Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Svæsnar nágrannerjur í Mosfellsbæ: „Ég er enginn æsingamaður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Harðvítugar nágrannerjur eru í Ástu-Sólliljugötu í Mosfellsbæ um þessar mundir. Rifrildi vegna bílastæðis hefur undið upp á sig og hefur lögreglan ítrekað þurft að skerast í leikinn. Kærur í undirbúningi en báðir aðilar deilunnar saka hvor annan um illan ásetning.

 

Bílastæðadeilur vinda upp á sig

Blaðamaður Mannlífs settist niður með Viðari Austmanni Jóhannssyni, syni hans og dóttur í bjartri og fallegri íbúð sonarins og hlýddi á frásögn þeirra. Viðar er eigandi hússins sem íbúðin er í, við Ástu-Sólliljugötu. Í húsinu búa tvö börn hans í sitthvorri íbúðinni sem og aðrir leigjendur.

Fyrir nokkrum mánuðum fluttu hjónin Freyr Jakobsson og Lilja Hrönn Hauksdóttir, kennd við Cosmo, í hús við hliðina á húsi Viðars. Að sögn voru samskiptin milli þeirra til að byrja með kurteisleg og þægileg. Viðar segir það hins vegar hafa breyst eftir að Freyr og aðilar honum tengdir hófu að leggja ítrekað í bílastæði sem tilheyrði húsi Viðars. Síðastliðinn laugardag héldu hjónin stóra veislu fyrir börn sín, en dóttir þeirra var að útskrifast og sonurinn að flytja til Danmerkur. Gestir lögðu ítrekað í einkastæði hússins við hliðina og þurfti sonur Viðars að biðja Frey að fjarlægja bíla úr stæðinu. Að sögn mætti hann dónaskap frá Frey en bílar voru þó færðir. Hið sama hélt áfram að gerast; að gestir hjónanna leggðu í stæðið. „Þau voru svo ágeng og leyfðu mér ekki að komast að, en ég var að reyna að segja þeim að nágranni minn að ofan hefði ekki getað lagt í stæðið daginn áður því þau höfðu lagt í það,“ útskýrir sonur Viðars í samtali við Mannlíf og heldur áfram: „En Freyr er alltaf að grípa fram í fyrir mér og í raun bara að segja hvað ég sé mikill fáviti.“ Að endingu hafi hann neyðst til að hringja í Vöku til að láta draga einn bílinn í burtu.

Dóttir Viðars bætir því við að meðleigjandi hennar hafi heyrt Lilju segja: „Veistu hvaða fólk við þekkjum?“ Bróðir hennar segir að Freyr hafi endurtekið þetta og sagt: „Ef þér fannst fyrrum eigandi hússins erfiður, þá er ég miklu verri.“ Tók hann skýrt fram við blaðamann að fyrri eigandi hússins hefði verið mjög fínn og „ekki gert flugu mein.“

- Auglýsing -

„Ég svara og segi „Já ókei, þú ert svona svakalegur,“ en svo segir Freyr: „Þó að pabbi þinn sé rosa stór og sterkur þá ert þú algjör aumingi.““

Segir sonur Viðars að fólk úr veislunni hafi öskrað svívirðingar yfir hann þar sem hann var á svölunum og hótað honum barsmíðum. Lögreglan mætti svo á svæðið og ræddi við son Viðars og svo Frey og Lilju. Hún hafi svo farið.

Um nóttina er svo að sögn sonar Viðars barið á dyr hans, og eru þá fimm eða sex menn að berja og sparka í hurðina. Hann kveðst hafa opnað og spurt hvað gengi á. „Ég opna og einn spyr hvort ég ætli að hringja í Vöku aftur og er bara pissfullur á því. Og þeir kalla mig fávita og alls konar og ég segi þeim bara að fara heim, ég nenni ekki þessu dyraati núna,“ segir sonur Viðars. Þegar hann hafi svo ætlað að loka hurðinni hafi einn mannanna sett fótinn fyrir hana. Hafi hann þá dregið þann mann inn og læst hurðinni. Sá maður hafi verið rólegur og sagst skilja hans rétt á bílastæðinu. „Náunginn sem ég dró inn sagði mér að Freyr og Lilja hefðu verið að reyna að fá hann til að hringja í undirheimalið til að koma að hóta mér.“ Maðurinn hafi svo farið út en þá hefði einn mannanna sem höfðu reynt að komast inn, náð að sparka í kviðinn á syni Viðars. Hann hafi þó náð að ýta honum frá og lokað hurðinni.

- Auglýsing -
Hér sést maður fyrir utan hurð sonar Viðars að reyna að komast inn.

Aftur var hringt á lögregluna sem kom á svæðið og tók skýrslu af syni Viðars og ræddi svo aftur við Frey og Lilju.

Daginn eftir, á sunnudaginn síðastliðinn, ákvað Viðar að koma úr ferð sem hann var í úti á landi, til þess að ræða við son sinn um atvik dagsins á undan. „Þegar ég kem inn til sonar míns sé ég bara að hann er í áfalli. Hann var bara steinrunninn og stjarfur.“ Segist hann hafa sest niður með systkinunum og farið í gegnum málið og hvernig ætti að bregðast við svona átökum. Hann hafi svo farið út á svalir og séð þar Frey og Lilju og nokkra aðra á planinu heima hjá sér, meðal annars boxara sem hafi verið í veislunni og einn þeirra sem voru fyrir utan útidyr sonar Viðars, nóttina áður. Segist hann hafa ákveðið að taka ljósmynd af fólkinu „til að sjá hver er hvar“ en segir þau öll hafa tekið eftir því. „Ég opna þá svalahurðina svolítið og sýni mig bara algjörlega standandi hér, „hér skuluð þig bara sjá mig, ég er hérna vegna þess að ég er bara hérna og þau sjá það. Ég óttast ykkur ekkert.“,“ segir Viðar við blaðamann Mannlífs. Þegar hann svo bakkar bíl sínum úr stæðinu og upp götuna segir hann að boxarinn hafi tekið á rás í átt að bílnum. Hann hafi ætlað sér að læsa bílnum en ýtt á rangan takka. Boxarinn hafi þá opnað hurðina bílstjóramegin og öskrað á Viðar: „Ertu að taka myndir af mér? Hver gefur þér leyfi til þess, á ég að berja þig?“. Viðar segir að á þessu augnabliki hafi hann hugsað að hann þyrfti að verja sig með einhverjum hætti og ákveðið að setja í D-drifið og keyra áfram, en þá hafi boxarinn farið frá. Viðar hafi síðan lagt bílnum í stæðið, læst honum og hringt á lögregluna. Hafi boxarinn þá áttað sig á að Viðar væri að hringja á lögregluna. „Þegar ég var búinn að fá staðfestingu á að lögreglan væri að koma, fór ég út úr bílnum. Ég óttaðist hann ekkert. Ég fór beint í hann og rak hann út af lóðinni.

Ég braut svo ákveðið prinsipp hjá mér með því að fara til Freys og Lilju en þar sagðist ég bara vera að biðja um frið og að hann ætti að láta okkur í friði.“ „Þú ert búinn að vera að trufla okkur síðan þú komst, farðu bara!“, segist Viðar hafa sagt við Frey.

Lögreglan kom að lokum á staðinn en þá var boxarinn farinn. Hún tók skýrslu af málsaðilum en Viðar segist hafa sagt lögreglunni að hann vildi bara frið frá ónæði og árásum. „Ég er enginn æsingamaður. Ég vil bara hafa frið eins og var hérna með fyrrverandi nágrannann,“ segir Viðar. Hann segist hafa hringt á lögregluna eftir helgi til að kæra árásina á hann í bílnum, tilraun mannanna til að komast inn í íbúð sonar hans og hótanirnar gagnvart syninum. Viðari var sagt að hringja í næstu viku en hann kveðst vita að ekkert muni koma út úr þessu. „Það sem við munum fara fram á hjá réttargæslumanni er að við fáum bætur fyrir hurðina, miskabætur vegna áfallsins sem sonur minn varð fyrir og ég veit ekki hvaða kröfu ég geri varðandi árásina á bílinn, en maðurinn verður bara kærður og það er örugglega ekkert gott fyrir bardagamann sem er að keppa að hafa kæru á bakinu. Við erum ekki að gera þetta til að hefna okkar, við viljum gera eitthvað úr árásinni og að fólk fái að vita staðreyndirnar. Við tökum ekki þátt í gerendameðvirkni,“ segir Viðar að lokum.

 

Hin hliðin

Freyr Jakobsson þvertekur fyrir frásögn Viðars. „Þetta er bara rangt. Í morgun var hringt í mig, Mosfellsbær, og verið að hóta mér. Það er svona geymslukofi hérna í garðinum, sem er samkvæmt samningi sem aðilinn hér við hliðina á mér gerði við fyrri eigendur af húsinu mínu. Hann bjó til þetta afsal og allt saman. Nú er hann að segja að það eigi að rífa húsið og fara þannig á bak við samninga sína. Þetta er svo fjarstæðukennt.“ Hann segir að Viðar sé staðráðinn í að gera líf hans leiðinlegt.

Varðandi veisluna segir Freyr að hún hafi verið fjölmenn og að það hafi komið fyrir að gestir leggðu í einkabílastæði hjá syni Viðars. Hann hafi ekki getað stjórnað því vegna anna við að sinna gestunum. Hann segir að þegar sonur Viðars hafi komið yfir til að kvarta undan bílastæðinu hafi hann barið ansi hressilega á dyr. „Það var fólk í veislunni sem er hálf nírætt. Það var bara skelkað, það var eins og það hafi verið keyrt á húsið. Svo jós hann svívirðingum yfir fólk hérna.“ Sagðist Freyr hafa fundið eiganda bílsins og bíllinn var því næst færður. Svo mætti Vaka seinna um kvöldið vegna annars bíls sem lagt var í stæðið.
„Ég fer út og kannast við bílinn, það var 18 ára stelpa sem var á bíl móður sinnar. Ég fer og tala við Vökumanninn því stelpugreyið var bara í losti.“ Freyr segist á þessu augnabliki hafa gefist upp og borgað reikning Vöku og bíllinn var færður úr stæðinu. „Ég átti rosa erfitt með að fylgjast með því hvort einhver væri að leggja í stæðið eða ekki, ég hafði nóg að hugsa um í þessari 100 manna veislu.“

Varðandi tilraun veislugesta til að komast inn í íbúð sonar Viðars, segist Freyr ekki hafa vitað af neinu slíku fyrr en honum var sagt að lögreglan væri mætt á svæðið og vildi tala við hann. „Og ég vissi ekkert hvað var í gangi. Það sem ég veit er að það urðu orðaskipti þar sem drengurinn var úti á svölum að ausa svívirðingum yfir fólk og það verður hiti í þessum málum.“ Segir hann þau hjónin hafa verið bláedrú og að þau hafi rætt við lögregluna þegar hún óskaði eftir því. „Þannig að við vorum alveg í toppstandi með það allt saman.“

Hvað snéri að atlögu boxarans daginn eftir veisluna segir Freyr þá frásögn Viðars ekki standast skoðun. „Viðar byrjar að taka myndir frá svölunum og maður sem var að spjalla við mig og nokkra aðra á planinu spyr hann í hvaða tilgangi hann sé að taka myndir. Viðar svarar því engu en segir við mig að ég sé í skítamálum og svo bara hlær hann.“

Þegar blaðamaður spyr Frey út í það að boxarinn hafi hlaupið í átt að Viðari, þegar hann var að bakka út úr stæðinu segir Freyr það ekki rétt. „Hann ákveður bara að labba til hans og athuga um hvað málið snýst. Og þá botnar hann bílinn aftur á bak og það munaði bara sentímetra á að hann tæki hliðina af mínum bíl. Og þá opnar hann hurðina hjá Viðari og það sem ég heyri hann segja er „heyrðu“ og „hvað er í gangi hérna?“ en ég veit ekki hvernig þau orðaskipti voru almennilega. En Viðar verður alveg dýrvitlaus.“

Freyr segir að boxarinn gæti ekki hafa hlaupið að bílnum. „Hann getur ekki hlaupið, hann er með ónýta löpp! Þú getur bara farið í læknaskýrslur og séð það. Hann er að fara til Svíþjóðar í þriðju eða fjórðu aðgerðina, þannig að hann gat ekkert hlaupið að honum. Hann getur ekki einu sinni beygt löppina almennilega. Sko, þetta er bara ekki rétt! Viðar er bara í missioni í að gera líf mitt hérna leiðinlegt.“

Freyr segir að á sunnudaginn hafi ungur maður með skegg komið að heimili hans, sennilega í kringum 25 ára aldurinn, og sagt við fjórar vinkonur dóttur hans að líf þeirra yrði gert óbærilegt hérna. Segir hann manninn tengdan Viðari eða börnum hans. Aðspurður segir hann nokkra hafa orðið vitni að þessu.

Blaðamaður Mannlífs spurði Frey út í hótanir um undirheimamennina en því harðneitar hann. „Nei, ekki til í dæminu! Hvernig leysir það málið? Það leysir ekkert málið. Ég er ekki að flytja hingað til að gera allt brjálað í götunni sko.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -