Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Unnur Ösp segist særð eftir gagnrýnina – Á fatlað barn: „Það hryggir óendanlega“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikstjóri söngleiksins Sem á himni, segir sig knúna til að stinga niður penna og koma leikritinu til varnar. Nína Hjálmarsdóttir, gagnrýnandi á RÚV, var ekki hrifin af verkinu, sem frumsýnt var á stóra sviði Þjóðleikhúsinu á dögunum, og sagði verkið niðurlægja fatlaða.

Þrátt fyrir þetta segir Unnur Ösp að málefni fatlaðra standi henni nærri enda eigi hún fatlað barn. Hún skrifar á Facebook: „Ég finn mig knúna til að stíga inn í umræðu um gagnrýni á leiksýninguna Sem á himni. Sýningu sem ég ber ábyrgð á að leikstýra og þar með taka endanlega listrænar ákvarðanir um.  Málefni fatlaðra standa mér persónulega mjög nærri. Ég þekki það af eigin raun hvernig er að eiga fatlað barn sem tekst á við sambærilegar ef ekki návæmlega sömu áskoranir og persóna Dodda, fatlaða drengsins í umræddu verki. Ég ákvað að taka að mér leikstjórn á þessari sögu m.a. af þeirri ástæðu að vekja athygli á stöðu fatlaðra í samfélagi okkar. Því miður erum við stutt komin þegar kemur að réttindum og virðingu þessa hóps, því mæti ég á hverjum degi,“ segir Unnur.

Hún segir fatlaða þurfa að standa frammi fyrir ýmsu mótlæti. „Þeim er útskúfað, þau komast ekki í framhaldsnám, þeim er vísað úr íþróttahreyfingunni, þykja ekki passa í hópinn. Auðvitað er þetta ekki alls staðar raunin, en því miður of víða. Það er þess vegna sem þessi einfalda sögn, sem er í raun grunn þráður verksins Sem á himni, er mér mikilvæg. Að við sem samfélag virkum ekki nema við hleypum öllum að borðinu. Í tilfelli Dodda í verkinu finnur kórinn ekki sinn “rétta” tón fyrr en fatlaði einstaklingurinn fær að syngja með. Þetta er djúp og mikilvæg sögn fyrir mig persónulega. Að eiga fatlað barn er yndislegt og mín stærsta gjöf í lífinu en það getur líka verið brútal, ljótt, erfitt, vandæðalegt, banalt og óþægilegt,“ segir Unnur Ösp.

Hún segist særð eftir þetta. „Það sem særir því óendanlega mikið í þarfri og magnaðri umræðu sem ég fagna manna mest er sú tilfinning mín að þegar við sýnum sannleika þessarar persónu í sinni tærustu mynd, þá finnst okkur áhorfendum erfitt, jafnvel óbærilegt að horfa á það. Það er ekki rétt gert, það er leikið af röngum aðila, við hefðum átt að milda, breyta, sleppa, strika hlutverkið. Í lífi sumra eru þessar áskoranir sem persónan fæst við daglegt brauð. Ég vildi því síst milda það eða fara um það mjúkum höndum. Ég vildi alls ekki draga úr þeim ömurlegu fordómum sem persónan mætir af samfélaginu í sögunni. Ég valdi að fá næman listamann til að túlka þessa persónu af virðingu, skilningi og kærleika. Það hryggir óendanlega ef það kemur ekki yfir til allra.“

Hún segir samt mikilvægt að eiga þetta samtal. „Við eigum að þora inn í þetta erfiða samtal. Það er sársauki í þessu samtali en við verðum að taka það. Þannig hreyfum við samfélagið og tilverurétt fatlaðra persóna í sögunum sem við viljum segja í leikhúsinu. Og ekki síst þurfum við fókus á réttindi fatlaðra í samfélaginu öllu, stofnunum þess, listnámi og víðar. Raddir fatlaðar verða að heyrast og það sem aldrei fyrr. Og það á vettvangi sem getur náð augum og eyrum sem flestra. Þessi umræða er miklu stærri og mikilvægari en einstaka leiksýning. Við í Þjóðleikhúsinu boðum til málþings um leikhúsið og birtingarmynd raunveruleikans innan þess og stígum af þunga inn í þessa umræðu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -