldi. Lögmaðurinn, sem hefur ekki farið varhluta af umræðunni um KSÍ og íslenska karlalandsliðið í fótbolta, stakk niður penna í morgun.

Tilefnið er frétt mbl.is um það hvernig Knattspyrnusambandi Íslands hafi þann 27. september síðastliðinn borist tölvupóstur frá femíníska aðgerðahópnum Öfgum. Tölvupósturinn var formlega tekinn fyrir á stjórnarfundi sambandsins þann 30. september og flokkaður sem trúnaðarmál.

Mbl.is fullyrðir að í tölvupóstinum hafi mátt finna nöfn sex leikmanna landsliðsins, ásamt dagsetningum meintra ofbeldis- og kynferðisbrota þeirra.

Sömuleiðis hafi þjálfari karlalandsliðsins, Arnar Þór Viðarsson, verið gagnrýndur harðlega fyrir orðræðu sína í samskiptum við fjölmiðla undanfarið og hann sakaður um að gera lítið úr meintum þolendum.

Tölvupóstur þessi er sagður vera ástæða þess að Arnar Þór hafi ekki mátt velja alla þá leikmenn sem hann vildi fyrir leiki íslenska karlalandsliðsins í októbermánuði. Það vakti enda athygli að ýmsa lykilmenn vantaði í liðið í leikjum Íslands gegn Armeníu og Liechtenstein.

Sigurður G. Guðjónsson er í færslu morgunsins á Facebook-síðu sinni hvergi nærri sáttur við málið, eins og svo oft áður í þeim stormi sem KSÍ hefur gengið í gegnum að undanförnu.

- Auglýsing -

„Rannsóknarréttur íþróttahreyfingarinnar. Morgunblaðið greinir frá því á forsíðu í dag að sex landsliðsmenn í knattspyrnu séu eða hafi verið sakaðir um brot. Þess vegna má ekki velja þá í landsliðið. Þessar ásakanir munu koma fram í tölvupósti sem svokallaður aðgerðarhópur sendi stjórn KSÍ 27. september sl.,“ segir Sigurður í færslunni.

Hann tekur baráttuhópinn Öfgar sérstaklega fyrir:

„Aðgerðarhópurinn ber heitir Öfgar, sem er réttnefni, enda stýra meðlimir hans með ofbeldisfullum hætti umræðu um ofbeldi. Öfgahópurinn og einstakir meðlimir hans hafa á margan hátt skrumskælt hugtakið ofbeldi og skaðað hagsmuni þeirra, sem í raun hafa mátt þola ofbeldi.“

- Auglýsing -

Sigurður heldur áfram:

„Enginn er heldur óhultur fyrir ofbeldisásökunum og öllu ber að trúa sem öfgahópar þessir dreifa og þeir sem vilja njóta vinsælda segjast styðja þolendur ofbeldis, þó gerðir sumra þeirra sanni hið gagnstæða.

Enginn spyr þegar hávaðinn byrjar hver er þolandi í hverju tilviki fyrir sig og engum sem vill vera á vinsældavagninum dettur í hug að efast um sannleiksgildi allra þeirra frásagna um ofbeldi sem komið hefur verið á flot fyrir tilstilli Öfga, Bleika fílsins og annarra áþekkra öfgahópa.“

Sigurður er sannfærður um að fólk þori ekki að standa upp á móti hópnum.

„Af ótta við úthrópun og aftöku í bergmálshelli samfélagsmiðla bogna menn og brotna, gefast upp og hætta að fara að reglum samfélagsins eða samtaka sem þeir stjórna.“

Sigurður talar um stefnu KSÍ í málum sem þessum og þá ákvörðun að útiloka ákveðna leikmenn frá því að spila með landsliðinu. Þess ber að geta að enginn leikmannanna hefur enn verið dæmdur fyrir lögbrot, en tveir þeirra sæta rannsókn lögreglu.

Einnig hefur, eins og flestum er kunnugt, komið fram að Kolbeinn Sigþórsson var kærður fyrir brot gegn tveimur ungum konum árið 2017. Málið var að lokum leyst með skaðabótagreiðslu utan dómstóla.

„Íþróttahreyfingin hefur komið sér upp einhvers konar rannsóknarrétti í Laugardal, þar sem ekki er spurt um sekt áður en dæmt er. Stjórn KSÍ útilokar góða leikmenn frá því að spila með karlalandsliði.“

Sigurður segist sjálfur þekkja til þess að ungur strákur hafi verið útilokaður frá æfingum með knattspyrnufélagi sínu vegna ásakana, en Sigurður telur drenginn vera fórnarlamb í málinu.

„Ég þekki auk þess dæmi um að knattspyrnufélag hefur útilokað ungan dreng frá æfingum og leikjum vegna þess að hann er borinn sökum um ofbeldisbrot gagnvart stúlku á sama aldri. Engin sönnun er þó um brot hans fremur hið gagnstæða. Enginn veltir því fyrir sér hvaða afleiðingar þetta hefur haft á líf þessa unga drengs. Sem betur fer á hann góða að sem reyna að halda utan um hann. Það eru ekki allir svona heppnir.“

Sigurður er harður á því að Knattspyrnusamband Íslands eigi hvergi að koma nálægt málum sem þessum. Það séu aðrir sem eigi að skoða ásakanir um ofbeldi.

„Er ekki rétt að íþróttahreyfingin geri það sem henni ber samkvæmt lögum sínum og samþykktum og láti réttarvörslukerfið um rannsóknir sakamála hvers eðlis sem þau kunna að vera.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -