Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Stefán hreindýrabóndi vann við selveiðar: „Skipstjórinn á selveiðiskipinu var áður nasistaforingi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gestur sjóarans að þessu sinni er Stefán Hrafn Magnússon. Stefán Hrafn fór til Grænlands 15 ára að aldri og gerðist þar síðar hreindýrabóndi í Isortoq. Hann hefur komið víða við og meðal annars unnið með Sömum í Svíþjóð og Noregi, en þar stundaði hann selveiðar í Austur–Íshafi hjá útgerð við Lofoten.

Fyrsta kynslóðin sem flytur til Reykjavíkur

Hvernig bar þetta til; að þú endaðir á Grænlandi við hreindýraræktun?

Margir hafa ekki lengur bein tengsl við sveitina, eins og áður

„Ég hafði alltaf haft áhuga á því að vinna í náttúrunni, eins og allt fólkið mitt og fjölskyldan mín sem hefur stundað landbúnað, afi minn og amma og margir Íslendingar. Þeir sem eru fæddir á þessum tíma, en ég er fæddur árið 1956, erum ábyggilega fyrsta kynslóðin sem fer til Reykjavíkur. Þannig að ég fór þá í sveit á sumrin, Vestur í Dalina. Nú hefur þetta breyst svo mikið, nú er komið svo mikið þéttbýli hérna í Reykjavík. Þannig að margir hafa ekki lengur bein tengsl við sveitina, eins og áður. Þetta gerðist einhvern veginn af sjálfum sér að ég fór þessa leið í mínu lífi.“

Eftir bændaskólann á Hvanneyri árið 1975, fór Stefán á sjó með skipinu Skálafelli HR20 í útgerð í Þorlákshöfn. Stefán segir að þeir hafi verið þeir næst aflahæstu á Íslandi. Þá var ekkert kvótakerfi og hann telur að þeir hafi fengið um það bil 700 tonn af þorski.

„Það var farið alveg hræðilega illa með aflann. Það var verið að leggja netin í sjóinn í janúar og febrúar og gat komið bræla í þrjá daga og voru netin ennþá í sjónum. Við þurftum að draga netin og veiðifærin upp úr sjónum, en þá var þetta orðið eins og annars flokks fiskimjöl. Það er miklu betri stýring á þessu í dag. Menn eru ekkert að veiða þegar veðrið er vont. Veðurfarið er líka allt annað í dag.“

Vorum við selveiðar sem eru bannaðar í dag

Bátarnir eru líka sennilega betur búnir í dag fyrir slæm veður?

- Auglýsing -

„Jú, þetta er allt annað. Í þá daga var þetta bara stórt skip, 100 tonna bátur.“

Stefán ákvað að fara í starfsnám til Noregs til að læra hreindýraræktun. Þess á milli þegar hann átti frí, hafði hann um tvennt að velja. Vera í skóginum eða stunda fiskveiðar/sjómennsku, en hann segir þetta hafi verið svokölluð ákvæðisvinna, þar sem menn reyndu að afla sér sem mestra tekna á sem stystum tíma. Svona líferni hentaði vel fyrir námsmenn og eða ungt fólk sem ætlaði sér að byggja hús eða koma sér upp sínum eigin rekstri. Í dag eru þetta bara tölvurnar, þar sem peningurinn er, segir hann.

Ef selurinn er ekki veiddur, þá éta þeir upp fiskinn. Selir geta borðað mikinn um 6 kíló af fiski á viku

„Þegar ég var að læra hreindýraræktun og fékk frí inn á milli námsins, fór ég að vinna á sjónum hjá útgerðinni Lofoten. Þeir voru með tvenns konar veiðar, annars vegar selveiðar á vorin og voru þá með samning við Rússland og hins vegar að toga rækjur í Barentshafi. Selveiðarnar voru leyfðar þá, en þær eru bannaðar í dag vegna mannúðlegra ástæðna. Eiginlega þurfum við ekki á þessu að halda í dag í nútímasamfélagi. En þetta er hluti af auðlindastjórnun, þannig að ef selurinn er ekki veiddur, þá éta þeir upp fiskinn. Selir geta borðað um 6 kíló af fiski á viku.“

- Auglýsing -

Þessar hefðir voru hafðar að leiðarljósi hjá Brødrene Angelsen, Stefán segir að þeir hafi verið með verbúðir við Lofoten, sem voru gamlar fornar verbúðir. Í þessum fornu verbúðum voru alls konar gömul verkfæri, sem höfðu fundist við uppgröft og höfðu verið í eign ættarinnar í langan tíma. Að fara að veiða í Íshafinu hafi þar að leiðandi verið hefð sem hægt væri að rekja aftur til 8. aldar.

Leitin að svarta víkingnum

„Eins og í sögu Bergsveins Birgissonar sem er að skrifa bókina Leitin að svarta víkingnum, kemur fram saga Geirmundar heljarskinns. Í sögunni stundar Geirmundur rostungaveiðar ásamt föður sínum Hjör konungi við Rogaland. Hann gerði út víkingaskip eða knörr sem sigldu Norður fyrir Noreg og inn á Hvítahafið til þess að stunda verslun við þjóðflokkana þar.

Hjör konungur skildi þar eftir son sinn í tvö ár þar sem hann kynntist konunni sinni. Fyrir átti hann konu af mongólskum ættum frá norðurhéruðum Rússlands og þess vegna var hann kallaður svarti víkingurinn. Ég set þetta í tengsl við hefð Norðmanna að stunda selveiðar í Austur-Íshafi, þeir voru með sérsamning við Sovétríkin. Þeir máttu veiða sel í sovéskri lögsögu allt að 12 sjómílum nálægt Kap Kanin við Hvítahafið.

Við fórum í tvo leiðangra og við veiddum um 7.000 seli í þessum veiðum

Á þessum tíma var komin meiri tækni og skipin vélknúin. Skipið var líka hannað þannig að skrokkurinn var egglaga, þannig að ef það kom hafís þá gat skipið lyfst upp á ísinn eða virkað eins og ísbrjótur. Þarna fórum við í apríl til þess að stunda veiðar. Við fórum í tvo leiðangra og við veiddum um 7.000 seli í þessum veiðum. Það hafa verið mikið sögur um það að selveiðar hafi verið mikið dýraníð, en flestir selirnir sem voru veiddir voru skotnir og því var þetta skjótur dauðdagi. Við fórum allir til Tromsø í nám hjá dýralækni og lærðum hvernig það væri best að aflífa seli. Ég sá aldrei að selurinn hefði liðið eitthvað fyrir það að vera drepinn.

Skipstjórinn hafði verið í SS sveit Hitler‘s

Hann var í  SS sveit Hitlers og hafði verið í umsátrinu við Leníngrad á sínum tíma í síðari heimsstyrjöldinni

Við lentum í smá ævintýri þarna. Við vorum búnir að veiða um 700 seli sem lágu á ísnum. Vorum að taka þá inn með víraspili þegar mjög sterkur straumur rekur okkur inn fyrir Sovíetríkin. Þar sjáum við skip koma í áttina að okkur á fullum hraða. Við tókum öll verkfærin upp úr sjónum og þurftum að skilja eftir nokkur hundruð seli. Þeir koma nær og nær og byrja að blikka okkur með ljósunum. Þeir spyrja okkur um staðarákvörðun og við gátum gefið þeim upp hnitin. Þeir komu um borð og ræddu við okkur. Mér fannst það vera svolítið skringilegt að stýrimaðurinn hjá þeim var frá Kasakstan, landi sem er langt inn í landi og liggur ekki að sjó. Maður hefði ekki trúað því að maður sem fæddist svona langt frá sjó væri að vinna við þessa vinnu.

Þegar þeir komu að skipinu tókum við eftir því að skipstjórinn okkar varð svolítið skelkaður, en hann var kominn að sjötugsaldur. Ástæðan fyrir þessari hræðslu var að hann hafði verið meðlimur í SS sveit Hitlers og var í umsátrinu við Leníngrad á sínum tíma í síðari heimsstyrjöldinni. Á meðan að Rússarnir voru um borð faldi stýrimaðurinn sig. Hann og bróðir hans sátu í stríðsfangelsi í Kaupmannahöfn eftir stríð, en þeir lentu allir í þessu.

Það var áhugavert að kynnast þessu umhverfi. Sovéski sjóherinn lét okkur svo í friði, það sem eftir var. Þeir lágu bara þarna rétt hjá okkur og voru að spyrja okkur um ratarinn.“

Hvernig var með þennan nasistaforingja, sem svo var orðinn skipstjóri á selveiðiskipi – það er svolítið langsótt?

Stefán talar um að það hafi verið fyrirgefning í okkar norræna kerfi og það hafi verið voðalega erfitt að dæma 21 árs gamlan mann þegar Evrópa var sundurslitin og illa farin af átökum. Sumir fylgdu Hitler og aðrir einhverjum öðrum. Aðrir aðhylltust bolsévisma.

Hann segir að þetta sé eins og í dag í Úkraínu, það eru Rússar sem eiga fjölskyldur í Úkraínu og Úkraínumenn í Rússlandi. „Og ef þú tekur flugvélaiðnað Sovíétveldisins, þá voru stærstu flugvélaverksmiðjurnar í Úkraínu.

Stríðsrekstur snýst oftast bara um penginga, olíuvinnslu, gas eða gullnámu. Þetta er alltaf út af peningum, eigingirni og valdagræðgi

Þegar kemur upp á yfirborðið eitthvað pólitískt afl sem vill einhverja ákveðna stefnu, þá bitnar það alltaf á fólkinu. Þegar þú ert ungur verður þú fyrir áhrifum þess og veist ekki hvar sannleikskjarninn er. Ef þú fylgir sannfæringu þinni og ferð eftir boðorðunum 10, eins og; þú skalt ekki deyða, þá er það ekki auðvelt á þessum tímum. Svo er einhver ríkisstjórn sem skipar þér eða hvetur þig til að ganga í herþjónustu til að deyða einhverja, einhvers staðar annars staðar að því að þeir eru tengdir ríkisstjórninni. Stríðsrekstur snýst oftast bara um penginga, olíuvinnslu, gas eða gullnámu. Þetta er alltaf út af peningum, eigingirni og valdagræðgi.“

Svo var þetta búið og lífið hélt áfram

Þessi ungi maður hefur þá tekið sér þann pól í hæðina að snúa sér að borgarlegum háttum?

„Þeir fóru í fangelsi og tóku út sína refsingu og einn nafnkunnur Íslendingur sat með þeim. Ég ætla ekki að nefna hann á nafn,  en það hefur verið skrifuð bók um hann. Svo var þetta búið og lífið hélt áfram.

Þetta er eins og ungi Rússinn sem var tekinn 21 árs gamall fyrir stríðsglæpi, en honum er att út þetta af stjórnvöldum. “

Selskinnið verðmætt og selspikið notað í snyrtivörur

Mig langar að vita hvað varð um selina?

„Við sigldum til Tromsø og það var í fyrsta skiptið á ævinni sem ég sofnaði uppistandandi. Ég var búinn að vinna í þrjá sólarhringa. Við lentum í þeirri stöðu að ísinn var dreifður og svo þjappaðist ísinn saman og selirnir komu sér fyrir á ísnum og voru fastir upp á ísnum. Þá notuðum við tækifærið og fórum og skutum selina og fláðum þá þar. Skinnið var hirt en kjötinu var hent. Svo var þessu staflað upp og settum við rotvarnarefni hármegin svo að skinnið yrði ekki gulleitt.

Leiðin aftur til Tromsø tók sex tíma og ég stóð allan tímann eftir þetta dauðþreyttur, en maður varð bara að taka þetta á sig.“

Þið skutuð selinn, var það almennt aðferðin?

„Já, nema þegar kópar voru teknir. Þá voru þeir rotaðir með stálkylfu með stálpinna sem fór beint inn í heilann. “

Sumir talar um að selurinn sé með mannsaugu?

„Nei, þú horfir bara á skrokkinn. Maður verður að gera það, en ég myndi ekki gera þetta aftur í dag?“

Þú segir að kjötinu hafi verið hent, en hvað með spikið?

„Spikið var notað í snyrtivörur. “

Vildi fá rétt svör við sjávarfalli en fékk alltaf vitlaus svör

Ég heyrði það út undan mér að þú hefðir sektað móður þína?

Stefán segir frá því þegar hann var 10 ára og staddur á Grænlandi, en móðir hans var búsett í Noregi á þessum tíma „Það kom oft fólk frá Íslandi í heimsókn og mamma kom til mín á sumrin þegar hún var komin á eftirlaun og dvaldi þá allt sumarið. Á Grænlandi eins og á Íslandi er 2,5 m fjara og fara flestallar samgöngurnar fram á sjó, eins og var á Vestfjörðum í gamla daga.

Ef þú ætlar út í búð, þá verður þú gjörðu svo vel að fara um borð í bát og sigla og engir vegir, þeir eru bara í bæjarkjörnunum sem slíkum. Þú ert mjög háður því að vita sjávarföllin út af öruggi sjálf þíns og verðmæti í bátnum. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta á hreinu.

Þú þarft bara taka eftir því þegar það er bullandi fjara næst þá horfir þú á klukkuna og lítur til sólar og svo færist þetta um 45 mínútur á hverjum sólarhring

Ég spurði fólk sem ég mætti á förnum vegi oft út í þetta þegar ég vildi láta bátinn minn liggja við ból. Þá spurði ég; er flóð eða fjara? Það er mjög auðvelt að vita þetta, en enginn var með rétt svar.

Það er mjög auðvelt að vita þetta, þú þarft bara taka eftir því þegar það er bullandi fjara næst. Þú horfir þú á klukkuna og lítur til sólar og svo færist þetta um 45 mínútur á hverjum sólarhring. Með þessum hætti getur þú alltaf vitað hvenær er flóð eða fjara.

Ég var orðinn svolítið pirraður á því að fá aldrei rétt svör. Þess vegna ákvað ég að setja upp sektir fyrir þá sem gátu ekki svarað rétt. Ef þú veist ekki hvort að það er flóð eða fjara þá færðu, 300 danskar krónur í sekt. Svo var það einn daginn að ég spurði mömmu mína: jæja, er flóð eða fjara? Ég man ekki hvað hún sagði, en hún fékk allavega sekt. Henni fannst gaman af þessu og hló mikið og gerði svo upp við mig að lokum. Ef það voru starfsmenn sem vissu þetta ekki, þá var sektin dregin af laununum þeirra. Þú áttir bara að vita þetta!“

Stofnaðir þú sjóð í kringum sektirnar?

„Ég held að þetta hafi bara farið í matarpening og kom því öllum að gagni að lokum. Þetta var gert til þess að fá fólk til að læra og muna. Það verður að vera einhver tenging svo þetta festist í fólki.“

Sér um dýrahjörð með 800 hreindýrum

Hvað stendur til hjá þér á næstunni?

„Ég var að kaupa mér miða til Grænlands og fer 14. júní og svo er ég með miða til baka að hausti 20. september. “

Hvað ertu með mörg dýr í ræktun hjá þér?

„Í dag er ég með í kringum 800 dýr í hjörðinni. Veturnir hafa verið mjög erfiðir undanfarið út af loftslagsbreytingum. Við þurfum að fara að leggja drög að því ef þetta heldur svona áfram hvernig við getum hjálpað til við að fóðra dýrin.“

Veturinn kaldur þó svo að vera 3 breiddargráðum sunnar en Reykjavík

Hann fer yfir áhrif golfstraumsins og útskýrir betur hvernig hann virkar t.d. á Grænlandi miðað við á Ísland.

„Við erum ekki í sama loftlagskerfi og á Íslandi. Ísland fær golfstrauminn beint á sig. Miðað við að Suður – Grænland fær Labradorstraumkerfið, Austur- Grænlandsstraumkerfið og smá af Irmingerstraumnum sem er grein af golfstraumnum sem velgir örlítið vatnið. Veturnir eru kaldir, þó svo að við séum þremur breiddargráðum sunnar en Reykjavík í Suður- Grænlandi, en við erum á 61. gráðu.

Þá erum við með loftslag eins og fyrir Norðan Strandir svipað því sem er í kringum Grímsey. Meðalúrkoman hjá okkur er um 1200 mm á ári sem kemur í formi snævar og svo getur komið, eins og kom upp úr 2000. Þá fór að rigna í janúar og svo frost ofan í það. Í þess konar veðráttu byrjar ungviðið að deyja, því þau geta ekki krafsað sig niður. Svo er annað þegar þú ert með þennan kulda þá komast dýrin ekki í þang. Snjóskaflar myndast eins og veggur fyrir fjörunni.“

Ólýðræðisleg nefnd sett saman – engin hreindýraræktun á Íslandi

Ertu búinn að gefa upp á bátinn að fá að vera með hreindýraræktun á Íslandi?

„Það eru alltaf einhverjir sem finna því til foráttu. Við erum búin að sækja um það í fimm skipti að fá að rækta hreindýr, en það hefur aldrei fengist. Á Íslandi máttu gera tilraunir með allt, rækta þörunga í glösum, flytja inn páfagauka, rækta naggrísa í búrum, flytja inn kanínur og hunda og margt annað. Að rækta hreindýr, er annað mál. Þó svo að það hafi verið upprunalega hugmyndin að rækta hreindýr á 17. öld þegar hreindýrin voru flutt til Ísland í fyrstu. Það virðist búið að loka á þennan kafla í hugarfari umhverfis- og náttúrufræðistofnunarinnar. Það er búið að búa til reglukerfi sem gerir þetta ómögulegt.

Ég tel það fullreynt að fá þessi leyfi

Það er verið að tala um hagsmuni þeirra sem lifa af þeim á Austurlandi, dýrasjúkdóma og möguleikana á riðu. Ef þú vaktar dýrin og þau skimuð fyrir sjúkdómum, þá ætti þetta að vera í lagi. Þú getur farið með hestana í kringum landið. En um leið og þetta snýr að jórturdýrum, þá lítur þetta öðrum lögmálum. Þú mátt hafa sauðkindur og hestur út um allt land, nema ekki hreindýr. Þau eiga bara að vera á Austfjörðum.

Í þróun dýralífsins eru alltaf breytingar. Ísland er orðið allt annað en það var á 17. öld, en hins vegar tel ég það fullreynt að fá þessi leyfi. “

Hann segist hafa rætt við Sigurðu Ingi sem sá um þessi mál. Ráðherrann hafi sett saman nefnd, með leiðsögumönnum, skotveiðifélaginu, náttúrufræðistofnun og fleiri. En hann segir að þarna sátu allir að passa upp á sína hagsmuni og lýsir því að þetta hafi verið mjög ólýðræðislegt.

Þú heldur áfram hreindýraræktinni á Grænlandi?

„Já, þangað til að ég dey og ég ætla ekki aftur í selveiðar. Þegar þú ert búinn að lifa á því að þurfa deyða dýr til viðurværis, þá með tímanum ferðu að líta á þetta öðruvísi augum. Ég hugsa það, að ef ég hefði lifað í mildara loftslagi, þá væri ég örugglega grænmetisæta.“

Hægt er að horfa á viðtalið hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -