2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sjálfsagt að skoða að setja takmörk á hámarksfjölda skráðra íbúa

Alls voru 73 einstaklingar með skráð lögheimili við Bræðraborgarstíg 1, í húsinu sem brann þann 25. júní með þeim hörmulegu afleiðingum að þrír létust. Ýmsar spurningar hafa vakað í kjölfar brunans, m.a. um aðbúnað þeirra sem bjuggu í húsinu og hvernig svo margir geta verið skráðir til heimilis í húsnæði sem er skráð 452,3 fermetrar.

Í svari Þjóðskrár Íslands við fyrirspurn Mannlífs sem send var í síðustu viku kom fram að ekki eru lagaleg takmörk fyrir því hversu margir mega vera skráðir með lögheimili á hverja fasteign.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir í samtali við Mannlíf að sér þyki alveg sjálfsagt að það verði tekið til skoðunar að setja einhver takmörk á hversu margir mega hafa skráð lögheimili á hverja fasteign, t.d. eftir herbergja- eða fermetrafjölda. „Ég hef fulla trú á að það verði tekið til skoðunar,“ segir Margrét.

„Frá og með 1. janúar á þessu ári hefur verið skylda að skrá lögheimili sitt í tiltekna íbúð, sem dæmi: á 1. hæð, íbúð til hægri. Við erum komin með slíka skráningu yfir 88% allra íbúa landsins og því komin með góða yfirsýn,“ útskýrir Margrét. Hún segir að með þessum auknu upplýsingum sem fólk gefur upp til Þjóðskrár verði eftirlit og utanumhald auðveldara.

AUGLÝSING


Margrét segir brýnt að bruninn við Bræðraborgarstíg 1 leiði til umbóta og veki fólk til umhugsunar. „Ég trúi því að málið muni hafa forvarnargildi. Það vill enginn húseigandi vera í þeim sporum sem eigandi Bræðraborgarstígs 1 er í,“ segir Margrét og leggur áherslu á mikilvægi þess að allar skráningar séu í lagi, þannig verði eftirlit opinberra stofnanna auðveldara.

Hafa skoðað mál þar sem fleiri en 100 eru með skráð lögheimili

Þjóðskrá Íslands hefur að undanförnu tekið upp mál að eigin frumkvæði þegar fjöldi íbúa er talinn gefa til kynna að um rangar lögheimilisskráningu geti verið að ræða. Rannsókn Þjóðskrár á um fjórum málum er lokið að sögn Margrétar en stofnunin hefur nokkur mál í vinnslu þessa stundina.

Skoðunin felur í sér að Þjóðskrá Íslands vinnur kerfisbundið að því að hafa samband við eigendur fasteigna til að kanna raunverulegan íbúafjölda.

„Við ákváðum að byrja á þeim fasteignum þar sem yfir 100 eru skráðir með lögheimili…“

„Við byrjuðum á að skoða þær fasteignir þar sem fleiri er 100 eru skráðir með lögheimili. Það var fyrsta skref, svo munum við vinna okkur niður. Þetta getur tekið dágóðan tíma en fer eftir því hversu greinargóð svör við fáum frá húseigendum og íbúum,“ segir Margrét. „Við ákváðum að byrja á þeim fasteignum þar sem yfir 100 eru skráðir með lögheimili, þá hefur okkur rekið í rogastans.“

Margrét tekur fram að brottfluttir íbúar gefa oft skakka mynd af fjölda íbúa til lögheimilis í tilteknu húsnæði. „Við byrjum á að hafa samband við eigendur fasteigna, svo þarf stundum að hafa samband við einstaklingana sjálfa. Fólk á sjálft að gefa upplýsingar til Þjóðskrár um sitt lögheimili en oft kemur í ljós að fólk er jafnvel flutt úr landi og hefur gleymt að tilkynna það til Þjóðskrár,“ útskýrir Margrét. Hún bætir við að Þjóðskrá getur einnig kallað eftir upplýsingum frá stjórnvöldum, Skattinum og atvinnurekendum í leit að svörum.

Þjóðskrá Íslands tekur við ábendingum bæði frá eigendum og þriðja aðila um einstaklinga sem ekki eiga raunverulega búsetu á skráðu lögheimili. Aðspurð hvort að þeim berist margar líkar ábendingar segir Margrét: „Já, það er alltaf svolítið um það.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum