Laugardagur 28. maí, 2022
8.1 C
Reykjavik

Sjáandinn Zoe – Fjárplógsstarfsemi falsmiðils

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Það er draumur margra að geta séð hvað framtíðin ber í skauti sér, hvernig dagurinn verði og fá bót meina sinna. Þeir eru einnig óteljandi miðlarnir – sjáendurnir – sem gefa sig út fyrir að geta bætt tilveru fólks, læknað það og, síðast en ekki síst, komið því í samband við gengna ástvini eða æðri verur sem geti verndað fólk og fjölskyldur þess gegn áföllum af ýmsu tagi. Þá má ekki gleyma góðu ráðunum sem tryggja eiga hamingju og velgengni viðkomandi.
Einn slíkur sjáandi, Ann Thompson, var starfandi í miðborg New York-borgar. Ann, sem komin var á miðjan aldur þegar þessi saga hefst, hafði stundað sína klæki um margra ára skeið undir nafninu Psychic Zoe, sjáandinn Zoe. Hún auglýsti sig sem frægan miðil og veitti viðtöl sem kostuðu aðeins fimm bandaríkjadali.

Hæfileikar í hvíld

Hæfileikar Ann hljóta að hafa legið niðri að morgni miðvikudagsins 9. maí, 2018, því það kom henni í opna skjöldu þegar lögreglan bankaði upp á hjá henni og handtók hana. Ákæran hljóðaði upp á fjárstuld, svindl og spámennsku.
Sem fyrr segir kostaði viðtal við Ann einungis fimm bandaríkjadali en Ann var séð, því hún sagði viðskiptavinum – eða fórnarlömbum – sínum að þeir þyrftu að stofna hjá henni sjóð „fyrir andlega verndaráætlun til að tryggja fjölskyldum þeirra vernd“ eins og talsmaður lögreglunnar í New York-borg orðaði það.

Sjáandinn Zoe
Ann Thompson vílaði ekki fyrir sér að féfletta viðskiptavini sína.

„Hún fullvissaði þá um að sjóðurinn yrði endurgreiddur þegar verndaráætlun lægi fyrir,“ bætti talsmaðurinn við.

Sálrænir kvillar

Á meðal fórnarlamba Ann Thompson var tæplega fimmtugur karlmaður ú Miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Hann var með böggum hildar vegna einhvers sem plagaði hann þegar hann fékk viðtal við Ann 15. desember, 2017.
Næstu viku fór maðurinn reglulega til Ann í þeirri von að hann fengi lausn á sínum málum.
Ann hélt það nú. Hún sannfærði hann um að að hann „þjáðist af nokkrum andlegum kvillum sem hún gæti læknað“. Það myndi þó kosta karlkvölina, því ekkert í heimi hér er ókeypis, í það minnsta mjög fátt.

Hofið útvegar helminginn

Ann talaði karlinn inn á að kaupa gullmyntir að verðmæti 72.000 bandaríkjadala, sem hann síðan mundi „leggja á sérstakan stað í hofi hennar, sem mundi lækna áru hans,“ samkvæmt því sem segir í dómskjölum vegna málsins.
Að sögn karlsins sagði Ann Thompson að hann yrði að „útvega helming gullmyntanna og hofið hennar væri tilleiðanlegt að útvega hinn helminginn“. Hann sagði enn fremur að Ann hefði „lofað“ að þegar heilunaraðgerð væri lokið, eða á öðrum tímapunkti sem hentaði honum fengi hann „annaðhvort gullmyntirnar eða fullt verðgildi þeirra endurgreitt“.
Ann og græskulausi karlinn undirrituðu meira að segja samning þess efnis.
Vart þarf að taka fram að sú varð ekki raunin þegar karlinn, eftir að hafa borið málið undir eiginkonu sína, fór fram á endurgreiðslu. Ann hafnaði beiðninni og þar við sat.

Enginn nýgræðingur

Ann Thompson var enginn nýgræðingur á þessu sviði því hún hafði um fjögurra ára skeið beitt kanadíska konu á fimmtugsaldri sömu brögðum. Sú kona hafði þó reitt af hendi ívið hærri upphæð en fyrrnefndur karl, eða yfir 750.000 bandaríkjadali.
Sú kanadíska ákvað að leita til Ann Thompson vegna sambandsvandamála – því ekki? Viðtalið kostaði aðeins fimm dali. Ann beið ekki boðanna, skynjaði enda að konan var með djúpa und í hjarta og móttækileg fyrir hverju því sem kynni að græða þá und. Í lok viðtalsins, þann 14. febrúar, 2013, stóð konan frammi fyrir öllu alvarlegri vandamálum en hún hugði; að mati Ann var hún í „alvarlegri hættu“, hvorki meira né minna, samkvæmt dómskjölum.

Hofið … enn og aftur

- Auglýsing -

Með Ann og þessu fórnarlambi þróaðist ágætis samband, allavega hvað Ann snerti. Kanadíska konan þurfti, samkvæmt ráðum Ann, að kaupa gullmyntir og ýmislegt fleira. Til að mynda þurfti hún að kaupa 9,2 karata demantshring, annars mundi hann aldrei finna ástina á ný.

Aðsetur Ann Thompson
Grunlausir viðskiptavinir greiddu aðeins 5 dali fyrir viðtalið, en það var ekki allt.

Það sem konan keypti „yrði sett í herbergi í hofi [Ann] sem mundi hjálpa til við að halda [fórnarlambinu] hólpnu“.
Líkt og síðar hjá áðurnefndum karlmanni, fullvissaði Ann konuna um að strangt til tekið væri allt gullið og gersemarnar hennar eign og að „hofið hagnaðist ekki neitt“.
Kanadíska konan hafði þurft að reiða fram háar fjárhæðir fyrir töfraþulur sem mundu sigra ára og auk þess sem hún þurfti að byggja „gullinn píramída“ sem myndi koma í veg fyrir að hún og hennar nánustu dæju.

Einkaspæjari fenginn í málið

- Auglýsing -

Þegar upp var staðið hafði Ann tekist að svíkja, sem fyrr segir, um 750.000 bandaríkjadali út úr konunni, sem sá þó hlutina í réttu samhengi að lokum. Áður nefndur karlmaður og kanadíska konan, sem hafa aldrei verið nafngreind, réðu sama einkaspæjarann, Bob Nygaard, en hann hefur sérhæft sig í málum sem varða falsmiðla.
Að sögn Nygaards hélt Ann því fram að „hún hefði þurft að nýta féð og hina ýmsu muni til helgisiðahalds til að sigrast á illum öndum, árum og bölvun sem plöguðu fórnarlömbin og hina ýmsu fjölskyldumeðlimi þeirra“.

Vægur dómur

Þess ber að geta að Ann Thompson, „Psychic Zoe“, var ekki ein að verki, því hún hafði sér til aðstoðar undirsáta, Söruh Demetrio.
Upp úr miðjum júní, 2021, féll dómur í máli gegn þeim stallsystrum. Óhætt er að segja að þær hafi sloppið vel. Reyndar var Ann Thompson á bak við lás og slá í átta mánuði á meðan hún beið þess að málið færi fyrir dómstól, en það má til sanns vegar færa að hún hafi haft góðar „tekjur“ á þeim tíma í ljósi þeirrar refsingar sem hún var dæmd til þegar upp var staðið.Ann var dæmd til að endurgreiða kanadísku konunni 200.000 bandaríkjadali af þeim 750.000 sem hún hafði svikið út úr henni. Refsingin byggðist á samkomulagi sem Ann gerði við saksóknara og má segja á fórnarlömb hennar hafi borið skarðan hlut frá borði.
Þegar Ann játaði sig seka sagði hún meðal annars: „Ég hef í raun ekki miðilsgáfu af nokkru tagi.“ Hún bætti við að andlegir kvillar fórnarlambanna og helgisiðirnir til að vinna bug á þeim hefðu einnig verið skáldskapur einn.
Það er þó ótrúlegt.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -