Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sólarmerki stjörnuspekinnar – Réttsýnar vogir, skapandi fiskar og nautnafull naut

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólarmerkið er það merki sem margir líta á sem aðalatriðið í stjörnuspeki – það merki sem líklegast er að fólk þekki nú þegar. Þegar einhver segist vera ljón í stjörnumerki, þá er viðkomandi að öllum líkindum að tala um sólarmerkið sitt; það merki sem sólin var í þegar einstaklingurinn fæddist. Sólin er um það bil einn mánuð að fara í gegnum hvert og eitt stjörnumerki.

Í stjörnuspeki stendur sólin fyrir okkar ytra sjálf, meðvitund og egóið. Sólin er grunnpersónuleiki okkar og lífsorka. Það má líta á sólina sem yfirmann stjörnukorts okkar. Við erum talin sitja vel í sjálfum okkur þegar við náum jafnvægi í sólarmerki okkar. Sólin er rökræn og ráðandi – hún er frekar hugur en hjarta. Í gegnum sólarmerki okkar síast allar upplýsingar og áhrif annarra merkja í stjörnukortinu. Orkan frá henni er úthverf (e. extroverted).

En hver eru einkenni hvers sólarmerkis fyrir sig?

 

Hrúturinn

(U.þ.b. 21. mars–19. apríl*)

Ástríðufullur, hvatvís, orkumikill.

- Auglýsing -

Hrúturinn er eldmerki. Hrúturinn er fyrsta merkið í hringnum og hrútar eru gjarnan fyrstir að byrja og fyrstir að klára það sem þeir taka sér fyrir hendur. Hrútur býr yfir miklum sprengikrafti og orku. Viljastyrkurinn er mikill og hann hendir sér með höfuðið á undan í allt það sem hann tekur sér fyrir hendur. Hrútur er afar ástríðufullur og býr yfir frumkrafti sem erfitt er að jafna. Ef eitthvað kveikir áhuga hans fer það ekki á milli mála. Hann er afar hreinskilinn og beinskeyttur. Mislíki honum eitthvað er það yfirleitt augljóst og hann reynir ekki heldur að fela það. Hann sér ekki nokkra ástæðu til þess að halda aftur af skoðunum sínum. Þar af leiðandi á hann það til að stuða fólk og sumum getur þótt hann dálítið dónalegur. Það er ekki ætlun hans – hann skilur bara ekki hvers vegna hann ætti að fara eins og köttur í kringum heitar graut með neitt einasta mál. Fólk getur reynt að beisla hann og temja, en það mun ekki ganga vel. Auk þess mun það gera hrútinn niðurdreginn. Hann þarf að vera í kringum fólk sem kann að meta þessa eiginleika hans.

Þú getur oftast nær treyst á að dæmigerðir hrútar segi þér það sem þeim raunverulega finnst. Hreinskilni og heiðarleiki er einn af þeirra helstu kostum. Þeir eru ekkert að flækja hlutina og botna oft ekkert í því þegar þeir fá ekki sömu hreinskilni, flækjuleysi og blátt áfram nálgun frá öðru fólki.

Þeir eru oft mjög hugmyndaríkir og nálgast hluti af barnslegri forvitni. Sköpun og uppfinningasemi er leikur í þeirra augum. Á móti geta þeir verið svolítið barnalegir í allri nálgun sinni á lífið. Þeir kjósa oft að skauta fram hjá dýpri og erfiðari hlutum og neita að dvelja lengi við neitt. Þeim leiðist líka auðveldlega – og þeir láta það svo sannarlega í ljós.

- Auglýsing -

Hrútur getur verið ansi bráður í skapi. Fólki bregður oft þegar hann reiðist – það er engin sía eða dempari á honum. En eins og íslenskt veðurfar er hrútur fljótur að skipta um ham og er yfirleitt orðinn rólegur aftur eins fljótt og hann reiddist. Hann er almennt ekki langrækinn og fer ekki mikið í fýlu – hann kýs að afgreiða hlutina hratt og örugglega (og stundum ofsafengið).

 

Nautið

(U.þ.b. 20. apríl–20. maí*)

Trygglynt, nautnafullt, stöðugt.

Nautið er jarðarmerki. Rætur þess ná djúpt og það er yfirleitt stöðugt. Naut ana ekki að neinu – þau kjósa frekar að taka sér tíma og gera hlutina vel. Þau eru metnaðargjörn, en sætta sig við að góðir hlutir gerist hægt. Ákvarðanir þeirra eru líka yfirleitt vel ígrundaðar.

Naut eru nautnafull og beintengd erkitýpu Venusar. Þau elska að gera vel við sig í mat og drykk. Þeim getur jafnvel hætt við að fara dálítið yfir strikið í þeim efnum og þegar þau eru ekki í nægilegu jafnvægi eiga þau til leti. Til þess að það gerist ekki þurfa þau að rækta líkama og sál og passa upp á að búa við skipulag og vinna að markmiðum. Naut vilja láta dekra við sig, líkamlega og andlega. Þetta er talið eitt kynþokkafyllsta stjörnumerkið í hringnum. Naut lifa mikið til í gegnum skilningarvit sín – hvert skilningarvit er þanið til hins ýtrasta. Núvitund er þeim eðlislæg. Þau njóta þess að hlusta á góða tónlist, finna lyktina af náttúrunni, veita blómum og plöntum athygli og snerta, svo eitthvað sé nefnt.

Manneskjan sem fann upp hugtakið „sjálfsást“ hefur sennilega verið naut. Naut eru almennt frekar innhverf og þurfa tíma í einveru til að hlaða batteríin fyrir átök daglegs lífs og samkomur.

Öryggi skiptir naut miklu máli. Þau vilja koma sér þannig fyrir í lífinu að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur. Þannig er þeim oft mikilvægt að eiga nóg af peningum. Þau þurfa ekkert endilega að vera rík, en þau þurfa að eiga nóg til þess að geta haft það gott og lifa áhyggjulaus.

Naut eru afskaplega traust og trygglynd. Það skiptir þau líka öllu máli að geta treyst sínum nánustu. Bregðist þú trausti nauts getur verið afar erfitt að vinna það til baka. Þau eru nefnilega nokkuð langrækin. Þau byggja mat sitt á raunverulegum skynjunum og hinu áþreifanlega. Þar af leiðandi skipta fögur orð ekki nokkru máli ef gjörðir fylgja ekki á eftir. Naut munu ávallt dæma þig út frá því sem þú gerir, ekki því sem þú segir. Naut eru föst fyrir og þrjósk – það getur reynst þrautin þyngri að tala um fyrir þeim og fá þau til að skipta um skoðun.

 

Tvíburarnir

(U.þ.b. 21. maí–20. júní*)

Forvitnir, félagslyndir, greindir.

Tvíburarnir eru loftmerki. Tvíburi er afar forvitinn og fróðleiksfús. Hann vill vita. Tvíbura þykir fólk einstaklega áhugavert og hann er félagslyndur. Hann er heillandi og á auðvelt með að tala við flesta. Skoðanir hans geta sveiflast eins og pendúll – enda á hann auðvelt með að setja sig í spor allra og skoða allar hliðar mála ofan í kjölinn. Hann er því langt frá því að vera fastur fyrir og skammast sín ekkert fyrir að breyta afstöðu sinni þegar hann telur upplýsingar hafa komið fram sem varpa nýju ljósi á málin.

Tvíburi er yfirleitt með nokkuð breitt áhugasvið og skiptir ört um skoðun. Hann er greinandi í eðli sínu og kann vel við að stinga sér á kaf ofan í rannsóknarvinnu. Ef eitthvað vekur ósvikinn áhuga tvíbura er ekki ólíklegt að hann steypi sér ofan í það og ranki við sér nokkrum klukkustundum og ótal gúggl-síðum og myndböndum síðar, skyndilega nógu fróður um málefnið til að geta átt um það rökræður eða haldið fyrirlestur um það. Hann veit ýmislegt um mjög margt, en athygli hans er oft af skornum skammti og hann þýtur hratt á milli viðfangsefna.

Tvíburinn er merki orða. Tvíburi notar orð sem brú milli fólks og skoðana, leið til þess að tengja við aðra, tál og vopn þegar svo ber undir. Hann er einstaklega fær í rökræðum og hefur líka gaman af þeim. Áhugi sem endist hjá honum snertir eitthvað sem kveikir í honum vitsmunalega.

Tvíburar geta verið sveiflukenndir og óákveðnir og sumir geta upplifað vantraust í garð þeirra vegna þessa og vegna þess hve hratt afstaða þeirra og skoðanir geta breyst. Þeir líta málið ekki sömu augum, því fyrir þeim er mikilvægt að geta tengt við mismunandi einstaklinga og skoðanir – bergmálshellar eru tvíburum þvert um geð. Þeir eiga oft marga vini en nánd er þeim ekki alltaf auðveld.

Tvíburi á það til að vera uppstökkur. Hann er það oft ekki út á við en þessi hlið hans kemur gjarnan í ljós heima fyrir og bitnar á hans nánustu. Þetta stafar yfirleitt af innri óróleika og eirðarleysi. Lausnin fyrir þá er að finna sér einhver verkefni, sama hversu lítil. Tvíburi á það líka til að vera áhyggjufullur og það getur þróast í kvíða.

 

Krabbinn

(U.þ.b. 21., 22. júní–22., 23. júlí*)

Samúðarfullur, viðkvæmur, djúpur.

Krabbinn er vatnsmerki. Krabbi er almennt vinalegur og hlýr, en er nokkuð innhverfur og lætur ekki endilega mikið fyrir sér fara. Hann lætur sér annt um annað fólk og þykir afar erfitt að horfa á aðra þjást. Þjáning er nokkuð sem hann á til að sjá í hverju horni og það getur gert hann niðurdreginn.

Eins og í hinum vatnsmerkjunum er krabbi afar tilfinningaríkur. Hann er sömuleiðis næmur á tilfinningar annarra og stundum er hreinlega eins og hann búi yfir skyggnigáfu – hann á auðvelt með að skynja hvað aðrir eru að ganga í gegnum og hvernig þeim líður. Þetta er hæfileiki í fari hans, en þetta getur bæði verið blessun og bölvun. Eiginleikinn getur gert krabba að meðfæddum heilara, en hin hliðin á peningnum er sú að hann getur átt mjög erfitt með að setja mörk og á það til að vera meðvirkur. Þetta er eitthvað sem krabbi þarf að vinna mikið með.

Krabbar geta verið dálítið lokaðir og eiga erfitt með að treysta heiminum fyrir sínu innra sjálfi. Þeir þurfa mikið á rótum að halda í lífinu og geta streist töluvert á móti breytingum. Fyrir þeim gerast góðir hlutir hægt og þeim er illa við hraðar breytingar sem þeir ná ekki almennilega utan um.

Frá kröbbum stafar hlýja og þeir hugsa vel um sína nánustu. Þeir vilja fá að „passa“ þá sem þeim þykir vænt um. Þeir eru heimakærir og munu yfirleitt velja rólegt kvöld heima frekar en að fara út að skemmta sér eða á mannamót. Þeir eru hrifnir af dekri og vilja hafa það notalegt – krabbar eru yfirleitt mikil kúrudýr. Þeir þurfa líka á einveru að halda, stanslaus félagsskapur getur sogað úr þeim orkuna og gert að verkum að þeim finnst þeir ekki geta heyrt eigin hugsanir.

Krabbi á það til að vera dálítið mislyndur og þungur í skapi. Stundum er hreinlega eins og það sé þrumuský pikkfast yfir höfðinu á honum. Hann á það líka til að verða ansi melankólískur og velta sér upp úr vandamálunum og vorkennir sér stundum. Hann er langrækinn. Hann er átakafælinn og hörundsár. Framan af hefur hann langlundargeð og getur fyrirgefið hitt og þetta, en um leið og þú gengur fram af honum er ekki aftur snúið.

 

Ljónið

(U.þ.b. 21. júlí–20. ágúst*)

Sjálfstætt, skapandi, heiðarlegt.

Ljónið er eldmerki. Ljón býr yfir miklum krafti og ástríðu og kveikir auðveldlega bál í öðrum. Þegar ljón ætlar sér eitthvað er fátt sem fær stöðvað það.

Ljón eru heiðarleg og traust. Þau segja hlutina yfirleitt beint út og standa með því sem þau segja. Það er almennt séð nokkuð öruggt að hægt sé að treysta því sem þau segja. Þau vilja fá það sama á móti frá samferðafólki sínu, í það minnsta er það þeim afar mikilvægt að geta treyst fólkinu í kringum sig og þau leggja mikið upp úr því. Þau treysta yfirleitt frekar áreynslulaust, það þarf ekki að vinna sér inn traust þeirra, heldur velja þau að hafa glasið fullt frá upphafi. Ef þú hins vegar bregst trausti þeirra eða svíkur þau á einhvern hátt verða þau óbærilega sár og vonsvikin. Þá er erfitt að vinna traust þeirra til baka. Brostið traust ljóns er algjör forsendubrestur í samskiptum við það og ljóni er nánast ómögulegt að vera í kringum fólk sem hefur ekki reynst trausts þess verðugt.

Ljón elskar að hrista makkann og láta dást að sér. Það kann vel við að vera miðpunktur athyglinnar. Það er hins vegar fljótt að finna þegar hólið er ekki ósvikið og það mislíkar því mjög. Ljóni ferst vel í leiðtogahlutverki og getur hrifið nánast hvern sem er með sér. Það er snillingur í að halda hvatningarræður á ögurstundu. Hver dagur í lífi ljóns er uppfullur af leikrænum tilþrifum, skemmtun og eldmóði. Þegar ljón setur sér markmið eru ekki margar hindranir sem gætu kyrrsett það. Þrátt fyrir að ljónum finnist þau mikilvæg er ekki þar með sagt að þau séu athyglissjúk eða sjálfmiðuð, eins og þau hafa stundum orð á sér fyrir að vera. Þau upplifa mikilvægi sitt nefnilega yfirleitt á þann hátt að þau þurfi að breyta heiminum og hjálpa öðrum. Þau láta sér mjög annt um aðra og það er hreint ekki amalegt að vera undir verndarvæng ljóna. Þau eru með stóra drauma og vilja vekja ánægju hjá öðrum.

Ljón eru mjög skapandi. Það er kraftur í þeim og þau eru dramatísk í eðli sínu, svo það verður yfirleitt eitthvað spennandi sem kemur út úr hugmyndunum sem þau fá.

Ljón geta verið dálítið bráð í skapi, eins og algengt er hjá eldmerkjum. Þau eru líka þrjósk og föst fyrir, svo það er erfitt að fá þau ofan af skoðunum sínum. Þau eru afskaplega stolt og taka því mjög illa þegar stolt þeirra er sært eða ef einhver gerir lítið úr þeim.

Ljón er svipað ljónum í dýraríkinu að því leyti að það elskar að hafa það náðugt og geta notið þess lengi í einu að slaka á og dekra við sig. Þegar það hins vegar fer af stað og ætlar sér eitthvað er það alltaf gert af miklum eldmóði og ákefð.

 

Meyjan

(U.þ.b. 21. ágúst–20. september*)

Nákvæm, dugleg, hjálpsöm.

Meyjan er jarðarmerki. Meyja er skynsöm, rökföst og treystir því áþreifanlega í kringum sig. Meyja lætur verkin tala.

Meyjur eru afskaplega iðnar og góðar í að halda mörgum boltum á lofti í einu. Þær eru afar nákvæmar, oft hreinlega haldnar fullkomnunaráráttu, og setja mikla pressu á sig í hverju því sem þær taka sér fyrir hendur. Enda standast þær pressuna nær alltaf. Meyja er einstaklingurinn í hópnum sem er með allt á hreinu. Hún skipuleggur viðburðina, passar að kaupa inn, minnir hina á að mæta á réttum tíma og þegar að því kemur er allt óaðfinnanlegt. Hún á oft erfitt með að treysta öðrum fyrir verkefnum og deila ábyrgð. Svo á hún það samt til að verða pirruð þegar enginn annar en hún tekur af skarið og gerir hlutina.

Meyjur eltast við vitneskju og vilja kunna hlutina. Hæfni í lífinu er þeim afar mikilvæg. Þær eltast sjaldan við sviðsljósið og eru mjög sáttar á bak við tjöldin, svo lengi sem þær fá þá endurgjöf sem þær eiga skilið og fólkið í kringum þær kann að meta þær og verk þeirra. Meyjur laðast að öllu hreinu og náttúrulegu. Ást þeirra á náttúrunni er mikil. Þær eru tilfinningaríkar og viðkvæmar en á yfirborðinu geta þær virst svolítið til baka. Það þarf oft ekki mikið til þess að gera þær vandræðalegar. Sjálfsgagnrýni meyja er mikil og þær blygðast sín auðveldlega.

Meyja getur stundum virst til baka og lokuð á yfirborðinu, en undir niðri er hún ljúf og mjúk. Hún á bara stundum erfitt með að treysta öðrum fyrir sjálfri sér – hvað þá hjarta sínu. Þegar hún hleypir fólki inn umvefur hún það hlýju og umhyggju. Hún hugsar afar vel um sína nánustu og er með eindæmum hjálpsöm. Einhvern veginn virðist meyja alltaf búa til tíma til þess að hjálpa öðrum. Hún á það hins vegar til að gleyma sjálfri sér og er ekki nógu dugleg við að segja hvað það er sem hún þarfnast. Þetta þarf meyja að hafa á bak við eyrað.

Vegna fullkomnunaráráttunnar og pressunnar sem meyja setur á sjálfa sig á hún það til að vera áhyggjufull og trekkt á taugum. Þetta getur líka gert hana uppstökka gagnvart öðrum. Hún getur líka sett pressu á sitt nánasta fólk (eins og hún gerir við sjálfa sig) og getur misst sig í nöldur þegar henni finnst fólk ekki standa sig.

Meyja þarf að hafa nóg fyrir stafni, annars er stutt í óánægjuna. Meyja sem hefur engin verkefni fer fljótlega að finna fyrir þyngslum, depurð og pirringi. Hún leggur mikið kapp á að hafa nóg að gera og gera allt vel. Meyjur eru í eðli sínu svo áhyggjufullar að það myndi breyta miklu fyrir þær að læra að sleppa takinu af og til. Láta sig fljóta með straumnum. Þetta gæti fært þeim meiri lífsfyllingu og innri ró.

 

Vogin

(U.þ.b. 23. september–22. október*)

Réttsýn, heillandi, félagslynd.

Vogin er loftmerki. Vog er afar heillandi og á það til að vera dálítill daðrari. Það er skemmtilegt að vera í kringum vogir, þær eru hlýjar og hafa lag á því að láta fólkinu í kringum þær líða vel. Þær eru góðar í að skynja andrúmsloft og stemningu og eru flinkar í að bæta hana eftir þörfum.

Vog er félagslynd og þrífst mikið á samskiptum við aðra. Henni dauðleiðist að vera lengi ein, enda fær hún mikla orku úr samtölum og samneyti við fólk. Hún hefur mikla hæfileika þegar kemur að því að skilja annað fólk og setja sig í spor þess. Þetta gerir hana afar flinka í að sætta ólíkar skoðanir og hún er oft fær diplómat. Vog hefur afar gaman af líflegum rökræðum – en um leið og einhver skaphiti færist í leikinn er hún yfirleitt fljót að forða sér. Hún er nefnilega ansi átakafælin.

Vegna þess hve auðvelt hún á með að skoða mál frá öllum hliðum getur henni reynst þrautin þyngri að taka ákvarðanir. Hún er með mikinn valkvíða og hver ákvörðun getur tekið hana langan tíma. Hún á erfitt með að standa með einhverju sem ef til vill er síðan ekki „rétt“ ákvörðun. Hún lætur því valið stundum sigla frá sér og lætur aðra um ákvarðanir. Vog er til að mynda ekki líkleg til að vera sá einstaklingur í hópnum sem ákveður hvað skal borða. Þegar hún er spurð er hún líkleg til að koma með enn fleiri möguleika og flækjur.

Vog þrífst á samskiptum og vill vera í teymi með öðrum. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að samböndum – vog er mjög hrifin af hugmyndinni um lífsförunaut. Vogir eru gjarnan í löngum samböndum, jafnvel hverju langa sambandinu á fætur öðru án þess að eyða miklum tíma einhleypar. Þeim finnst þær stundum á einhvern hátt ófullkomnaðar þegar þær eru ekki í sambandi. Þetta er eitthvað sem vogir þurfa að vera meðvitaðar um og reyna að finna fyllingu í sjálfum sér, en ekki alltaf leita að henni í öðru fólki. Vog er líka greind og getur vel staðið með sjálfri sér og tekið góðar ákvarðanir. Hún þarf bara að trúa því. Hún hefur tilhneigingu til að verða meðvirk.

Vogir eru með eindæmum réttsýnar og mega ekkert aumt sjá. Þeim líkar illa allt sem þær upplifa sem ójafnvægi. Þær standa því gjarnan með þeim sem minna mega sín og leita oft í stöður þar sem þær geta barist fyrir einhvers konar réttindum og sanngirni.

 

Sporðdrekinn

(U.þ.b. 23. október–21. nóvember*)

Djúpur, ástríðufullur, dularfullur.

Sporðdrekinn er vatnsmerki. Sporðdreki er afar tilfinningaríkur og nálgast viðfangsefni og fólk sem kveikir áhuga hans af ákefð. Hann leitast ávallt við að fara á dýptina tilfinningalega og er einstaklega næmur á fólk og umhverfi sitt. Sporðdreki virðist taka eftir öllu og muna allt. Djúpt innsæi hans og skynjun á mannlegu eðli gerir að verkum að sporðdrekar eru oft eins og mennskir lygamælar. Þeir virðast alltaf skynja þegar einhver er ekki heiðarlegur við þá, sem er eitthvað sem þeir kunna mjög illa við. Sporðdrekar meta sannleikann meira en flest annað. Þeir kjósa heldur að heyra sársaukafullan sannleika en dúnmjúka og þægilega lygi.

Sporðdreki er dularfullur og heillandi. Í honum býr eitthvert órætt myrkur sem sumir laðast að á meðan aðrir hræðast það. Hann vill skoða allar hliðar lífsins og mannfólksins – líka þær dimmu og drungalegu. Myrkrið hræðir hann ekki og hann vill þekkja allar hliðar þeirra sem honum þykir vænt um, sérstaklega elskhuga sinna – líka þær „ljótu“, sem flestir reyna að fela fyrir umheiminum. Þessar hliðar, þessar víddir, þykir sporðdreka spennandi.

Sporðdrekar eru greinandi og hugsa yfirleitt marga leiki fram í tímann. Vegna þess hve læsir þeir eru á fólk eiga þeir oft auðvelt með að ýta á réttu takkana og ráðskast með fólk á mjög lúmskan hátt. Þeir eru góðir í að sveigja aðra til þess að gera það sem þeir vilja. Þarna verða þeir að stoppa sig af. Sporðdreki dafnar best og tekur út þroska þegar hann lærir að nota greind sína, dýpt og innsæi til góða; til þess að hjálpa öðrum og sjálfum sér, í staðinn fyrir að nýta hæfileikana til að ráðskast með aðra eða hefna sín.

Sporðdrekar eru afar langræknir. Vegna þess hve minnugir þeir eru er líklegt að allt sem maður gerir á hlut þeirra sé geymt en ekki gleymt. Þetta getur valdið þeim ama í samskiptum, svo ekki sé talað um í þeirra eigin sálarlífi. Þeir eru tortryggnir í eðli sínu og eiga það til að vera afbrýðisamir. Þeir eru ekki sérstaklega bráðir í skapi, en þeir eru þó vissulega skapstórir, en skap þeirra er seigt og hreyfist frekar hægt. Þeir eru líka þrjóskir.

Sporðdrekar eru trygglyndir og meta traust mikils. Þeir treysta hvorki auðveldlega né af sjálfsdáðum, en vinnir þú þér inn traust sporðdreka ertu búinn að eignast ómetanlegan trúnaðarvin sem mun standa með þér og verja þig fram í rauðan dauðann.

 

Bogmaðurinn

(U.þ.b. 22. nóvember–21. desember*)

Bjartsýnn, glaðlyndur, ævintýragjarn.

Bogmaðurinn er eldmerki. Bogmaður er orkumikill og oftast hress og kátur. Hann er einstaklega bjartsýnn og steypir sér inn í hvern dag eins og um ævintýri sé að ræða. Bogmenn eru fullir af eldmóði og mjög hugmyndaríkir. Þeir eru skapandi í hugsun og góðir í að hrinda hlutum í framkvæmd – hins vegar er það ekki endilega þeirra sterka hlið að klára alltaf verkefnin.

Bogmenn vilja hafa nóg fyrir stafni og þykir ekki gaman að láta sér leiðast. Þá geta þeir orðið ansi daufir. Þeir heilla aðra með ákafa sínum og glaðlyndi og eiga auðvelt með að hrífa fólk með sér. Þeir eru afar forvitnir og fróðleiksfúsir. Bogmenn elska að læra nýja hluti. Helst vilja þeir læra með því að framkvæma.

Ferðalög eru bogmanni afar mikilvæg. Hann þrífst á því að lenda í ævintýrum, helst í gegnum ferðalög, og með því að uppgötva nýja menningarheima. Hann lærir mikið í gegnum ferðalög og fyllist innblæstri.

Bogmaður metur frelsi mikils. Það fer honum ekki vel að festast í hjólförum eða vera of bundinn niður, hvort sem er í starfi eða einkalífi. Hann verður að búa við ákveðið frelsi og sjálfstæði til að líða vel og geta breitt úr vængjum sínum.

Bogmaður er afar félagslyndur og mikill húmoristi. Hann elskar að vera í kringum fólk og eiga samskipti, fara á skemmtileg mannamót og slíkt. Fólk laðast að birtunni sem stafar frá honum. Vegna þess hve fróðleiksfús hann er, er hann mikið fyrir að kynna sér ný málefni og læra ný hugtök. Hann á það til að vera fljótur á sér og fara að nota þessi hugtök og það sem hann hefur nýverið lært í rökræðum eða til þess að breiða út boðskapinn. Þetta gerir hann gjarnan án þess að þekkja alveg nógu vel til. Samt er hann gjarn á að standa pikkfastur á sinni meiningu og rökræða hlið sína út í hið óendanlega. Hann botnar stundum alls ekkert í því hvers vegna aðrir eru ósammála honum.

Stundvísi og skipulag er hvorugt sterk hlið bogmanns. Hann getur orðið ansi kærulaus og er gjarnan að vinna hlutina á síðustu stundu.

 

Steingeitin

(U.þ.b. 22. desember–19. janúar*)

Metnaðargjörn, stöðug, ákveðin.

Steingeitin er jarðarmerki. Steingeit er sjálfstæð og örugg í fasi. Hún er lítið fyrir tilfinningarök og vill nálgast hlutina rökrænt. Helst vill hún hafa allt hnitmiðað og skýrt – hún lítur á það sem tímaeyðslu að vera með óþarfa skreytingar og hafa fleiri orð um málin en nauðsyn krefur. Steingeit treystir á það sem hún veit og sér og er afar raunsæ. Hún er mjög metnaðargjörn og kann vel við sig í nokkuð skýrum ramma. Hún vill skipuleggja sig fram í tímann og reikna allt út, hún er glögg og hugsar ótal leiki fram í tímann til að ná markmiðum sínum. Enda er það svo með steingeit að það virðist oftast vera þannig að hún nái þeim markmiðum sem hún setur sér.

Steingeitur eru vinnusamar, svo mjög að þær eiga það til að týna sér í vinnu og gleyma því að gefa sér frítíma. Ef þær njóta vinnu sinnar er engin klukka sem stöðvar þær. Þetta getur þó gert að verkum að með tímanum safnist upp streita og spenna sem þarf að eiga við síðar. Þol steingeita í þeim efnum er þó frekar mikið. Þær setja mikla pressu á sjálfar sig og eru afar nákvæmar. Þær beita sig oft fullmikilli hörku og finnst ekkert sem þær gera nógu gott.

Það er oft hægt að líkja steingeitum við fjallageitur í náttúrunni. Þær klifra; þrífast á metnaði sínum, klífa metorðastiga og fyrir þeim skiptir öllu máli að ná árangri. Þær svífast nánast einskis til að komast á toppinn.

Steingeitur hafa mikla þörf fyrir að finnast þær gagnlegar og atorkusamar. Þær horfa meira á samfélagið en einstaklingar í hinum jarðarmerkjunum (Nautinu og Meyjunni) og strúktúrinn innan þess. Það skiptir þær miklu máli að þær séu gjaldgengar innan samfélagsins, að þær séu að ná árangri innan þess og hljóti einhvers konar viðurkenningu. Þær vilja „gera eitthvað úr sjálfum sér“. Völd geta heillað steingeitur og það býr dálítið myrkur innra með þeim sem þær þurfa oft að beisla.

Margar steingeitur hafa þörf fyrir ákveðin stöðutákn. Hafi þær náð árangri og eigi næga peninga munu þær eiga vönduð föt (líklega frá virtum hönnuðum) og dýra og góða bíla. Þarna erum við þó ekki að tala um mikið af glingri og eitthvað sem er of „glansandi“. Stíll þeirra er mun jarðbundnari og slungnari.

Steingeitur eru oft mjög hnyttnar og með skemmtilegt skopskyn. Þær nálgast grín á alvarlegum nótum og blátt áfram. Kaldhæðni þeirra er mikil og getur stungið þá sem kunna ekki að taka á móti slíku.

Steingeitur geta oft virst kaldar og lokaðar. Þær eiga erfitt með að treysta og það tekur þær tíma að hleypa fólki að sér. Það er hins vegar vel þess virði þegar þær loksins gera það. Steingeitur eru oft gagnrýnar á aðra og skapið í þeim getur orðið þungt. Þær eru þó ekki sérstaklega gjarnar á mikinn æsing, þær eru færar í að halda ró sinni. Steingeitin er stolt og það fer illa í hana þegar stolt hennar er sært.

Steingeitur eru trygglyndar og fólkið í þeirra nánasta hring getur treyst á þær. Þær gefa góð og praktísk ráð og geta hjálpað fólki við að koma betra lagi á líf sitt.

 

Vatnsberinn

(U.þ.b. 20. janúar–18. febrúar*)

Frumlegur, sjálfstæður, klár.

Vatnsberinn er loftmerki. Það einkennir vatnsbera gjarnan hversu frumlegir og stundum óvenjulegir þeir eru. Þetta getur lýst sér á ýmsan hátt. Þeir geta haft óvenjulegar skoðanir og nálgun á málefni, þeir geta stundum hagað sér eins og hálfgerðar geimverur með stórundarlegan húmor sem enginn annar skilur og þeir geta líka tjáð sig í gegnum fatastíl og yfirbragð sem þá er sérstæður á einhvern hátt.

Vatnsberi er afar klár og nálgast flest í heiminum út frá vitsmunalegum grundvelli. Hann er hugsandi og hugur hans er rökrænn. Hann er flinkur í að greina hluti og komast að kjarna þeirra. Vatnsberi getur stundum virst dálítið aftengdur. Það hversu mikið hann treystir á hugann gerir hann stundum fjarlægan tilfinningum, bæði sínum eigin og annarra. Elskhugum hans getur stundum fundist hann ansi kaldur; hálfgert vélmenni. Það er auðvitað ekki svo að vatnsberi sé tilfinningalaus. Honum er bara miklu tamara að nálgast hluti með huga sínum frekar en hjarta. Hitt þarf hann að þjálfa sérstaklega. Það hjálpar honum ef tunglið í stjörnukorti hans er staðsett í tilfinningaríkara merki.

Vatnsberi þarf á miklu frelsi að halda til að blómstra. Hann er vissulega fastur fyrir og þrjóskur, en hann þarf að vera á ferð og flugi og að uppgötva nýja hluti. Hann þolir illa ef engin fjölbreytni er til staðar í lífinu. Vatnsberar vilja og þurfa sjálfræði og að geta kúplað sig út og verið í friði. Þarna getur komið sér vel að vera með áhugamál sem þeir eiga í friði fyrir sínum nánustu.

Vatnsberar hafa mikinn áhuga á fólki og samfélaginu í heild sinni. Þeir vilja bæta heiminn og eru gjarnir á að halda í hina og þessa vegferðina til að berjast fyrir réttindum eða vera rödd fyrir þá sem minna mega sín. Það hentar þeim gjarnan vel að sinna einhvers konar mannúðarstarfi eða samfélagsúrbótum. Þeir tengja líka oft sérlega vel við dýr – það er eins og þeir komist inn á eitthvert tíðnisvið sem aðeins dýrin eru inni á.

Vatnsberar geta verið ansi þverir og það pirrar þá mjög þegar aðrir eru þeim ekki sammála. Þeir eiga það til að vera dálítið hrokafullir og þeim hættir til að tala niður til annarra.

Vatnsberar eru víðsýnir og ekki hrifnir af því að feta fyrirfram ákveðinn veg út frá gömlum gildum. Þeir eru opnir fyrir nýjum og óhefðbundnum hugmyndum, og leitast við að breyta og bæta. Þrátt fyrir þetta eru vatnsberar þrjóskir; þegar þeir hafa myndað sér skoðun og bitið eitthvað í sig er erfitt að sveigja þá.

 

Fiskarnir

(U.þ.b. 19. febrúar–20. mars*)

Skapandi, viðkvæmir, dreymandi.

Fiskarnir eru vatnsmerki. Fiskar búa yfir mikilli tilfinningalegri dýpt og eru afar næmir á fólkið í kringum sig. Oft er eins og þeir finni fyrir tilfinningum allra annarra. Þetta er hæfileiki sem fiskum er tamt að nota til góða, en getur líka íþyngt þeim.

Fiskar eru listrænir og skapandi í eðli sínu. Þeir fá yfirleitt margar og frumlegar hugmyndir. Það er gott að fá augu eða eyru fiska lánuð þegar eitthvað er í mótun, hvort sem það er einhvers konar listaverk eða í raun hvað sem er annað – það er næsta víst að sjónarhorn þeirra verði áhugavert og ferskt, og þeir komi með nýja hugmynd eða vinkil.

Það er skrýtið með fiska hvað þeir virðast eiga sér mörg andlit. Þeir láta sig berast áfram með straumnum og sá fiskur sem þú hittir í dag er ekki endilega sá sami og þú hittir á morgun. Þeir eru á sífelldri hreyfingu og þróast og breytast með umhverfi sínu. Þetta þýðir ekki að þeir séu falskir eða óheiðarlegir, það er einfaldlega í eðli þeirra að umbreytast sífellt og soga umhverfið í sig. Þeir búa líka yfir innbyggðum skilningi í garð annars fólks og eiga auðvelt með að setja sig í spor þess og tengja við ólíka reynsluheima. Þeir eru víðsýnir og með afar opinn huga. Þeir búa yfir sterkri samkennd og ást á mannkyninu.

Fiskar eru afskapandi dreymandi. Þeir eiga það til að týna sér gjörsamlega í dagdraumum og tíminn getur hreinlega hlaupið frá þeim. Það er þó meðal annars í gegnum þennan eiginleika sem þeir fá bestu hugmyndir sínar. Það hentar fiskum ekki sérlega vel að vera í of föstum skorðum; fyrir þá flesta verður að vera ákveðinn sveigjanleiki fyrir spuna í lífinu. Það er þó mikilvægt fyrir fiska að vanda sig svolítið við að halda sig að verkefnunum og klára þau.

Fiskar eru tilfinningaríkir og viðkvæmir. Þeir eru auðsærðir og líka afskaplega hrifnæmir. Þessir einstaklingar eru yfirleitt fljótir að sannfærast um að þeir séu ástfangnir. Viku síðar liggja þeir í ástarsorg og lífið er búið. Eftir viku í viðbót er eins og þetta hafi aldrei gerst.

Fiskar finna svo sterkt fyrir öllu í kringum sig að þeir hafa tilhneigingu til að flýja harðan veruleikann. Þetta gera þeir stundum með einhvers konar sjálfsblekkingu eða flóttahegðun. Það endar þó iðulega með því að veruleikinn lendir harkalega á höfði þeirra. Þá geta þeir orðið ansi daprir og dregið sig í hlé. Þeir eiga það þá til að vorkenna sér og fullyrða hluti á borð við „Ég mun aldrei treysta neinum aftur!“ Þetta endist þó yfirleitt ekki lengi og svona tímabil getur hreinlega verið fiskum gagnlegt; þeir koma til baka tvíefldir.

Þeir geta verið svolítið mislyndir. Þeir eru ekki sérlega bráðir í skapi, en dramatískir eru þeir og móðgast auðveldlega. Þeir eru líka afskaplega auðsærðir. Þeir geta einnig verið dálitlir fýlupúkar og skapið oft ansi þungt. Fúll fiskur fer ekki fram hjá neinum.

 

 

*Dagsetningarnar geta verið örlítið breytilegar eftir árum. Á síðum á borð við Cafe Astrology má slá inn fæðingarupplýsingar og skoða stjörnukortið sitt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -