D-vítamínþyrstir íbúar Suðvesturhornsins geta tekið gleði sína á ný en nú spáir loks sumri um helgina, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt. Langeygðir mega því finna fram sólgleraugun og sólarvörnina. Á vef Veðurstofunnar gefur að líta sólríkt kort og gera má ráð fyrir að blíðviðrið haldi út helgina.

Í langtímaspá Veðurstofunnar segir:
„Á laugardag:
Vestan og suðvestan 5-13 og stöku skúrir, en léttir smám saman til sunnan- og vestanlands. Hiti 7 til 15 stig, mildast á Suðausturlandi.
Á sunnudag:
Suðvestan og vestan 5-13 og víða léttskýjað, en þykknar allvíða upp við vesturströndina. Hiti 8 til 13 stig, en 12 til 20 stig um landið austanvert.“