Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Þórólfur hefur áhyggjur af fjölgun sárasóttartilfella hér á landi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur áhyggjur af fjölgun sárasóttartilfella hér á landi. Í fréttabréfi hans segir hann vísbendingar um að sárasótt sé að dreifast meðal gagnkynhneigðra á Íslandi. Það sé mikið áhyggjuefni þar sem sárasóttarsýking móður á meðgöngu getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir barnið.

Árið 2020 greindist alls 31 einstaklingur í fyrsta sinn með sárasótt. 30 þeirra voru karlar og þar af 77% karlar sem stunda kynlíf með körlum. Hutfall karla hefur verið 73 til 97 prósent smita síðustu ár, segir í fréttabréfinu.

Það sem af er þessu ári hefur 41 tilfelli sárasóttar greinst í einstaklingum í fyrsta sinn, þar af 38 karlar. Það vekur athygli sóttvarnalæknis að níu gagnkynhneigðir einstaklingar hafa greinst utan skimana það sem af er ári, sem er aukning frá síðasta ári. Nokkur fjöldi hefur greinst með virka frumsýkingu og sár á kynfærum. Þórólfur segir það áhyggjuefni.

Skimað er fyrir sárasótt hjá konum í meðgöngu og hjá blóðgjöfum hér á landi. Einnig er skimað fyrir sárasótt hjá erlendum ríkisborgurum sem flytjast til Íslands.

Sárasótt var sjaldgæf á Íslandi fram að seinni heimsstyrjöld. Með tilkomu pensilíns árið 1945 dró verulega úr útbreiðslu hennar, en á árunum 1970 til 2009 greindust innan við tíu einstaklingar árlega að jafnaði með sárasótt. Frá 2009 hafa að meðaltali 24 einstaklingar greinst árlega, og hefur sama þróun átt sér stað annars staðar á Vesturlöndum. Aukningin er fyrst og fremst meðal karla sem stunda kynlíf með körlum segir í fréttabréfi sóttvarnalæknis.

Sárasótt berst á milli manna með kynmökum, við blóðsmit og frá móður til fósturs. Fyrstu einkenni koma í ljós um þremur vikum eftir smit í formi eymslalausra sára, oftast á kynfærum. Nokkru síðar geta myndast húðútbrot, og sé ekkert gert í sýkingunni tímanlega getur hún þróast í þriðja stigs sárasótt. Þriðja stigið kemur fram um tíu til þrjátíu árum eftir smit hjá um tíu af hundraði þeirra sem ekki leita sér aðstoðar við sýkingunni. Það leggst aðallega á taugakerfi og/eða hjarta- og æðakerfi.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -