Tjaldurinn Tryggvi var mættur á gluggann í Ármúlanum í morgun við skrifstofur Mannlífs. Mannlíf sagði frá því í fyrra að Tryggvi hefur verið vorboði í Ármúlanum í rúm þrjátíu ár og hefur hann átt óðal á þaki Ísólar í götunni. Starfsmenn í Ármúla hafa haft gaman að því að fylgjast með Tryggva síðustu ár og hefur fyrirtæki nokkurt lengi haft veðmál í gangi um það hvenær hann mætir ár hvert. Í fyrra kom vorboðinn góði þann 29.mars en í ár mætti hann örlítið seinna, þann 31.mars. Í fyrra eignaðist parið þrjá unga sem fengu nafnið Ripp, Rapp og Rupp og kom parið tveimur ungum á legg, starfsmönnum til mikillar ánægju.

Tryggvi mætir iðulega á gluggasylluna við skrifstofur Mannlífs og bankar þar allt að utan. Þess má geta að bankið truflar stundum vinnufrið á skrifstofunni en er honum samt sem áður tekið fagnandi. Varpstaður parsins er í beinni sjónlínu frá skrifstofunni og spennandi verður að fylgjast með ungunum sem eru væntanlegir innan nokkurra vikna. Mannlíf mun halda áfram að flytja fréttir af Tryggva og frú og að sjálfsögðu ungunum þegar að því kemur.