Sunnudagur 5. desember, 2021
-2.3 C
Reykjavik

Sóley er neytandi vikunnar: „Hærri sykurskatt og lækka enn meira verð á grænmeti og ávöxtum“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sóley Stefánsdóttir er tónlistarkona og tónskáld. Hún er líka tónlistar- og tónsmíðakennari. Hún hefur gefið út mikið af tónlist sem sólólistamaður undir nafninu Sóley, með hljómsveitinni Seabear og með Sin Fang og Örvari Smárasyni, en það samstarf gat af sér plötuna Team Dreams.

Nýjasta plata Sóleyjar, Mother Melancholia, kemur út 22. október næstkomandi og í kjölfar útgáfunnar heldur hún af stað í tónleikaferðalag til Evrópu í nóvember.

Sóley býr í Vesturbænum ásamt sambýlismanni, sjö ára dóttur og ketti. Hún er grænkeri og náttúru- og dýraverndunarsinni af lífi og sál.

Sóley er neytandi vikunnar hjá Mannlífi.

 

Hvar kaupir þú eða fjölskylda þín helst inn mat og rekstrarvörur til heimilisins og hversu mikill er sá kostnaður að jafnaði á mánuði?

Við búum rétt hjá Grandanum þar sem við erum með Krónuna, Bónus, Nettó, Hagkaup á Eiðistorgi og svo auðvitað Melabúðina. Þannig að ég er með system, kaupi ódýra hluti í Bónus, tek stærri innkaup í Krónunni og fer í Nettó, Hagkaup og Melabúðina fyrir sérvöru.

- Auglýsing -

Svoldið beisik en úti um allt, en þannig virkar líka grænkeralífsstíllinn, það eru ekki sömu vörur í öllum búðum. Ég er ekki með á hreinu hvað við eyðum í mat á mánuði. Ég elska mat og ég elska lífrænt og holla matvöru og því miður þá er hún bara frekar dýr.

 

Hvaða aðferðum beitir þú til að nýta mat sem best?

Borða afganga og pakka mat vel í góð box eða krukkur.

- Auglýsing -

 

Hvert er þitt helsta sparnaðarráð?

Ég spara mest í mat þegar ég ákveð fyrirfram fyrir vikuna hvað á að vera í matinn. Þá kíki ég í frystinn og kíki á hvaða baunir og grænmeti ég á og vinn mig í gegnum vikuna með tilliti til hversu stutt grænmetið á eftir.

 

Er allt rusl flokkað heima hjá þér? Ef svo er, hvaða verklag hefur reynst þér eða fjölskyldu þinni best til að tryggja að allt rusl sé flokkað?

Já, við flokkum almennt rusl, plast, pappír, gler og flöskur. Við erum með stóra ruslaskúffu fyrir almennt rusl, plast og pappír og fyrir utan húsið erum við með græna, bláa og almenna tunnu. Það er grenndargámur í nálægð við húsið fyrir bæði gler og flöskur sem við löbbum bara með og svo er Sorpa auðvitað bara í næsta nágrenni, þannig að við höfum enga afsökun!

 

Hvaða hreinsiefni eru notuð heima hjá þér?

Ég nota aðallega hreinsi, þvottaefni og sápur frá Sonnet sem ég kaupi í Nettó eða Melabúðinni en það detta líka oft inn einhver ekó hreinsiefni í Krónuna og Bónus sem ég prófa gjarnan. Svo nota ég matarsóda og edik mjög mikið. Átti til dæmis ekki klósetthreinsi og prófaði að setja smá matarsóda og edik í klósettið og það virkaði líka svona vel!

 

Kaupir þú helst ný eða notuð húsgögn?

Bæði ný og notuð. Og fæ gefins. Við reynum bara að vera meðvitaðir neytendur í hvert skipti sem okkur vantar eitthvað eða langar í. Ég reyni oft fyrst að finna hlutinn notaðan og ef ég hef leitað í nokkrar vikur án árangurs þá förum við bara í einn skömmustu-kapítalískan leiðangur í IKEA. Ég elska líka Söstrene Grene og úff, ég ræð ekki við það.

 

Átt þú bíl? Hve miklu eyðir þú að jafnaði í samgöngur á mánuði? 

Já, við erum með einn bíl. Ég kenni á mismunandi stöðum, er á æfingum þar sem ég þarf að róta hljóðfærum um allan bæ og oft í mismunandi verkefnum þannig að eins og er er eini kosturinn fyrir mig að vera á bíl. En svo koma dagar sem ég snerti ekki bílinn, ef ég vinn heima til dæmis.

Þess vegna er staðsetningin í Vesturbænum sem við búum á alveg æðisleg. Það er allt til alls: matvörubúðir, Byko og fleira, Sorpa, sundlaug, sjórinn, fjara, miðbærinn, kaffihús. Draumurinn er að eignast rafmagnsbíl, auðvitað. Ég eyði svona ca 15.000 krónum í bílinn á mánuði.

 

Leggur þú fyrir? Ef svo er, í hvaða formi er sparnaðurinn?

Ég legg fyrir smá pening á mánuði, fer inn á annan reikning.

 

Hvernig finnst þér verðlag á Íslandi?

Ísland er rosalega dýrt, að mínu mati. Ég er náttúrlega listamaður. Þannig að ég þekki ekki þessi meðallaun sem talað er um í landinu!

En ég er samt heppin og með fullt af verkefnum og kenni. Ég er svo mikil áhugakona um góðan og hollan mat að mér finnst kannski sorglegast að þurfa að eyða svona miklum peningi í mat sem ég tel líka vera ákveðnar lífsstílsforvarnir.

 

Ert þú með fasteignalán? En önnur lán? 

Við eigum íbúð og erum með fasteignalán. Engin önnur lán.

 

Hvaða breytingu myndir þú vilja sjá sem neytandi?

Það er sama gamla grænkeratuggan. Meiri styrki í nýsköpun og til grænmetisbænda. Meiri vöruþróun á Íslandi. Færa landbúnaðinn að miklu leyti frá dýrarækt og yfir í grænmeti, korn, baunir og fleira.

Við erum með alls konar fólk sem er með frábærar hugmyndir. Hærri sykurskatt og lækka enn þá meira verð á grænmeti og ávöxtum. Pakki af kexi ætti að kosta 1.500 krónur svo við kaupum það bara spari. Bættari almenningssamgöngur auðvitað.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -