Miðvikudagur 8. febrúar, 2023
-3.2 C
Reykjavik

Snorri hjá Livio mælir með að óuppgerð mál fari til landlæknis: „Reynum að greiða úr málum allra“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Snorri Einarsson, yfirlæknir á Livio Reykjavík, segir að stofnunin reyni ávallt að greiða úr málum allra sem til þeirra leita. Áhersla sé lögð á að reyna eftir fremsta megni að hjálpa fólki við að skilja atburði og ferli ef það upplifi vafa. Hann segir það koma fyrir að útkljá þurfi mál hjá landlækni en að sem betur fer leysist slíkt yfirleitt farsællega.

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við Snorra vegna frásagnar hjónanna Gunnars og Hlédísar. Snorri er framkvæmdastjóri, yfirlæknir og einn af stofnendum Livio Reykjavík. Livio Reykjavík opnaði árið 2016, en starfsemin var áður rekin á sömu kennitölu undir nafninu Art Medica. Það var hjá Art Medica sem hjónin fóru í sína tæknifrjóvgunarmeðferð. Snorri kom ekki að stofnun Art Medica heldur hóf hann þar störf löngu síðar, árið 2013.

Snorri er fæðinga- og kvensjúkdómalæknir sem hefur starfað á sviði ófrjósemislækninga síðan árið 2006.

Vegna laga og reglna sem gilda um trúnað milli lækna og sjúklinga gat Snorri ekki staðfest fundi eða önnur samskipti við þau Gunnar og Hlédísi. Hann féllst hins vegar á að ræða almenn mál út frá skálduðum dæmum blaðamanns.

 

Eðlileg krafa fólks

Þegar Snorri er spurður út í tilfelli þar sem par vill meina að þeim hafi ekki verið sagt satt og rétt frá fjölda bæði eggja og fósturvísa þegar þau voru í meðferð á sínum tíma, og meiningar þeirra um horfna fósturvísa, undirstrikar Snorri að honum sé ekki heimilt að ræða málefni einstakra sjúklinga.

- Auglýsing -

„Það sem ég get aftur á móti sagt er að auðvitað reynum við að greiða úr málum allra þeirra sem til okkar leita og útskýra mál sem er kannski ekkert endilega auðvelt að skilja sem leikmaður. Auðvitað reynum við að verða við því. Það er bara, eins og ég sagði áðan, eðlilegur réttur og eðlileg krafa fólks að skilja í hverju meðferð þeirra hefur falist og hvernig hlutir hafa farið. Við reynum það bara af fremsta megni, að koma til móts við fólk og útskýra. Nú ef það næst ekki lending eða fólk telur að þeirra mál séu óuppgerð og óleyst, þá bendum við fólki á að leita þeirra leiða sem eru til staðar í kerfinu til þess að fá úr þeim skorið. Eins og til dæmis að fara með formlegar kvartanir til landlæknisembættisins. Það auðvitað gerist að það þurfi að útkljá mál þar og sem betur fer þá leysist það nú oftast farsællega. Fólk skilur hvað fram hefur farið og hvernig hlutir hafa orðið eins og þeir hafa orðið.“

Snorri segir að það sé ekki alltaf auðvelt fyrir almenna leikmenn að skilja gögn úr sjúkraskrám er varða tæknifrjóvgunarmeðferðir. „Ef þú yrðir í þeirri stöðu að þessi grunur vaknaði þá myndi ég náttúrulega bara mæla með því að þú leitaðir þér skýringa og samtals hjá þeim sem veitti þér þjónustuna, til þess að reyna að skilja hvað fram hefur farið. Ég get alveg sagt það fullum fetum að slíkum umleitunum myndum við taka vel og reyna að setjast niður með fólki og skýra hvað fram hefur farið.“

 

- Auglýsing -

Viðtalið við Snorra má í heild sinni lesa í nýjasta tímariti Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -