Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

„Smám saman eru netverjar að ná tökum á samfélaginu og dómskerfinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir að nettröll verði smátt og smátt valdameiri í samfélaginu. Hann gerir grín að netverjum í pistli sem hann birtir á vefnum Lifðu núna, en undir niðri virðist hann uggandi yfir stöðunni. Hann segir stjórnsýslu Íslands beygja sig og bukta fyrir kommentakerfinu.

„Í frægri og umdeildri bók sinni Ástir samlyndra hjóna segir Guðbergur Bergsson frá fólki sem sitji með rassinn í prumpstöðu tilbúið að tjá sig um stór og smá tíðindi. Bókin kom út fyrir rúmlega hálfri öld og mikið hefur breyst síðan í samfélaginu. Netið hefur opnað þessu málþola fólki áður óþekkta möguleika. Það situr þolinmótt og álútt við tölvuna og bíður færis til að láta ljós sitt skína,“ skrifar Óttar.

Hann segir það hálfgerða ráðgátu að átta sig á því hvað muni fara öfugt ofan í fólkið á internetinu. „Ólíklegustu atvik leiða til heiftarlegra viðbragða á netinu. Á dögunum kvartaði þjóðin undan illa búnum ferðalöngum á eldstöðvunum með ung börn í fanginu. Löggan takmarkaði þá aðgengi barna að gosinu. Viðbrögðin með miklum látum létu ekki á sér standa. Þessar takmarkanir voru á augabragði orðnar stórhættulegar fyrir þroska barna og samheldni í fjölskyldum. Lögregla og björgunarsveitir fóru í vörn og hröktust undan vindgangi háværra álitsgjafa. Málið leystist sem betur fer af sjálfu sér þegar gosið hætti öllum á óvörum. Enginn þurfti lengur að hafa áhyggjur af grátandi og svöngum börnum við hraunjaðarinn,“ segir Óttar.

Hann rifjar svo upp mál Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara sem sagði nóg af hommum á Íslandi. „Stóra aðstoðarsaksóknaramálið hleypti miklu lífi í þrásetumenn við tölvuna. Margir gengu framaf sjálfum sér í kröfugerðinni um afsögn og refsingar þessa óheppna embættismanns. Stjórnkerfið skalf og nötraði vegna hávaðans.  Aðstoðarsaksóknarinn hefur ekki tjáð sig síðan og embættið veitti honum áminningu fyrir stórkarlalegar athugasemdir,“ segir Óttar.

Annað dæmi sé svo glænýtt. „Elísabet Englandsdrottning dó fyrir skemmstu. Viðbrögð og sorgarfretur netsins voru svo ofsafengin að ókunnugum hefði ekki komið annað í hug en Ísland tilheyrði Breska Heimsveldinu. Ólíklegasta fólk lýsti yfir djúpum harmi vegna fráfalls þessarar aldurhnignu konu. Myndir voru dregnar fram af Betu úr Íslandsheimsókninni með þekktum netverjum. Fréttaþulir Ríkissjónvarpsins klæddust svörtu í tilefni dagsins yfirkomnir af sorg. Sjálfur reyndi ég að brosa gegnum tárin og gladdist fyrir  hönd jafnaldra míns, Karls prins sem loksins er kominn í vinnu. Ég vil votta öllum þessum syrgjendum samúð mína vegna fráfalls Bretadrottningar,“ segir Óttar.

Hann lýkur pistlinum svo á alvarlegri nótum: „Mig langar til að lýsa yfir djúpu þakklæti og aðdáun á þessu nafnlausa og fórnfúsa fólki sem situr mánuðum saman á öðrum þjóhnappinum við tölvuna. Konur og karlar sem  standa vaktina í blíðu og stríðu tilbúin að leysa vind. Ekkert er þeim óviðkomandi og þau vita alltaf best!

- Auglýsing -

Smám saman eru netverjar að ná tökum á samfélaginu og dómskerfinu. Þeim hefur tekist að gera netið að opinberum gapastokk sem áhrifamönnum stendur stuggur af. Dómstóll götunnar birtir niðurstöður sínar á netinu og úrskurði hans verður ekki áfrýjað. Stjórnkerfið er smám saman að lamast gagnvart áhrifamætti netsins og einstakir embættismenn þora sig ekki að hreyfa af ótta við viðbrögð áhrifamikilla netprumpara.

Enginn vill nefnilega sitja uppi með svarta-pétur eins og aðstoðarsaksóknari gerði á dögunum.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -