Sunnudagur 4. desember, 2022
-2.2 C
Reykjavik

Þegar Nóbelskáldið olli þrettán bíla árekstri: „Ég ætla að fá Jagúar“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Halldór Kiljan Laxness er enn sem komið er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur bókmenntaverðlaun Nóbels; var það árið 1955.

Vonandi kemur að því að einhver annar rithöfundur íslenskur hljóti þessi eftirsóttu og frægu verðlaun, en um það verður tíminn einn að skera úr um.

Aftur að Halldóri.

Eftir að hafa hlotið verðlaunin vænkaðist hagur Halldórs enda voru bækur hans í kjölfarið þýddar á mörg tungumál um víða veröld; og fjárhagleg staða skáldsins batnaði ekki bara – hún varð mjög góð; þá var verðlaunaféð mjög hátt og Halldór þurfti ekki að hafa neina fjárhagsáhyggjur eftir veitingu verðlaunanna árið 1955.

Halldór og fjölskylda hans komu sér vel fyrir að Gljúfrasteini; geysilega fallegt bæjarstæði og húsið líka, sem enn þann dag í dag hefur mikið aðdráttarafl, enda verið breytt í safn, og Íslendingar og útlendingar flykkjast þangað í stórum stíl.

- Auglýsing -

Margt er þar að skoða og örugglega mjög persónubundið hvar áhugasvið hvers og eins liggur.

Það er af nógu að taka.

Þeir sem hafa áhuga á gömlum og fallegum bílum staldra gjarnan lengi við bílinn sem Halldór hélt mikið upp á – Jagúar 340 Saloon, árgerð 1968, keyptur splunkunýr úr kassanum.

- Auglýsing -

Í hreint út sagt frábærri bók sem ber heitið Jagúar skáldsins eftir Óskar Magnússon er því lýst skemmtilega hvernig Halldór bar sig að við kaupin á bílnum fræga:

Halldór sjálfur tjáði Jóhanni Gíslasyni, sem síðar verður vikið að, að hann hefði farið í agentúríið, sem þá hefði verið Orka hf. efst á Laugavegi. P Stefánsson hf., sem var til húsa á Hverfisgötu uppi undir Snorrabraut, mun síðar hafa tekið við umboðinu því ýmsir minnast þess að þangað hafi oft verið farið til varahlutakaupa og viðgerða. Hvað sem þessu líður er ekki ástæða til að draga í efa þau samskipti sem nú skal lýst:

„Góðan dag. Ég ætla að fá Jagúar.“ (bls. 13)

Sölumaðurinn sýndi Halldóri myndir og bæklinga og sagði honum frá eiginleikum Jagúar bílanna. Hlustaði Halldór á söluræðuna en lét sér svo sem fátt um finnast; hann hafði gert upp hug sinn, og endurtók sömu setninguna og þegar hann gekk inn í „agentúríið“ –

„Ég ætla að fá Jagúar.“ (bls. 14)

Halldór fékk sinn fallega og rjómahvíta Jagúar sem varð nánast einn af fjölskyldunni að Gljúfrasteini.

Nóbelskáldið fór margar ferðir á dýrgripnum; nokkra hringi í kringum landið ásamt daglegum, eða því sem næst, ökuferðum um hvippinn og hvappinn af hinum ýmsu ástæðum.

Hugsað hefur verið vel um Jagúar skáldsins. Hér í yfirhalningu á sínum tíma.

En árið 1974 olli Halldór ansi miklum og stórum árekstri á Jagúarnum, og ákvað í kjölfarið að hætta að keyra.

Dag nokkurn, líklega árið 1974, ók skáldið sem leið lá eftir Miklubraut til austurs. Öflugur mótorinn malaði og hummaði vinalega, skáldið púaði vindil, umferðin var þétt en jöfn. Við gatnamót Háaleitisbrautar kom hnökri á umferðina sem hægði á sér í heilu lagi og stöðvaðist loks að fullu. Ekki tókst betur til en svo að Halldór ók Jagúarnum aftan á næsta bíl á nokkurri ferð. Stór og rjómahvítur Saloon 340 lét nú um sig muna. (bls. 33)

Halldór varð miður sín eftir áreksturinn – en sem betur fer urðu engin slys á fólki.

Í frásögnum skáldsins og nákominna er ekki dregið úr. Þarna varð þrettán bíla árekstur. Hvað sem lögregluskýrslur segja um atvik þetta telja sannfróðir að ekki hafi, hvorki fyrr né síðar, jafn margir bílar komið saman í einum árekstri. Allt fór vel, ekki urðu slys á fólki, en framhluti Jagúarsins skemmdist umtalsvert. Skáldið varð miður sín yfir atvikinu, því tjóni, amstri og óþægindum sem það olli hinum bíleigendunum. Lét nú Halldór af akstri. En ekki af ástfóstri sínu við Jagúarinn. (bls. 33-34)

Óhætt er að mæla með bók Óskars, Jagúar skáldsins, sem er rituð af leiftrandi frásagnargleði þar sem ekki orði er ofaukið. Margar aðrar skemmtilegar sögur af Halldóri er að finna í bókinni – enda var skáldið óvenjulegur maður sem svaraði skemmtilega fyrir sig þegar svo var á honum gállinn.

Jagúarinn fræga má svo alltaf skoða sem og aðra skemmtilega muni sem voru í eigu skáldsins og fjölskyldu hans.

Heimild: Jagúar Skáldsins. Óskar Magnússon. JPV útgáfa, Reykjavík, 2022.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -