Hin unga og upprennandi tónlistarkona, Una Torfadóttir, dóttir Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, gaf nýverið út sína fyrstu plötu, Flækt og ung og einmana. Á plötunni fjallar hún um þá reynslu að vera ung að fóta sig í lífinu. Í viðtalinu lýsir hún tónlistinni og þeim áhrifum sem lífshættulegt krabbamein hefur haft á hana. Rætt var við Unu Torfadóttur í Lestinni á Rás 1, en Anna María Björnsdóttir á vefritstjórn og Kristján Guðjónsson, dagskrármaður tóku saman.
Heilaskurðaðgerð tveimur dögum eftir tvítugsafmælið
Una hóf nám á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands en þurfti að fljótlega að gefa það upp á bátinn. Una sem greindist með alvarlegt heilaæxli sumarið 2020.
„Ég hætti í Listaháskólanum eftir að ég greindist með krabbamein. Ég fann það hjá mér að það var of mikið að vera bæði í meðferð og intensífu námi. En það var bara falleg kveðjustund og bara gott fólk þar sem mér þykir mjög vænt um,“ segir Una. Una lýsir því að hafa viljað búa til nýtt upphaf og er núna í Tækniskólanum að læra að sauma föt.
Tveimur dögum eftir tvítugsafmælið sitt fór Una í heilaskurðaðgerð. „Ég mátti ekki fá mér freyðivín þegar ég varð tvítug, sem var svolítið leiðinlegt„Þetta var svolítið súrrealískt allt saman, að greinast með svona eins og það kallast í krabbameinsbransanum, lífsógnandi sjúkdóm.“
Kraftaverk eftir kraftaverk
„Að vera svona ung og að dauðinn verður allt í einu svona áþreifanlegt konsept, að fá svona alvarlega greiningu er bara mjög skrítið. Það er eiginlega svo skrítið að tilfinningakerfið manns kann ekki almennilega að ná utan um það, þetta verða einhver abstrakt konsept.“
Hún segir að veikindin hafi klárlega haft áhrif á hvernig hún lítur á heiminn og lífið en á sama tíma sé lífið svo magnað að maður geti eiginlega vanist hverju sem er. Það hafi bara allt í einu fallið inn í leikmynd lífsins að hún væri með krabbamein og þyrfti að fara í geislameðferð.
„Þetta er ekki alltaf drama og horror, en sem betur fer gekk meðferðin mín mjög vel og aðgerðin mín líka. Þetta var eiginlega bara kraftaverk eftir kraftaverk.“ Í dag er Una einungis í eftirliti og talin krabbameinslaus.
Ekki fundið sig á markaðnum fyrir krabbameinstónlist
Þessi lífsreynsla hefur mun frekar haft óbein áhrif á Unu sem skapandi manneskju en bein.
„Mér fannst aldrei sérstaklega spennandi hugmynd að semja lagatexta um krabbamein. Ég hef svo gaman af að semja tónlist sem allir geta skilið og tengt við. Og að ég geti komið einhverju í orð sem margir hafa upplifað en kannski ekki orðað. Það er alveg einhver markaður fyrir krabbameinstónlist þarna úti en hún hafi ekki fundið sig í því.“
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.