Fimmtudagur 11. ágúst, 2022
10.8 C
Reykjavik

Þegar ég endurheimti jólagleðina

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Eins og flest börn var ég mjög spenntur fyrir jólunum. Fyrstu jólin sem ég man algjörlega eftir voru jólin 1977. Eftir það, eðlilega, man ég eftir öllum jólum fram til dagsins í dag.

Frá þessum jólum 1977 og fram til 1984 elskaði ég jólin eins mikið og hægt er að elska hátíð.

Ég lærði allt um jólin; kristnina og einnig, þökk sé frænda mínum, að upprunalega voru jólin ekki tengd kristinni trú heldur því sem var lengi kallað heiðni eða trúleysi. Þetta fannst mér sem litlum patta mjög athyglisvert.

Að mig minnir.

Á sama tíma áttaði ég mig einnig á því að jólasveinninn væri ekki til: Sá eitt sinn elsku mömmu koma inn í herbergið mitt og hún hélt ég væri steinsofandi Stínu dúkku hjá. Hún setti fallega gjöf í Hummel-handboltaskóinn minn, og ég lét sem ég væri sofandi.

 Æi, haltu kjafti Svanur! Það hefur engum tekist að sanna að jólasveinninn sé ekki til.

- Auglýsing -

En frá því að ég sá mömmu setja gjöf í skóinn, af því ég var svo þægur krakki, þá sá ég jólin ávallt frá tveimur hliðum – sem mér fannst skemmtilegt, enda er ég í tvíburamerkinu og hef alltaf frá því ég man eftir mér verið heillaður af stjörnuspeki; í mínum huga er mikið að marka stjörnuspeki.

Gísli bróðir, ég og mamma

Jæja, jólin.

- Auglýsing -

Tilhlökkunin fyrir ungan snáða úr Hafnarfirði var alveg jafnmikil og hjá lyfjaprinsinum Róbert Wessman þegar hann kynnir til sögunnar nýtt kampavín í Frakklandi umvafinn náungakærleik og fallegum og afar kærleiksríkum samskiptum við samstarfsfólk sitt.

Þannig hélst þetta hjá mér fram yfir jólin 1984; ósvikin tilhlökkun, hamingja og gleði.

Hins vegar voru fyrstu unglingsárin mér erfið; ég var seinþroska og fór að finna fyrir miklum kvíða og þunglyndi. Ég varð andfélagslegur og vildi einungis fara mínar eigin leiðir en feta ekki í fótspor þeirra sem voru með lífið á hreinu og spurðu engra spurninga; fullyrtu og bullyrtu til dæmis að það væri alveg nauðsynlegt hverjum einasta unglingi að læra algebru – líklega mesta lygi mannkynssögunnar.

Ég gat alveg lært algebru, og gerði, en sá aldrei neinn tilgang í því og af því að kennararnir sungu alltaf sama sönginn varð ég enn andfélagslegri.

Og þannig urðu jólin líka hjá mér; ég sá engan tilgang í því að halda jól og mér var í raun skítsama um allt og nánast alla.

Þetta fylgdi mér allt fram til ársins 1999, en þá eignaðist ég mitt fyrsta barn, og í einni svipan kom gamla jólagleðin aftur.

Ég og Elísa Rún

Ekki hvað mig sjálfan varðaði, heldur litlu dóttur mína. Auðvitað vissi hún ekki þá, fjögurra mánaða, hvað jólin voru – en ég varð einfaldlega svo hamingjusamur að eignast barn að fjöldi bældra tilfinninga kom upp á yfirborðið sem og lausn frá slatta af andfélagslegri hegðun – ég breyttist.

Litla dóttir mín færði mér svo margt gott og gerir enn, og eitt af því var að ég fór að hlakka til jólanna.

Tveimur börnum síðar hlakka ég enn meira til jólanna.

Sansa, Elísa Rún, Valur Áki og Bowie, og Áróra Rún.

Gleðileg jól.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -