Sunnudagur 23. janúar, 2022
-0.2 C
Reykjavik

Þráinn Bertelsson„Það er margt sem ég iðrast og margt sem ég hefði getað gert“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þráinn Bertelsson, þingmaður, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður varð 77 ára í gær 30. nóvember. Þráinn hefur á sínum ferli gert 7 kvikmyndir í fullri lengd, þar á meðal líf-þríleikinn (Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf), verðlaunamyndina Magnús, leikstýrt einu áramótaskaupi (gert handrit við annað skaup) og skrifað bækur.

Þráinn sendi frá sér fallega kveðju til systur sinnar á facebook vegna tímamótanna og segir: „enn ein langlokan frá öldruðum manni sem ætlar aldrei að láta sér skiljast að nútíminn er að flýta sér og á að rúmast í færslu sem ekki á að vera lengri en þrjár línur…“

Einlæg kveðja Þráins:

„Elsku systir.

Takk fyrir afmæliskveðjuna.

Það er leitt að heyra þetta með sjónina þína en ellin er hrörnunarsjúkdómur og kallar yfir mann ýmis konar óþægindi. Þetta með heyrnartæki sem erfitt er að venjast kannast ég vel við. Ég hef tvisvar gert tilraunir til að fá mér heyrnartæki og fengið að prófa svoleiðis græjur. Því miður þótti mér svo óþægilegt að vera með þetta í eyrunum að ég gafst upp á þessum tækjum. Mér fannst þau mest magna upp hljóð sem ég hef engan áhuga á að heyra, til dæmis umhverfishljóð eins og fótatak.

- Auglýsing -

Ég finn alveg að heyrnin hefur breyst mikið og ákveðin tíðnisvið á ég mjög erfitt með að greina, svo og hljóð sem koma úr hljómtækjum eins og útvarpi og sjónvarpi og símtækjum. En meðan ég skil ennþá mælt mál (nema hjá þeim sem liggur mjög lágt rómur) sé ég ekki ástæðu til að gera enn eina atrennu að því að fá mér heyrnartæki.

Og talandi um bíla þá er bíllinn minn orðinn gamall skrjóður eins og ég, en munurinn er sá að það er tiltölulega einfalt mál að gera við bílinn en það væri sennilega ansi flókið að gera við mig. Þannig að ég reyni bara að gleðjast yfir því að vera ekki dauður ennþá og geta kannski verið Sólveigu minni til einhvers stuðnings.

Þótt það hafi gengið á ýmsu á ævinni er ég samt glaður og þakklátur innst inni í mér fyrir að hafa fengið að taka þátt í því ótrúlega ævintýri sem lífið er. Það hefði sennilega verið ennþá meira gaman ef ég hefði verið skynsamari og ef ég hefði getað látið eitthvað gott af mér leiða.

- Auglýsing -

Það er margt sem ég iðrast og það er margt sem ég hefði getað gert en lét ógert. En ég hugga mig við að ég skuli þó ekki vera hættulegur öðru fólki og reyni að sætta mig við orðna hluti.

Mig dreymir aldrei neitt lengur og dagarnir eru hver öðrum líkir en þó eru engir tveir dagar eins.

Mér leiðist sjaldan og aldrei mikið né lengi.

Ég vænti einskis og mér finnst ég vera frjálsari en ég hef nokkurn tímann áður verið á ævinni. Á sama tíma finn ég líka fyrir því að ég held ég sé orðinn uppiskroppa með einhvers konar innri glaðværð sem ég átti þegar ég var yngri og hjálpaði mér við að komast gegnum allskonar erfiðleika sem ég hafði kallað yfir mig.

Svona er nú ástandið á mér og nú er víst kominn tími til að vekja vin minn sem sefur í búrinu sínu og fara út að skoða gamalkunnugt umhvað nú er alltíeinu orðið snjóhvítt.

Takk fyrir afmæliskveðjuna, elsku systir.

Farðu vel með þig og allar góðar vættir vaki yfir þér.“

Vinir og vandamenn Þráins óskuðu honum til hamingju með daginn. Honum var þakkað fyrir falleg og heiðarlega skrifuð orð þar sem ávallt örlar fyrir gleði og sátt í skrifum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -