Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Þetta ætlar ríkisstjórnin að gera til að bregðast við COVID-19 veirunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allt gert verður til að verja afkomu fyrirtækja og fólksins í landinu. Stjórnvöld munu greiða allt að 75% launa þeirra sem lækka tímabundið í starfshlutfalli. Greiðslu opinberra gjalda frestað. Fyrirtæki fá greiðslufrest eftir því sem þörf krefur. Þá verður lækkun bankaskatts flýtt. Þetta er á meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu rétt í þessu, þar sem hún kynnti frekari björgunaraðgerðir til að örva efnahags- og atvinnulífið, undir yfirskriftinni Viðspyrna fyrir Ísland, vegna þess skaða sem COVID-19 kórónaveiran er að valda á Íslandi.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Ísland, hóf fundinn og sagði aðgerðirnar sem voru kynntar taka mið af því að horft sé næstu vikna og mánaða en þær verði endurskoðaðar á næstunni. Hún sagði markmið þeirra vera að verja afkomu fólksins í landinu, verja afkomu fyrirtækja í landinu, vernda grunnstoðir samfélagins og loks sé það viðspyrna íslensk samfélags sem skipti ekki síst máli. Mikilvægt sé að íslenskt samfélag geti náð viðspyrnu hratt.

Nefndi forsætisráðherra að aðgerðir Seðlabanka Íslands sé mikilvægar fyrir hagstjórnina. Þær veiti fyrirtækjum nauðsynlegt súrefni í baráttunni framundan og séu í takt við aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þá hafi verið ákveðið að flýta opinberum framkvæmdum ríkissjóðs. Fjárfestingarnar séu fjölbreyttar og litið sé til framtíðar í þeim efnum.

Aðgerðir upp á 230 milljarða

Mannlíf greindi frá því á mánudag að ríkisstjórnin væri langt komin með vinnu að aðgerðarpakka til að takast á við á þá stöð­u sem er komin upp í samfélaginu vegna COVID-19 veirunnar og að hann yrði tilkynntar núna í vikunni. Heimildir Mannlífs hermdu að umræddar aðgerðir miðuðu að því að styðja enn frekar við íslenskt atvinnulíf og þá sérstaklega fyrirtæki í ferðaþjónustu og minni og millistór fyrirtæki. Samkvæmt heimildunum var talið að umræddar aðgerðir snérust um milljarða, jafnvel tugi milljarða.

Nú hefur komið í ljós að aðgerðirnar verða í tíu þáttum, eins og greint var frá á fundinum. Í máli Katrínar kom fram að þær snúast um 230 milljarða króna, eða tæplega 8% af landsframleiðslu. Katrín sagði þær sýna að ríkisstjórnin sé tilbúin til að standa með fólkinu í landinu, ekki síst þegar vá steðji að.

- Auglýsing -

Risavaxinn pakki fyrir íslenskt atvinnulíf

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem ávarpaði fundinn eftir að Katrínu lauk máli sínu, sagði aðgerðirnar vera stærstu efnahagsaðgerðir sögunnar á Íslandi. Hann sagði mikilvægt að tryggja afkomu fólks sem fer í skert starfshlutfall og að ríkisstjórnin væri reiðubúin að verja háum fjárhæðum til þess. Greiðslu opinberra gjalda hafi verið frestað, upp á rúmlega 70 milljarða. Hann greindi frá því að fyrirtæki fái greiðslufresti eftir því sem þörf krefur, allt fram á næsta sumar.

Fjárfestingaátak verður fjármagnað beint af ríkissjóði með fjáraukalagaheimild en einnig í gegnum opinber fyrirtæki sem geta flýtt framkvæmdum. Að sögn Bjarna mun átakið, sem er undir áskriftinni Fjárfestingarátak til framtíðar, nema um 20 milljörðum.

- Auglýsing -

Þá sagði Bjarni stjórnvöld ætla að flýta lækkun bankaskatta. Óeðlilegt væri að vera með sértækan bankaskatt um leið og fallið væri frá kröfu um arðgreiðslur og bankar hvattir til þess að standa með sínum viðskiptavinum.

Hjálpa fyrirtækjum að standa í skilum

Í samhengi við þetta má nefna að á vef Stjórnarráðsins kemur fram að í ljósi minnkandi umsvifa munu stjórnvöld í krafti hlutastarfaleiðarinnar greiða allt að 75% launa starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli, að hámarki 700 þúsund kr., og gera þannig launafólki og atvinnurekendum kleift að halda ráðningarsambandi“. Úrræðið gildi næstu tvo og hálfan mánuð en reynslan af úrræðinu verður endurmetin í maí. Með því að hjálpa fyrirtækjum að standa í skilum og viðhalda ráðningarsambandi launafólks og vinnuveitenda sé hægt að stytta þann tíma sem fyrirtæki þurfa til að ná viðspyrnu á ný.

Gott samstarf við sveitarfélögin

Sigurður Ingi Sigurðsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók einnig til máls á fundinum og sagði sveitarfélögin sömuleiðis ætla að fresta gjalddögum á fasteignagjöldum fyrirtækja og þau séu eins reiðubúin til samstarfs um fjárfestingaráform. Sigurður Ingi sagðist telja að íslenska þjóðin komist hraðar í gegnum þetta ástand sem er komið upp vegna COVID-19 veirunnar en margar aðrar þjóðir.

Heimild til að taka út séreignasparnað og sérstakur barnabótauki

Á vef Stjórnarráðsins segir að afkoma heimilanna sé í brennidepli aðgerðanna. Þegar hafi verið tryggðar greiðslur til einstaklinga í sóttkví, sem sé grundvallaratriði til að hjálpa fólki að taka ábyrgar ákvarðanir til að draga úr útbreiðslu veirunnar. Hlutastarfaleiðinni sé ætlað að verja störf og afkomu fólks við þrengingar á vinnumarkaði. Heimild verði veitt til að taka út séreignarsparnað að hámarki 800 þ.kr. á mánuði í 15 mánuði og endurgreiðslur vegna viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði hækkaðar úr 60 prósent í 100 present. Endurgreiðsluúrræðið verði auk þess útvíkkað til heimilisþjónustu og tekin upp ný heimild fyrir þriðja geirann svokallaða, „sem nær m.a. til almannaheilla- og íþróttafélaga, til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu fólks við byggingaframkvæmdir á þeirra vegum“.

Loks verði greiddur út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri. Foreldrar með lægri meðaltekjur en 927 þús. kr. á mánuði árið 2019 fá 40 þús. kr. á hvert barn og aðrir 20 þús kr.

Aðgerðapakkinn inn á borð hjá Alþingi seinna í dag

Þess má geta að Mannlíf hafði fyrst fjölmiðla, greint frá fyrsta aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar, á sunnudegi fyrir tæpum tveimur vikum. Stjórnvöld kynntu þær áætlanir síðan á þriðjudag í síðustu viku. Ríkisstjórnin kynnti núverandi aðgerðapakka fyrir forystufólki stjórnarandstöðluflokkanna í Stjórnarráðinu klukkan ellefu í morgun. Klukkan fjögur kemur síðan aðgerðapakkinn inn á fund efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis.

Á vef Stjórnarráðsins eru aðgerðirnar útlistaðar með eftirfarandi hætti:

  • Ríkið greiðir allt að 75% launa fólks næstu mánuði
  • Ríkisábyrgð á brúarlánum til fyrirtækja
  • Frestun og afnám opinberra gjalda
  • Ferðaþjónusta styrkt
  • Sérstakur barnabótaauki með öllum börnum
  • Heimild til úttektar séreignarsparnaðar
  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda
  • Framkvæmdum flýtt og fjárfest í tækniinnviðum
  • Umfang aðgerða um 230 milljarðar króna

Fréttin verður uppfærð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -