Vorboðinn ljúfi í Ármúlanum, tjaldurinn Tryggvi er mættur á svæðið, nánast á nákvæmlega sama tíma og í fyrra. Spúsa hans, Tryggvína mætti á sama tíma enda nokkuð samheldið par.

Tryggvi hefur átt óðal á þaki Ísólar í Ármúlanum í yfir þrjátíu ár og hafa starfsmenn sem vinna í götunni haft dálæti af að fylgjast með honum og Tryggvínu koma sér upp ungum og koma þeim á legg. Í fyrra eignuðust þau þrjá unga, þá Ripp, Rapp og Rupp en aðeins tveir þeirra lifðu af fyrstu vikurnar en Rupp náði því miður ekki langlífi.
Tryggvi mætir alltaf um þetta leyti en Mannlíf sagði frá því fyrra að fyrirtæki nokkurt í Ármúlanum sé ávalt með veðmál í gangi en þá velja starfsmenn sér dagsetningu fyrir komu tjaldsins. Í fyrra kom hann 29. mars en í ár var það í dag, 31. mars. Mannlíf mun, eins og í fyrra, flytja tíðar fréttir af skötuhjúunum á næstunni, enda í kjöraðstöðu til þess þar sem óðal tjaldanna er í sjónlínu við skrifstofur miðilsins.