Föstudagur 19. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Spaðinn leggur upp laupana – ætlaði að setja Dominos á hausinn

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Veitingastaðurinn Spaðinn hefur nú lokað eftir um tveggja ára starfsemi. Staðurinn bauð upp á pitsur og hafði framkvæmdastjóri staðarins hátt um það í viðtölum að ætla sér að setja pitsustaðinn Dominos á hausinn.

Þórarinn Ævarson, framkvæmdastjóri Spaðans, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að ekki hafi lengur verið rekstrargrundvöllur fyrir starfsemi Spaðans. Því hafi síðasti opnunardagur veitingastaðarins verið í gær, sunnudaginn 3. júlí. Vísir greinir frá lokuninni.

Þórarinn Ævarsson var framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi áður en hann opnaði Spaðann. Áður en hann tók við taumunum hjá IKEA stýrði hann hins vegar Dominos, pitsustaðnum sívinsæla. Þegar Þórarinn opnaði Spaðann fór hann mikinn í fjölmiðlum og sagðist meðal annars ætla sér að keyra Dominos í þrot á fimm árum. Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum og sagði stór orð eiga það til að falla í hita leiksins. „Ástríða fyr­ir mál­efn­um á það til að hleypa manni kapp í kinn, svo ekki sé kveðið fast­ar að,“ sagði Þórarinn.

Upp úr þessu fór af stað það sem kallað var pitsustríð á Íslandi, þar sem Spaðinn fór meðal annars að bjóða upp á þriðjudagstilboð sem Dominos reið á vaðið með á sínum tíma, en fleiri veitingastaðir höfðu tekið upp. Í verðkönnun Mannlífs síðastliðið haust kom í ljós að Spaðinn bauð betur en Dominos á þriðjudögum.

Í byrjun árs 2021 kom fram að fjárfestahópur sem Þórarinn fór fyrir var einn af þremur fjárfestahópum sem vildu kaupa rekstur Dominos á Íslandi. Að endingu var tilboð Birgis Þórs Bieltvedt samþykkt.

Spaðinn bauð upp á pitsur á lægra verði en almennt þekktist hér á landi, en Þórarinn hafði gagnrýnt álagningu Dominos, sem og annarra pitsustaða, og sagt viðskiptamódel þeirra bæði stuðla að matarsóun og óheilbrigðum lífsstíl, þar sem fólki væri yfirleitt beint í þá átt að kaupa meira en það þyrfti.

- Auglýsing -

„Skuldir Spaðans eru nær einvörðungu við eigendur fyrirtækisins en þar sem rekstrargrundvöllur er brostinn er það mat eiganda að réttast sé að hætta starfsemi. Því var síðasti starfsdagur þess í gær, sunnudaginn 3. júlí,“ segir í tilkynningu Þórarins.

Spaðinn rak tvo veitingastaði, í Kópavogi og Hafnarfirði. Útibú Spaðans í Hafnarfirði lokaði þó í maí síðastliðnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -