• Orðrómur

Tvíburamorðið í Heiðmörk: Lárus var einungis 36 ára og skildi eftir sig sambýliskonu og þrjá syni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Aðfaranótt fimmtudagsins 2. október árið 1997 urðu eineggja tvíburarnir Sigurður Júlíus og Ólafur Hannes Hálfdánarsynir Lárusi Ágústi Lárussyni að bana í Heiðmörk. Bræðurnir voru 25 ára gamlir þegar þeir frömdu ódæðið. Þeir voru báðir sakfelldir í Héraðsdómi Reykjaness þann 5. desember 1997, einungis um tveimur mánuðum eftir morðið. Þeir hlutu þó mislanga dóma. Sigurður Júlíus hlaut sextán ára fangelsisdóm, en Ólafur Hannes fékk átta ára dóm. Ólafur Hannes krafðist lækkunar refsingar við áfrýjun dómsins til Hæstaréttar, en Hæstiréttur taldi þess í stað ástæðu til að þyngja dóm hans. Svo fór að hann hlaut tólf ára dóm.

Skipulagt sem rán en varð að kaldrifjuðu morði

Að kvöldi dags miðvikudaginn 1. október árið 1997 kom Ólafur heim til Sigurðar, bróður síns, með þann ásetning að þeir færu saman út að skemmta sér. Þeir hittu Lárus Ágúst Lárusson á skemmti- og nektardansstaðnum Vegas, en þar hafði Ólafur starfað af og til um helgar. Mennirnir tóku tal saman en eins og segir í grein DV frá 11. október 1997 var ekkert sem benti til þess að mennirnir hafi þekkst fyrir kvöldið örlagaríka. Samkvæmt gögnum hafi þeir ákveðið að fara saman á skemmtistaðinn Bóhem. Það hafi þá komið til tals að Lárus hefði „talsverða fjármuni undir höndum“.

- Auglýsing -

Svo virðist vera að eftir að tvíburarnir fengu þær upplýsingar hafi þeir lagt á ráðin um að ræna Lárus. Í kjölfarið óku þeir með Lárus á bíl Ólafs upp í Heiðmörk. Ólíklegt þykir að bræðurnir hafi ætlað að bana Lárusi, heldur hafi þeir ætlað sér að rota hann og ræna svo. Sigurður sagði sjálfur fyrir dómi að hann hafi ætlað sér að fara með hinn látna í Heiðmörk, ræna hann og láta hann svo ganga heim. Lárus hafi hinsvegar veitt þeim mótspyrnu, enda var hann þaulvanur íþróttamaður og vel á sig kominn.

Bæði Sigurður og Ólafur sögðu frá því að ránið hefði upphaflega verið hugmynd Sigurðar, en Sigurður tók það fram að hann hefði einungis viljað ræna Lárus vegna slæmrar fjárhagsstöðu Ólafs bróður síns, eins og segir í grein Morgunblaðsins frá 29. nóvember 1997. Þrátt fyrir þessa skýringu Sigurðar tók hann sjálfur 5000 krónur úr veski Lárusar, en Ólafur 3000 krónur.

Eins og áður sagði kom til átaka þegar Lárus veitti bræðrunum mótspyrnu við ránstilraunina. Að öllum líkindum náði Lárus að slíta sig lausan frá þeim og komst undan, en bræðurnir náðu honum aftur og yfirbuguðu hann. Það var þá sem Sigurður keyrði 13 kílóa steinhnullung tvívegis í höfuð Lárusar. Að því loknu tóku tvíburarnir veski Lárusar, settust upp í bílinn og óku því næst yfir hann þar sem hann lá á jörðinni. Lárus var þó sennilega þegar látinn á þeim tímapunkti. Að sögn Ólafs, sem var undir stýri, hafði hann ekki ætlað sér að aka yfir Lárus, en sökum annarlegs ástands síns hafi hann hvorki séð Lárus né tekið eftir því þegar hann keyrði yfir hann.

- Auglýsing -

Hvor benti á annan

Þó bræðurnir hefðu í meginatriðum verið sammála um aðdraganda morðsins voru frásagnir þeirra af verknaðinum sjálfum ólíkar.

Í tilfellum beggja bræðra gerðu þeir meira úr hlut hins en minna úr sínum eigin.

- Auglýsing -

Þannig sagðist Ólafur til að mynda hafa „staðið stjarfur og horft á atlögu bróður síns að manninum“, eins og sagði í Morgunblaðinu. Sömuleiðis tók framburður þeirra beggja breytingum við yfirheyrslur. Á leiðinni af vettvagni glæpsins keyrði Ólafur út af veginum og festi bíl sinn. Bræðurnir héldu því áfram fótgangandi, en á leiðinni brutust út slagsmál á milli þeirra. Vildi Ólafur meina að það hefði gerst vegna þess að hann hefði viljað að þeir gæfu sig fram við lögreglu. Það hafi hinsvegar ekki hugnast Sigurði, sem hafi reiðst mikið og látið höggin dynja á bróður sínum. Hann hætti því loks þegar Ólafur lofaði að koma ekki upp um þá. Þessari sögu vísaði Sigurður á bug og sagði átökin hafa komið til vegna ágreinings um hvenær og hvernig þeir myndu gefa sig fram og játa brot sitt. Kvöldið eftir gaf Ólafur sig fram við lögregluna í Reykjavík, en sagðist þá hafa orðið vitni að því þegar bróðir hans myrti mann í Heiðmörk.

Deilt um sakhæfi Sigurðar

Geðlæknirinn Hannes Pétursson framkvæmdi geðrannsókn á tvíburunum og var niðurstaða hans sú að Sigurður Júlíus væri haldinn geðklofa, sakhæfi hans því skert og refsing skyldi taka mið af því. Hann taldi sig ekki hafa fundið neina skerðingu á sakhæfi hjá Ólafi Hannesi í skilningi hegningarlaga, en tók það þó fram að Ólafur sýndi vissulega merki persónuleikaröskunar og áfengissýki. Hann ætti einnig sögu um erfið samskipti allt frá æsku.

Sigurður hafði í tvígang verið lagður inn á geðdeild sama ár og bræðurnir frömdu morðið. Geðlæknirinn taldi það víst að hefðbundin refsivist í fangelsi hefði ekki góð áhrif á heilsu Sigurðar og myndi ekki bera tilætlaðan árangur. Hann lagði í stað þess til að Sigurður yrði vistaður á réttargeðdeild, en þar fengi hann meðferð við hæfi og gæti verið í reglulegum tímum hjá geðlækni, sem hann þyrfti sannarlega á að halda.

Bæði Sigurður og Ólafur höfðu áður komist í kast við lögin. Ljóst var að tvíburarnir höfðu átt erfiða æsku og vímuefni höfðu komið við sögu í lífi beggja.

Ákæruvaldið krafðist þess að báðir bræður væru dæmdir til hefðbundinnar refsingar, þrátt fyrir geðmat Sigurðar.

Dómur kveðinn upp

Ólafur þótti margsaga fyrir dómi og ekki var fallist á að hann hefði í raun keyrt óviljandi yfir Lárus. Þó Ólafur vildi meina að Sigurður hefði ráðið ferðinni allan tímann („Ég hef alltaf látið í minni pokann gagnvart honum“ sagði Ólafur meðal annars,) þótti sannað að hann hefði átt hlut í átökunum sem leiddu til dauða Lárusar og að hann hefði getað gripið inn í og stöðvað atburðarásina ef vilji hefði staðið til. Það hafi hann hinsvegar ekki gert. Eins og áður sagði hlaut hann að lokum átta ára fangelsisdóm í héraði, sem var þyngdur í tólf ár í Hæstarétti.

Verjandi Sigurðar krafðist þess að hann yrði dæmdur ósakhæfur og hlyti því ekki refsidóm.

Hann sagði augljóst að þar sem Sigurður væri ekki heill á geði hefði hann ekki gert sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna þegar hann tók upp steininn í átökunum við Lárus.

Það fór þó svo að Sigurður hlaut sextán ára dóm í héraðsdómi, en dómnum var haldið óbreyttum í Hæstarétti eftir áfrýjun. Bræðurnir voru einnig dæmdir til að greiða fjölskyldu Lárusar heitins samtals rúmlega 8,4 milljónir króna auk vaxta í skaðabætur. Auk þess voru þeir dæmdir til að greiða 850 þúsund krónur í máls- og sakarkostnað. Hæstiréttur taldi ekki frekar en héraðsdómur ástæðu til að Sigurður afplánaði dóm sinn á viðeigandi stofnun. Þó var tekið fram að refsivist Sigurðar yrði í samræmi við heilsu hans.

Lárus Ágúst Lárusson fæddist árið 1961 og var því einungis 36 ára gamall þegar hann var hrifinn burt með eins grimmilegum hætti og raun ber vitni. Hann skildi eftir sig sambýliskonu og þrjá syni. Synir hans voru sautján, níu og tveggja ára þegar þeir misstu föður sinn.

Sigurður strýkur

Þegar Sigurður átti innan við hálft ár eftir af afplánun sinni strauk hann af áfangaheimilinu Vernd. Þar átti hann að vera þar til honum yrði sleppt á reynslulausn, en þetta var í september árið 2007. Hann gekk laus í tæpa viku án þess að lýst væri eftir honum, því ekki þótti stafa hætta af Sigurði. Auk þess var verið að vernda Ólaf fyrir áreiti, en hann var á þessum tíma þegar laus úr fangelsi. Eins og gefur að skilja voru tvíburabræðurnir líkir í útliti og Ólafur gæti því ósennilega um frjálst höfuð strokið ef auglýst væri eftir Sigurði með myndum.

Nánustu aðstandendur Sigurðar aðstoðuðu lögreglu við leitina og Sigurður náðist svo á leið til vina sinna á Kjalarnesi.

Sigurður var undir áhrifum þegar hann fannst.

Þráinn Bj. Farestveit, þáverandi forstöðumaður Verndar, sagði það hafa legið í loftinu í nokkurn tíma að Sigurður myndi þurfa að fara aftur á Litla-Hraun. Sigurður hafi verið allur af vilja gerður en hafði þó ekki tekist að fylgja öllum settum reglum á Vernd. Hann hafi verið búinn að fá áminningu og að mögulega hefði tilhugsunin um að þurfa að hverfa aftur á Litla-Hraun verið honum ofviða.

Samfangi Sigurðar sagði hinsvegar í samtali við DV stuttu eftir flóttann að hann væri ekki sannfærður um þá röksemdarfærslu. Hann taldi mun líklegra að Sigurður hefði verið orðinn þunglyndur og farinn að finna fyrir yfirþyrmandi kvíða yfir því að fara aftur út í samfélagið. Hann hafi því hugsanlega verið að reyna að koma í veg fyrir að sér yrði sleppt.

Valtýr Sigurðsson, þáverandi forstjóri Fangelsismálastofnunar, taldi flótta Sigurðar geta haft áhrif á reynslulausn hans, í samtali við DV þann 14. september árið 2007. Það ætti þó eftir að koma í ljós hversu mikil áhrif; hvort reynslulausnin yrði afturkölluð og þá hversu lengi.

Það átti þó aldrei eftir að koma í ljós. Einungis nokkrum dögum seinna, þann 22. september árið 2007, lést Sigurður Júlíus Hálfdánarson.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -