Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Slegin með glerflösku og slökkvitæki á Hagamel: „Ósáttur að hún hafi verið í tygjum við blökkumann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kona á fimmtugsaldri varð fyrir líkamsárás að kvöldi 21. september 2017 á Hagamel 18. Hún varð úrskurðuð látin þegar hún var komin á Landspítalann. Tveir karlmenn voru handteknir á vettvangi, annar var erlendur ríkisborgari á fertugsaldri og var hann gestkomandi, en hinn var Íslendingur á þrítugsaldri og búsettur í húsinu. Konan sem lést bjó einnig í húsinu.

Maðurinn var hælisleitandi frá Jemen en konan frá Lettlandi. Maðurinn, Khaled Cairo, hafði slegið hana með glerflöskum og slökkvitæki. Hann kvaðst vera ósáttur að hún hafi verið í tygjum við blökkumann. Cairo hegðaði sér undarlega í samskiptum við lögreglu og í dómssal, en var ekki metinn ósakhæfur eða siðblindur og var dæmdur í 16 ára fangelsi.

Khaled Cairo. Mynd. Skjáskot.

Sló hana í höfuðið með 10 kílóa þungu slökkvitæki

Konan var 44 ára gömul og frá Lettlandi. Hún lét eftir sig þrjú börn og foreldra. Khaled var gefið að sök að hafa slegið hana með glerflöskum í höfuð og andlit, slegið hana í höfuðið með tíu kílóa þungu slökkvitæki og þrengt kröftuglega að hálsi hennar.

Khaled var í héraði dæmdur til að greiða hverju og einu þriggja barna konunnar þrjár milljónir króna í bætur og foreldrum hennar 1,6 milljónir króna hvoru um sig. Lögmaður aðstandenda hennar fór fram á að bætur foreldranna yrðu hækkaðar til jafns við börnin. Fór svo að bæturnar voru staðfestar í Landsrétti.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Khaled, krafðist sýknu fyrir dómi eða ellegar að dómurinn yrði mildaður. Það hefði ekki verið ætlan Khaled að myrða konuna heldur hefði hann tryllst á staðnum að því er fram kom í fréttum RÚV við meðferð málsins í Landsrétti.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í málinu, sagði það fráleitt að halda því fram að ofsafengin og kvalafull árás Khaled hefði ekki verið tilraun til manndráps. Hann krafðist staðfestingu dómsins sem varð raunin.

- Auglýsing -

Síðar kom fram í máli Vilhjálms, verjanda Khaleds, við dómsuppsöguna að Khaled uni dómnum og að ekki yrði óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstarétts.

Khaled Cairo. Mynd. Skjáskot.

Hláturinn varnarviðbrögð frekar en geðrof

Tveir geðlækn­ar báru vitni fyr­ir dómi og lýstu þeir því báðir að Khaled Cairo væri sak­hæf­ur. Ann­ar geðlækn­ir­inn taldi lík­legt að hlát­ur Cairo við skýrslu­töku væri varn­ar­viðbrögð frek­ar en geðrof eða eitt­hvað slíkt.

Nanna Briem lýsti því að hún og ann­ar geðlækn­ir hefðu átt þrjú sam­töl við Cairo á Litla-Hrauni. „Niðurstaða okk­ar er sú að Khaled Cairo er sak­hæf­ur,“ sagði Nanna fyr­ir dómi.

- Auglýsing -

Hún sagði að þau hefðu ekki séð mik­il merki um iðrun og sam­kennd hjá hon­um og að hann væri viðkvæm­ur fyr­ir höfn­un.

Sló hana tveim­ur högg­um áður en hann missti stjórn á sér

Nanna lýsti því hvernig Cairo út­skýrði fyr­ir henni hans hlið frá kvöld­inu þegar konan lést. „Áður en hann missti al­veg stjórn á sér sló hann hana tvisvar. Hvort högg um sig var fyr­ir þá menn sem hún var í sam­bandi við og högg­in voru í refs­inga­skyni. Þegar vitnið birt­ist í dyra­gætt­inni missti hann end­an­lega stjórn á sér,“ sagði Nanna þegar hún lýsti því sem Cairo sagði.

Spurð hvort hann hefði verið reiður vegna þess að maður­inn sem birt­ist í dyra­gætt­inni er svart­ur sagðist hún eiga erfitt með að dæma það út frá sam­töl­um þeirra. Hins veg­ar var ljóst að hann var veru­lega ósátt­ur.

Mik­il reiði og af­brýðis­semi

Sig­urður Páll Páls­son geðlækn­ir hitti ákærða fimm sinn­um. Sig­urður sagði fyr­ir dómi að hon­um fynd­ist ákærði hreinn og beinn og geðskoðun hans hefði verið eðli­leg. Ákærði hefði þó verið svo­lítið ör og hann hefði sjálf­ur lýst mik­illi reiði og af­brýðis­semi sem gerði hann nán­ast ómann­leg­an.

„Mitt mat er að hann er sak­hæf­ur,“ sagði Sig­urður.

„Hann var ósátt­ur við að hún hafi verið í sam­bandi við aðra menn og hann upp­lifði þetta sem sam­band af sinni hálfu. Hann sagði að þau hefðu einu sinni sofið sam­an og eft­ir það væri þetta mest á net­inu,“ sagði Sig­urður þegar hann lýsti því sem Cairo ræddi við hann.

Hann sagði, líkt og Nanna, að Cairo hefði orðið gríðarlega reiður og misst stjórn á sér und­ir áhrif­um áfeng­is kvöldið þegar konan var myrt. „Hann kenn­ir henni um að hann missti sig,“ sagði Sig­urður.

Lík­lega mann­dráp

Sebastian Kunz rétt­ar­meina­fræðing­ur fram­kvæmdi krufn­ingu á konunni. Hann sagði dánar­or­sök blóðleysi til höfuðs sök­um höfuðhögga en auk þess mætti finna áverka á hálsi eft­ir kyrk­ing­ar og það gæti verið meðvirk­ur þátt­ur.

Hann sýndi fjölda mynda þar sem mátti sjá áverka sem konan varð fyr­ir kvöldið sem hún lést. Hann sagði nokkuð ljóst að and­látið hefði borið að með óeðli­leg­um hætti og lík­lega væri um mann­dráp að ræða.

Sagði Ísland öruggasta land í heimi

Elsta dótt­ir henn­ar ræddi við Morgunblaðið árið 2017 um sorg­ina og þakk­lætið í garð allra sem aðstoðuðu fjöl­skyld­una á erfiðum tím­um.

Líf lett­neskr­ar fjöl­skyldu um­turnaðist á ör­skots­stundu þegar morð var framið í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur í lok sept­em­ber. Konan var myrt á hrotta­leg­an hátt í landi sem hún hafði sagt börn­um sín­um að væri það ör­ugg­asta í heimi.

„Við feng­um frétt­irn­ar á mjög harka­leg­an hátt. Lög­regl­an kom heim til ömmu minn­ar og afa og af­henti þeim orðsend­ingu frá sendi­ráði Lett­lands í Osló um að móðir mín hefði lát­ist og að um ein­hvers kon­ar glæp væri að ræða.

Ekk­ert meira, eng­ar út­skýr­ing­ar, ekk­ert. Amma hringdi og færði okk­ur frétt­irn­ar.“

Biðu heila helgi eft­ir frek­ari frétt­um

Áfallið var skilj­an­lega yfirþyrm­andi og spurn­ing­arn­ar marg­ar.

„Í orðsend­ing­unni var síma­núm­er hjá lög­regl­unni á Íslandi þannig að næsta dag hringd­um við í það núm­er. Ég var í al­gjöru sjokki og af­neit­un. Ver­öld­in hrundi enda höfðum við átt von á henni hingað heim tveim­ur dög­um síðar. Við hringd­um í lög­regl­una á Íslandi strax dag­inn eft­ir og okk­ur var sagt að rann­sak­andi myndi hringja í okk­ur til baka eins fljótt og hægt væri.

Þetta var á föstu­degi en svo heyrðum við ekk­ert í lög­regl­unni fyrr en í vik­unni á eft­ir, þrem­ur eða fjór­um dög­um eft­ir að við feng­um frétt­irn­ar fyrst,“ seg­ir dóttirin.

Sú bið tók veru­lega á fjöl­skyld­una. „Þetta var ólýs­an­leg­ur sárs­auki og reiði sem hellt­ist yfir okk­ur þessa daga. Það voru all­ir í áfalli og við viss­um ekk­ert.“

Þegar lög­regl­an hafði sam­band gat hún ekki sagt margt, en tjáði þeim að frek­ari upp­lýs­ing­ar fengju þau þegar þau kæmu til lands­ins.

Erfið Íslands­för

Dóttir konunnar seg­ir ferðina hingað til Íslands hafa tekið á þau öll en er þakk­lát fyr­ir aðstoðina sem þau fengu.

„Við vor­um fjög­ur sem kom­um til Íslands. Ég, syst­ir mín, unnusti minn og ein vin­kona mömmu. Ferðin var auðvitað ekki ánægju­leg en við viss­um það fyr­ir­fram og gerðum okk­ar besta til að höndla þetta.

Það var mjög erfitt að und­ir­búa okk­ur fyr­ir jarðarför­ina, velja kjól­inn á hana, upp­á­halds­lagið henn­ar og tala við prest­inn. En það var ótrú­lega mikið af hjálp­legu fólki í kring­um okk­ur. Jarðarför­in var skipu­lögð af lett­nesk­um kon­um sem búa hér á landi og vinnu­fé­lag­ar mömmu á Swan hót­el skipu­lögðu erfi­drykkj­una.

Það var ótrú­legt hvað fólk var til­búið að gera mikið fyr­ir okk­ur. Þetta var í raun stór­kost­legt en átak­an­legt á sama tíma.“

Ætlaði sér að búa hér áfram og læra ís­lensku

Konan kom fyrst til Íslands og vann úti á landi við ferðaþjón­ustu. Frá því í fe­brú­ar sama ár og hún var myrt hafði hún starfað við þrif á íbúðahót­eli í miðbæ Reykja­vík­ur og eins og fram hef­ur komið var hún ákaf­lega vel liðin meðal vinnu­fé­laga og undi hag sín­um vel hér á landi. Hún sagði börn­um sín­um oft frá Íslandi og hversu vel henni líkaði að vera hér.

„Mamma elskaði Ísland, hún elskaði fólkið hér og hún ætlaði sér að vera hér áfram, læra tungu­málið og vildi geta aðlag­ast þjóðfé­lag­inu enn bet­ur og þrosk­ast hér sem ein­stak­ling­ur. Hún sagði okk­ur að Ísland væri ör­ugg­asti staður á jörðinni. Því­lík kald­hæðni,“ seg­ir dóttir konunnar.

„Hún vildi líka að Ketija syst­ir mín kæmi til Íslands til að stunda há­skóla­nám og var búin að bjóða henni að koma.“

„Hún var besta vin­kona mín“

Sorg­in var yfirþyrm­andi og fjöl­skyld­an reyn­di að tak­ast á við hana í sam­ein­ingu að sögn dótturinnar.

„Þetta er ennþá mjög erfitt, bæði að tak­ast á við sorg­ina og að sætta sig við að þetta hafi gerst. Ég er sjálf að vinna með sál­fræðingi í að læra að lifa með þessu at­viki. Ég reyni að vera sterk og halda áfram, en margt hef­ur breyst eft­ir að hún fór og framtíðin lít­ur öðru­vísi út. Hún var besta vin­kona mín.

Syst­ir mín og bróðir gera líka sitt besta til að lifa með þessu en það er mjög erfitt og við mun­um öll þurfa lang­an tíma til að ná okk­ur.

En ég er mjög stolt af yngri systkin­um mín­um því þrátt fyr­ir þenn­an harm­leik þá eru þau mjög sterk og halda áfram að lifa líf­inu.“

Söfn­un sem sett var af stað hér á landi fyr­ir fjöl­skyldu fórnalambsins gekk mjög vel og marg­ir, meðal ann­ars for­seti Íslands, létu fé af hendi rakna til að styðja við fjöl­skyld­una og mæta kostnaði við út­för hér á landi og annað til­fallandi. Söfn­un­in var gíf­ur­lega mik­il­væg fyr­ir þau að sögn rétt­ar­gæslu­manns þeirra og seg­ir hann þau hvarvetna hafa mætt góðu viðmóti og mikl­um skiln­ingi á erfiðri stöðu.

 

Heimildir:

Auður Ösp. 18. apríl 2018. Khaled öskraði þegar fangelsisdómur var kveðinn upp. DV.

Dóms- og lögreglumál. 8. janúar 2019. Kvalafull árás sem gæti aðeins leitt til dauða. RÚV.

Eyrún Magnúsdóttir. 5. nóvember 2017. Sagði Ísland öruggasta land í heimi. Morgunblaðið.

Innlent. 21. mars 2018. Telja Cairo sakhæfan. MBL.

Kolbeinn Tumi Daðason. 18. janúar 2019. Sextán ára fangelsi fyrir morðið á Hagamel. Vísir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -