Miðvikudagur 18. september, 2024
11.1 C
Reykjavik

Stjórnarskrá á ís

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á sunnudaginn verða sjö ár liðin frá því að íslenskir kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Síðan hefur lítið þokast.

„Þetta er stærsta og mikilvægasta spurningin, sem mætti líka endurorða með eftirfarandi hætti: Er í alvörunni lýðræði á Íslandi?“ segir Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins, spurð að því af hverju Íslendingar séu ekki búnir að eignast nýja stjórnarskrá. Á sunnudaginn verða sjö ár liðin frá því að kjósendur samþykktu með 65% greiddra atkvæða að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Katrín sem átti sæti í stjórnlagaráði segir ótrúlegt að þjóðin sitji enn uppi með „gamalt konungsplagg“ og kallar viðleitni stjórnvalda til endurskoðunar í áföngum „vonlausan bútasaum“.

„Það er mjög sorglegt að við séum í þessari stöðu,“ segir Katrín. „Það var eindreginn vilji hjá þeim kjósendum sem mættu að leggja nýja stjórnarskrá til grundvallar. En það eina sem þingið gerir, og það skiptir greinilega ekki öllu máli hver er við völd, er að skipa einhverja nefnd innan þingsins til að vinna í einhverjum afmörkuðum ákvæðum, eins og þau eigi bara þennan rétt sjálf. Það er grundvallarmisskilningur, því í stjórnskipunarrétti þá er það þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Þetta er eitthvað sem Alþingi hefur ekki meðtekið en ég held að smám saman sé þetta að breytast og að takmarkinu verði náð.“

Katrín segir seinagang stjórnmálanna m.a. mega rekja til stórra hagsmunamála.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur kannski beitt sér mest gegn þessu og ég held að ástæðan fyrir því sé að þar á bæ sé fólk ekki spennt fyrir því að fá almennilegt auðlindaákvæði í stjórnarskrána, þar sem tryggt er að þjóðin fái arðinn af auðlindinni í sinn vasa en ekki útvaldir aðilar. Svo held ég líka að það sé tregða hjá stjórnvöldum að jafna vægi atkvæða, sem er mikið mannréttindamál.“ Katrín segir því máli oft slegið upp sem ágreiningsmáli milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar en í raun snúist andstaðan um hagsmuni ákveðinna flokka, sem hún nafngreinir ekki.

„Það gagnast ekkert að spyrja fólk hvað það vill ef fólk hefur enga vissu fyrir því að það sé farið eftir því sem það segir“

Katrín segir þá stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hafi komið sér saman um þá lýðræðislegustu í heimi og gefur lítið fyrir yfirlýsingar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem skrifaði grein í vikunni þar sem hún talaði um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum, í samráði við almenning. „Það gagnast ekkert að spyrja fólk hvað það vill ef fólk hefur enga vissu fyrir því að það sé farið eftir því sem það segir,“ bendir Katrín á. Hún segir aðgerðarleysi stjórnmálanna gagnvart niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki til þess fallið að auka traust almennings.

„Þegar stjórnlagaráð fékk þetta verkefni að skrifa nýja stjórnarskrá þá var það bara alls konar fólk úr öllum áttum sem fékk eitt afmarkað verkefni og átti engra hagsmuna að gæta. Þannig myndaðist allt öðruvísi andrúmsloft í hópnum og að allir þessir 25 einstaklingar, með gríðarlega ólíkar skoðanir og bakgrunn, hafi sammælst um þessa stjórnarskrá í heild sinni er algjört kraftaverk. Og í því er stóra málamiðlunin fólgin,“ segir hún.

- Auglýsing -

Allar hugmyndir sem komið hafi fram á Alþingi í kjölfarið um endurbætur á stjórnarskránni hafi verið útþynntar útgáfur af drögum stjórnlagaráðs. „Það er verið að reyna að ná þverpólitískri samstöðu um ákveðin grundvallaratriði í stjórnarskránni og af því að flokkarnir hafa mismunandi hagsmuni að leiðarljósi er hætt við að þetta verði lægsti samnefnari,“ segir Katrín. Úr verði einhvers konar „miðjumoð“. „Það er ekkert sama hvernig auðlindaákvæði við fáum,“ segir hún sem dæmi. „Við þurfum að fá auðlindaákvæði sem virkar, þannig að hagsmunir þjóðarinnar ráði för en ekki einhverra þröngra hagsmunahópa.“ Þá nefnir hún einnig náttúruvernd, sem sé stærsta hagsmunamálið í dag. „Það hefur verið háð stríð um náttúru Íslands í áratugi og stóriðjan hefur alltaf sigrað,“ segir hún.

 

 

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -