Þriðjudagur 15. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Soffíu litlu er stöðugt ógnað í Helgafellsskóla: „Skólastjórnendur sem eru gjörsamlega vanhæfir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Á meðan börnin í landinu eru nýbyrjuð í skólanum eftir sumarfrí er dóttir mín í þessum töluðu orðum skólalaus,“ skrifar Marta Eiríksdóttir, móðir sex ára stúlku, sem hún segist hafa neyðst til að taka úr skólanum vegna ofbeldis bekkjarbróður Soffíu dóttur sinnar.
Marta birtir langa færslu á Facebook þar sem hún lýsir ofbeldi drengsisn í garpð dóttir sinnar. Á einum tímapunkt birtist drengurinn í skólanum með hníf. Skólastjórnendur hafa lítið aðhafst og stúlkan er niðurbrotin og hrædd vegna eineltisins. Foreldrar Soffíu sáu aðeins eina leið út úr hrollvekjunni.
Marta Eiríksdóttir berst fyrir öryggi dóttur sinnar.
Mynd: Facebook.
„Við Benoit tókum þá erfiðu ákvörðun að fjarlægja hana úr skólanum sínum, Helgafellsskóla fyrir 5 dögum síðan úr hræðilegum aðstæðum sem hún er búin að þurfa að þola alltof lengi. Nánar tiltekið síðan í vor,“ skrifar Marta og lýsir þvík að dóttir hennar hafi verið samanlagt verið þrjár vikur frá skóla og mánuð frá frístund síðan ofsóknirnar hófust.
Hún segir að ofbeldið sé svo alvarlegt að barnið sé aðeins „skelin af sjálfri sér“. Barátta foreldranna til að tryggja öryggi stúlkunnar í skólanum hafi engu skilað.
„Við erum búin berjast með kjafti og klóm við stórgallaðan skóla og skólakerfi og umfram allt skólastjórnendur sem eru gjörsamlega vanhæfir í sínu starfi,“ skrifar Marta.
Hún skrifar að forsagan hafi verið sú að dóttir hennar og drengurinn hafi verið vinir í skólanum. Soffíu litlu hafi fundist hann vera mikið einn og án vina og henni fundist gaman að leika við hann. Vináttan hafi síðan þróast með skelfilegum hætti.
„Hún fer síðan að koma heim og segja að hann sé farinn að meiða hana í leik. Verður svoldið harkalegur og það sé sárt. Hún fer að koma heim með marbletti og segist vera orðin hrædd við hann. Einn daginn kemur hún heim með stóra marbletti á bakinu og segir að hann hafi meitt hana, hann sé farin að segja við hana að hann ætli að drepa hana og hún sé virkilega hrædd,“ skrifar Marta.

Áhyggjufullur kennari

Hún segist hafa sent skilaboð til móður drengsins og bað hana um að vinna málið með sér. Móðir drengsins hafi lofað að tala við son sinn. En ástandið lagaðist ekki.
„Þetta bara ágerist dag eftir dag, kennarinn hennar hringir í mig og segir ástandið alvarlegt og að hún hafi miklar áhyggjur af Soffíu. Hún sé uppá arminum hennar allan daginn og dauðhrædd við drenginn. Hann láti hana ekki í friði og noti hvert tækifæri til að hrella hana eða meiða. Aftur sendi ég skilaboð á móður hans og hún lofar að hann verði góður við hana,“ skrifar Marta.
Lítið breyttist til batnaðar og svo dundis skelfingin yfir. Í lok apríl fékk Marta símtal frá skólanum.
„Deildarstjóri yngsta stigs kynnir sig og vill fá að ræða þeirra mál og biður mig að rekja aðeins samkipti þeirra frá okkar sjónarmiði sem ég geri. Hún tilkynnir mér þá ástæðu símhringingarinnar, drengurinn hafi mætt í skólann með hníf. HNÍF! Hann nær ekki að beita hnífnum en útfrá öllu sem á undan er gengið með Soffíu er gengið útfrá því að hann ætlaði sér eitthvað illt. Í algjöru losti spyr ég hvað planið sé núna og fæ þá þau svör að skólinn muni tryggja að hún sé örugg og að hann fái ekki aðgengi að henni“.
Marta spurði þá hvort drengurinn fái virkilega að mæta í skólann. Hún fékk það svatr að skólinn hefði ekki heimild til að fjarlægja drenginn úr skólanum.
„Soffía hættir að sofa, vaknar í sífellu með martraðir. Getur ekki verið ein, ekki einu sinni til að fara á salernið. Treystir sér ekki út að leika af ótta við að rekast á hann. Óörugg, hrædd við allt og kvíðin“.
Foreldrar Soffíu höfðu samband við lögreglu og tilkynntu atvikin til barnaverndar. Stúlkan mætti í skólann í framhaldinu.
„Þegar komið er í skólastofuna er fyrsta barnið sem ég sé hann. Soffía sturlast úr hræðslu og ég bakka með hana út. Kennari hennar eltir og ég spyr hvað í fjandanum sé í gangi og kennarinn lofar að passa hana, hann sé að fara úr stofunni og hún lofi að Soffía sé örugg. Að skilja hana eftir í skólanum og labba út í bíl er eitt það erfiðasta sem ég hef gert,“ skrifar Marta.

Soffía einangruð

Martröð Soffíu hélt svo áfram. Þegar systir Soffíu sótti hana í skólann var barnið dauðhrætt.
„Elsta dóttir okkar átti að sækja hana þann dag og hringir í mig grátandi þegar í skólann er komið. Þá afhenti kennari Soffíu til systur sinnar og segir þeim að fela sig því hann sé í nálægð og biður þær um að nota annan útgang úr skólanum. Soffía segir systur sinni að hann hafi ráðist á hana fyrr um daginn sem kennarinn hennar staðfestir símleiðis. Í sama símtali með kennaranum hennar segir hún mér einnig að henni hafi verið haldið einangraði frá honum í skólanum, látin fara út í port að leika einni sem er útisvæði útfrá skólastofunni og að kennarinn hafi tekið það að sér að vernda hana öllum stundum frá honum. Krakkarnir í bekknum voru einnig farin að passa hana“.
Skólastjórnendur sakaðir um að bregðast ekki við einelti.
Ævareiðir foreldrar Soffíu sendu í framhaldinu póst á skólann og kröfðust svara. Þau voru boðuð á fund sem hún segir hafa  vertið ömurlegan.
„Skólastjórinn var gjörsamlega tilfinningalaus, köld og spurði okkur hvað við vildum að þau gerði? Það hafi ekkert gerst(með hnifinn) og öll börn eigi rétt á að stunda skóla. Þess ber að geta og mikilvægt að það komi fram að þetta er fyrsti og eini fundurinn sem skólastjóri Helgafellsskóla hefur setið fund útaf þessu máli. Skeytingaleysi hennar er algjört,“ skrifar Marta sem í framhaldinu átti fundi með skólastjórnendum sem hún lýsir sem skrípaleik.
„Á endanum sendi ég póst til Mosfellsbæjar og krefst þess að bærinn beiti sér í þessu máli og í raun hóta öllu illu. Ég fæ símhringingu frá deildarstjóra skólaþjónustu og lýsi fyrir henni málinu. Þá fara loksins hjólin að snúast. Við fáum barnasálfræðing með okkur á alla fundi sem er búin að vera dásamlegur og mikil hjálp. Búið er til plan um að þau séu aðskilin í skólanum, hún fái að ganga frjáls og hann fái viðeigandi stuðning. Ég mæti með henni fyrsta skóladaginn aftur. Ekki er hægt að halda þessu plani í frístund, einungis á skólatíma. Þetta plan gengur fram að síðustu vikum skólans en skólinn fer síðan að vilja mjaka honum í nálægð við hana aftur, gegn okkar vilja og vitundar“.

„Döpur og síþreytt“

Einn morguninn þegar Marta fór með Soffíu í skólann og brotnaði stúlkan niður og grét.  Hún vildi ekki sleppa hendinni af móður sinni eftir að hún sá ógnvald sinn í fjarska. Starfsmaður sem var að leysa skólastjórann af á þeim tíma kom að málum og ræddi um  það plan skólastjórenda að einangra Soffíu „eins og dýr í búri“. Marta mótmælti þeim áformum. Þá sgir starfsmaðurinn að umræðan innanhúss sé hversu lengi það sé hægt að halda því áfram að einangra drenginn frá öðrum.
„Síðustu daga fyrir sumarfri þegar við sækjum hana er hann alltíeinu kominn inní sama rými og hún, næsta dag á sama borð. Enginn segir neitt og vonast er til að við tökum ekki eftir þessu býst ég við. Haldinn er stöðufundur og vorinu “lokað”. Ákveðið var að halda fund í skólabyrjun eftir sumarfri“.
Í sumar tók fjölskyldan eftir mikilli breytingu á líðan Soffíu. Hún var ólík sjálfri sér.
„Þessi lífsglaða, káta stelpa okkar er allt í einu orðin döpur, síþreytt. Áhugalaus um gjörsamlega allt. Reið, finnst erfitt að vera til. Vill ekki vera í þessum heimi. Finnst allt asnalegt, finnst hún asnaleg. Hausverkur, illt í heilanum. Þegar við nefnum að skólinn fari að byrja kemur kvíði og allar tilfiningar magnast,“ skrifar Marta og lýsirt því að þegar skólinn hófst hafi fundur verið haldinn til að setja tóninn fyrir haustið. Barnið mætti í skólann þar sem henni líður hræðilega.
„Hún grætur þegar hún á að fara í skólann og springur þegar hún kemur heim. Grætur, er reið, líður illa. Þegar við sækjum hana er hún og drengurinn saman. Sitja á sama borði. Næsta dag eru þau að leika saman. Við biðjum hana að vera ekki að leika við hann. Hún segist vilja það, hann sé orðinn núna góður við hana“.
Soffíu leið illa en vill sem ninnst um það tala en segir að sér sé illt allstaðar.
„Við göngum á hana og loks brotnar hún alveg og segir að hún verði að leika við drenginn því annars muni hann drepa hana eða meiða hana. Ég sendi á barnasálfræðinginn og grátbið hann um að hafa samband strax sem hann gerir. Ég segi honum frá þessu og hann segist ætla að hitta hana sem hann gerir næsta dag. Hann staðfestir hennar líðan og augljóst að hún se í óboðlegum aðstæðum“.
Skólayfirvöld aðhöfðust ekki þrátt fyrir þetta. Marta segir að foreldrunum til skelfingar hafi svo komið á daginn að ofbeldið var byrjað aftur.
„Hún brotnar saman eitt kvöldið í okkar daglega koddahjali og segir að ef hún leiki ekki við hann þá muni hann berja hana aftur.. Ég spyr hvort að hann sé búin að vera að berja hana og hún játar því. Hann biður hana um að leika, hún neitar og hann ber hana.
Við sendum póst á skólann og segjum þeim að hún muni ekki stíga fæti inn í skólann aftur. Þannig er staðan,“ skrifar Marta.
Færsla Mörtu í heild sinni:
Af hnífaburði og ofbeldi ungmenna í samfélaginu.
Ofbeldi þrífst í þögninni.
Á meðan börnin í landinu eru nýbyrjuð í skólanum eftir sumarfrí er dóttir mín í þessum töluðu orðum skólalaus.
Við Benoit tókum þá erfiðu ákvörðun að fjarlægja hana úr skólanum sínum, Helgafellsskóla fyrir 5 dögum síðan úr hræðilegum aðstæðum sem hún er búin að þurfa að þola alltof lengi. Nánar tiltekið síðan í vor. Hún er í 2.bekk. Hún er 6 ára gömul.
Hún er samanlagt síðan í vor búin að vera frá skóla tæpar 3 vikur og frá frístund í rúman mánuð.
Ástæðan er drengur í bekknum hennar sem er búin að beita hana alvarlegu ofbeldi.
Svo alvarlegu að hún er skelin af sjálfri sér. Við erum búin berjast með kjafti og klóm við stórgallaðan skóla og skólakerfi og umfram allt skólastjórnendur sem eru gjörsamlega vanhæfir í sínu starfi.
Forsagan er sú að hún og þessi drengur voru fínir vinir í skólanum. Henni fannst hann mikið einn og án vina og fannst gaman að leika með honum. Hún fer síðan að koma heim og segja að hann sé farinn að meiða hana í leik. Verður svoldið harkalegur og það sé sárt. Hún fer að koma heim með marbletti og segist vera orðin hrædd við hann. Einn daginn kemur hún heim með stóra marbletti á bakinu og segir að hann hafi meitt hana, hann sé farin að segja við hana að hann ætli að drepa hana og hún sé virkilega hrædd.
Ég sendi skilaboð til mömmu drengsins og bið hana um að vinna þetta með mér svo þetta hætti og hún lofar að tala við hann. Þetta bara ágerist dag eftir dag, kennarinn hennar hringir í mig og segir ástandið alvarlegt og að hún hafi miklar áhyggjur af Soffíu. Hún sé uppá arminum hennar allan daginn og dauðhrædd við drenginn. Hann láti hana ekki í friði og noti hvert tækifæri til að hrella hana eða meiða. Aftur sendi ég skilaboð á móður hans og hún lofar að hann verði góður við hana.
Lítið breytist og daginn fyrir 1. Maí fær ég símtal sem ég óska engu foreldri að fá. Deildarstjóri yngsta stigs kynnir sig og vill fá að ræða þeirra mál og biður mig að rekja aðeins samkipti þeirra frá okkar sjónarmiði sem ég geri. Hún tilkynnir mér þá ástæðu símhringingarinnar, drengurinn hafi mætt í skólann með hníf. HNÍF!
Hann nær ekki að beita hnífnum en útfrá öllu sem á undan er gengið með Soffíu er gengið útfrá því að hann ætlaði sér eitthvað illt.
Í algjöru losti spyr ég hvað planið sé núna og fæ þá þau svör að skólinn muni tryggja að hún sé örugg og að hann fái ekki aðgengi að henni. Ég spyr þá hvort hann fái virkilega að mæta í skólann og þetta snúist ekki einungis um öryggi hennar heldur barnanna allra en nei. Skólinn hefur ekki heimild til að fjarlægja hann úr skólanum. Soffía hættir að sofa, vaknar í sífellu með martraðir. Getur ekki verið ein, ekki einusinni til að fara á salernið. Treystir sér ekki út að leika af ótta við að rekast á hann. Óörugg, hrædd við allt og kvíðin.
Við hringjum í lögreglu, tilkynnum til barnaverndar og hún fer í skólann 2.Maí. Þegar komið er í skólastofuna er fyrsta barnið sem ég sé hann. Soffía sturlast úr hræðslu og ég bakka með hana út. Kennari hennar eltir og ég spyr hvað í fjandanum sé í gangi og kennarinn lofar að passa hana, hann sé að fara úr stofunni og hún lofi að Soffía sé örugg. Að skilja hana eftir í skólanum og labba út í bíl er eitt það erfiðasta sem ég hef gert og ég vildi óska þess að ég hefði hlustað á innsæjið og tekið hana heim þarna.
Elsta dóttir okkar átti að sækja hana þann dag og hringir í mig grátandi þegar í skólann er komið. Þá afhenti kennari Soffíu til systur sinnar og segir þeim að fela sig því hann sé í nálægð og biður þær um að nota annan útgang úr skólanum. Soffía segir systur sinni að hann hafi ráðist á hana fyrr um daginn sem kennarinn hennar staðfestir símleiðis. Í sama símtali með kennaranum hennar segir hún mér einnig að henni hafi verið haldið einangraði frá honum í skólanum, látin fara út í port að leika einni sem er útisvæði útfrá skólastofunni og að kennarinn hafi tekið það að sér að vernda hana öllum stundum frá honum. Krakkarnir í bekknum voru einnig farin að passa hana.
Eðlilega verðum við Benoit sturluð af reiði og sendum póst á skólann og krefjumst svara. Við erum boðuð á fund með deildarstjóra yngsta stigs og skólastjóranum og ömurlegri fund hef ég ekki setið. Skólastjórinn var gjörsamlega tilfinningalaus, köld og spurði okkur hvað við vildum að þau gerði? Það hafi ekkert gerst(með hnifinn) og öll börn eigi rétt á að stunda skóla. Þess ber að geta og mikilvægt að það komi fram að þetta er fyrsti og eini fundurinn sem skólastjóri Helgafellsskóla hefur setið fund útaf þessu máli. Skeytingaleysi hennar er algjört!
Úr því verður að við treystum engan vegin skólanum til að tryggja öryggi hennar og ákveðum að halda henni heima. Upphefjast email samskipti á milli okkar og skólastjórnenda og svo innantómir fundir sem er ekki hægt að lýsa öðruvísi en algjörum skrípaleik. Við upplifum frá hendi skólans að við séum bara með vesen, ætlast er til að við eigum bara að treysta innantómum köldum orðum um einhver plön sem báru hagsmuni hennar engan veginn fyrir brjósti og þetta gengur svoleiðis í tæpar tvær vikur. Drengurinn missir ekki einn dag úr skóla og frístund. Á endanum sendi ég póst til Mosfellsbæjar og krefst þess að bærinn beiti sér í þessu máli og í raun hóta öllu illu. Ég fæ símhringingu frá deildarstjóra skólaþjónustu og lýsi fyrir henni málinu. Þá fara loksins hjólin að snúast.
Við fáum barnasálfræðing með okkur á alla fundi sem er búin að vera dásamlegur og mikil hjálp. Búið er til plan um að þau séu aðskilin í skólanum, hún fái að ganga frjáls og hann fái viðeigandi stuðning. Ég mæti með henni fyrsta skóladaginn aftur. Ekki er hægt að halda þessu plani í frístund, einungis á skólatíma. Þetta plan gengur fram að síðustu vikum skólans en skólinn fer síðan að vilja mjaka honum í nálægð við hana aftur, gegn okkar vilja og vitundar.
Einn morguninn þegar ég fer með hana í skólann og hún brotnar niður og grætur, vill ekki sleppa af mér hendinni því hún sá hann í fjarska labba inn í skólann tekur starfsmaður sem var að leysa skólastjórann af á þeim tíma til hliðar. Upphefjast samræður um frístund og þeirra plan var að einangra hana eins og dýr í búri sem ég að sjálfsögðu mótmæli. Þá nefnir konan að hann sé búin að vera fjarlægður frá öllu, fær ekki að umgangast neinn og það sé að taka fullt af starfsfólki frá skólanum í þá aðgerð. Umræðan innanhúss sé hversu lengi það sé hægt að halda því áfram.. Hægt er að ímynda sér líðan mína eftir þessi ummæli.
Hún fer að fara í frístund eftir að bærinn ber aftur í borðið og krefst þess að það verði gert plan um að hún geti sótt frístundina örugg. Síðustu daga fyrir sumarfri þegar við sækjum hana er hann alltíeinu kominn inní sama rými og hún, næsta dag á sama borð. Enginn segir neitt og vonast er til að við tökum ekki eftir þessu býst ég við. Haldinn er stöðufundur og vorinu “lokað”. Ákveðið var að halda fund í skólabyrjun eftir sumarfri.
Sumarið líður og við fjölskyldan tökum eftir og finnum fyrir mikilli breytingu á líðan Soffíu. Hún er ólík sjálfri sér. Þessi lífsglaða, káta stelpa okkar er allt í einu orðin döpur, síþreytt. Áhugalaus um gjörsamlega allt. Reið, finnst erfitt að vera til. Vill ekki vera í þessum heimi. Finnst allt asnalegt, finnst hún asnaleg. Hausverkur, illt í heilanum. Þegar við nefnum að skólinn fari að byrja kemur kvíði og allar tilfiningar magnast.
Skólinn hefst, fundur er haldinn til að setja tóninn fyrir haustið. Ég spyr og bið um plan. Er hann að fara að koma aftur inn í bekkinn? Munu fyrri plön haldast með þau? Ekki var hægt að svara því, bíðum og sjáum til hvernig skólinn byrjar. Ég nefni líðan Soffíu. Deildarstjóri frístundar segist taka eftir því sama. Hún sé ólík sjálfri sér. Ákveðið er að sækja um aðstoð fyrir hana í gegnum skólann. Dagarnir líða, ekkert heyrist. Hún grætur þegar hún á að fara í skólann og springur þegar hún kemur heim. Grætur, er reið, líður illa.
Þegar við sækjum hana er hún og drengurinn saman. Sitja á sama borði. Næsta dag eru þau að leika saman. Við biðjum hana að vera ekki að leika við hann. Hún segist vilja það, hann sé orðin núna góður við hana. Ég sendi póst og bið um að vita planið. Hún heldur áfram að gráta fyrir og eftir skóla. Við Benoit setjumst niður með henni eftir skóla einn daginn og spyrjum hana hvernig henni líði. Hún verður reið, vill ekki tala um þetta, segist bara líða illa, veit ekki af hverju. Henni er illt allstaðar. Við göngum á hana og loks brotnar hún alveg og segir að hún verði að leika við drenginn því annars muni hann drepa hana eða meiða hana.
Ég sendi á barnasálfræðinginn og grátbið hann um að hafa samband strax sem hann gerir. Ég segi honum frá þessu og hann segist ætla að hitta hana sem hann gerir næsta dag. Hann staðfestir hennar líðan og augljóst að hún se í óboðlegum aðstæðum. Ég sendi email til skólans enn og aftur, krefst svara. Fæ ekkert svar, lofað þessu, lofað hinu. Hitti deildarstjóra einn morguninn sem segir að það þurfi að kenna henna að setja honum mörk. Einmitt. Dagarnir líða og líða, og líða.
Svo kom að því, einmitt það sem við vildum ekki að myndi gerast aftur. Hún brotnar saman eitt kvöldið í okkar daglega koddahjali og segir að ef hún leiki ekki við hann þá muni hann berja hana aftur.. Ég spyr hvort að hann sé búin að vera að berja hana og hún játar því. Hann biður hana um að leika, hún neitar og hann ber hana.
Við sendum póst á skólann og segjum þeim að hún muni ekki stíga fæti inn í skólann aftur. Þannig er staðan.
——————————————
Það eru ekki til lýsingarorð sem geta komið til skila hversu gjörsamlega búin og sigruð við erum. Umfram allt elsku, fallega, yndislega dóttir mín og einnig við fjölskyldan. Þetta er búið að heltaka líf okkar. Að horfa uppá ofbeldið að hálfu drengsins en einnig skólans er búið að vera hörmulegt. Þetta er búið að breyta dóttur minni. Breyta hennar karakter og hafa varanleg áhrif á hana og guð minn góður hvað ég vona að það verði ekki til frambúðar. Það er búið að mölbrjóta á hennar mannréttindum, rétt til að ganga frjáls og óáreitt í skóla og vanvirðingin og sinnuleysi skólans er gjörsamlega galið.
Hjartað mitt og sálin mín kraumar af sorg og reiði yfir gjörsamlega mölbrotnu kerfi sem hefur ekki getu, burði né vilja til að grípa einstaklinga sem verða fyrir ofbeldi eða alvarlegu einelti. Bæði geranda og þolendur. Mér líður eins og ég eigi ekki til fleiri tár til að fella. Að horfa uppá að brotið sé á barninu mínu, talað sé niður til okkar, aðgerðaleysið og finnst við ekki geta gert né ekki haft neinn stað til að leita til er búið að vera skelfilegt. Við erum búin að vera alltof þolinmóð, samvinnuþýð og nú er nóg komið.
Ég er búin að margspyrja skólastjórnendur. Eftir hverju eruð þið að bíða? Hvað er nógu alvarlegt ofbeldi af nemanda til samnemanda að þeirra mati? Er verið að bíða eftir því að hann nái að berja hana verr, rústa sálinni hennar aðeins meira. Væri tekið alvarlegra á þessu ef þau væru eldri? Væri hljóðið öðruvísi ef hann hefði beitt hnífnum á hana? Er verið að bíða eftir að hann drepi hana???? Ég hef engin svör fengið frekar en fyrri daginn.
Ég hef margbeðið skólann um að láta foreldra bekkjarins vita af þessu. Nei, það má ekki tala um þetta. Það má ekki tala um einstaka mál innan skólans. Það er brot á persónuvernd. Við Benoit tókum það að okkur og létum foreldrana vita. Börnin þeirra eru búin að horfa uppá ofbeldi og líflátshótanir. Taka það að sér að vernda og passa uppá bekkjarsystur sína og eins og gefur að skilja er hljóðið í foreldrum langt frá því að vera gott. Hvað býst skólinn eiginlega við? Að það sé boðlegt að þagga niður ofbeldismál innan bekkjarins og búast við að foreldrar með einhverju viti kingji því?
Þess ber að geta að það hafa ótal börn flúið þennan skóla vegna aðgerðarleysis gagnvart alvarlegu einelti.
Að mínu mati er skólastjóri skólans og skólastjórnendur gjörsamlega vanhæfir og ættu að sýna sóma sinn í að stíga frá borði strax.
Og hér er ég, að tjá mig. Móðir sem er búin að öskra og grátbiðja um hjálp og aðgerðir til að bjarga dóttur minni. Ég mun hafa eins hátt um þetta eins og þarf til að það sé hlustað. Halda áfram að berjast fyrir hana eins og ég myndi gera fyrir allar dætur mínar þrjár. Ofbeldi þrífst og stækkar í þögninni og myrkrinu og ég er ekki að fara að búa í samfélagi sem styður það. Fólki sem finnst ég vera óþægileg og að segja of mikið, þetta sé einkamál. Það fólk má eiga sig. Það er einnig kjarni málsins. Umræða og skelfilegu atburðir undanfarna vikna eru skýrt dæmi um hversu mölbrotið samfélag við erum þegar það kemur að börnunum okkar og að tekið sé alvarlega á ofbeldismálum og einstaklingum sem eru búnir að öskra á hjálp síðan þeir voru börn. Börn eins og dóttir mín og þessi elsku drengur.
HVAÐ ER AÐ?? HVAÐ ÞARF TIL?? Ung stúlka er látin!! Hversu mörg börn þurfa að færa fórnir með lífi sínu til að við, fullorðna fólkið sem eigum að vernda þau, leiðbeina þeim, umvefja þau með ást, kærleika, virðingu VÖKNUM! Foreldrar, skóli, samfélag, ráðamenn. Hættum að stinga höfðinu í sandinn, hættum að gerendavæða samfélagið. Skjótum í kaf þá sem tala með ofbeldi og einstaklingum sem beita ofbeldi og upphefjum þá sem vilja uppræta það með öllum leiðum. Það gerist ekkert nema við stöndum saman. Setjum okkur í spor þeirra sem þjást en ekki þeirra sem er slaufað með gjörðum sínum. Kennum börnunum okkar að þó að þú sért samfélagsmiðlastjarna, tónlistamaður eða frægur einstaklingur gefur það þér ekki frípassa til að ganga um og styðja ofbeldi.
Okkar heitasta ósk er einnig að þessi elsku drengur fái hjálpina, stuðninginn og ástina sem hann á skilið. Það er augljóslega þörf á því. Ekkert barn sem líður vel gengur um með hníf á sér, engu barni sem líður vel beitir ofbeldi. Þessi orð nísta í sálina og eru svo sönn og eiga við um öll börn í vanda! Ég ætla að biðja ykkur um að halda öllum neikvæðum ummælum um hann fyrir ykkur. Hann ber ekki ábyrgð á gjörðum sínum heldur fullorðna fólkið sem á að vernda hann.
Hugsanir “um hvað” ef ásækja mig á hverri mínútu sólarhringsins, í svefni og vöku. Þessar hugsanir eru lamandi en ég ætla ekki að leyfa þeim að sigra. Ég er EKKI að fara að bíða eftir að eitthvað enn eitt hræðilegt gerist fyrir dóttir mína. Það dýrmætasta sem ég á! Ég vill ekki kenna dætrum mínum að þetta sé boðlegt, að heimurinn virki svona. Að þú eigir að kyngja óréttlæti og ofbeldi og samfélagið krefjist þess að þú hafir ekki hátt. Svo ég hef hátt og mun hafa hátt. Ég neita að taka þátt í þessu! Hingað og ekki lengra!
Ofbeldi þrífst í þögninni!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -