Fimmtudagur 21. september, 2023
3.8 C
Reykjavik

Veltir fyrir sér auðlindum Reykjaness: „Tíð eldgos eru líkleg til að breyta ýmsu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Björn Birgisson veltir fyrir sér síbreytilegu Reykjanesi í nýrri færslu í dag.

Samfélagsrýnirinn kjarnyrti Björn Birgisson skrifaði Facebook-færslu í dag þar sem hann velti fyrir sér hinu síbreytilega Reykjanesi en þar hefur gosið reglulega síðustu ár með tilheyrandi breytingu á landslagi. Þá velti hann því einnig fyrir sér hvort þær verðmætu auðlindir sem háhitasvæði séu, muni vara að eilífu en segir að tíð eldgos geti haft áhrif á slíkt.

Færsluna má lesa hér að neðan:

„Lifandi Reykjanes.

Nú er þriðja eldgosið á Reykjanesi á þremur árum að fjara út.
Afskaplega líklegt er að stutt sé í það fjórða og síðan koll af kolli.
Okkur er sagt að samkvæmt hefðinni í jarðsögunni þá sé hafið nýtt eldgosatímabil á svæðinu eftir yfir 800 ára hvíld og kyrrð.
Gömlu hraunin hafa náð að safna mosa og eru ekki lengur kolsvört, en það eru þau nýju svo sannarlega, í einkennislit þess Kölska sem kyndir ofnana í neðra.
Þótt eldstöðvar Reykjanessins hafi haft hægt um sig í yfir átta aldir þá hefur víða bullað og kraumað undir yfirborðinu allan tímann.
Eðlilega hafa háhitasvæði verið virkjuð með frábærum árangri og hér er heitt vatn til allra hluta, húshitunar, í sundlaugar, í heita potta, til allra þvotta – hreint og beint ómetanlega verðmæt auðlind.
Er hún varanleg og gefandi til eilífðarnóns?
Það veit í sjálfu sér enginn með neinni vissu, en tíð eldgos eru líkleg til að breyta ýmsu – ýmsu sem talið er sjálfgefið nú, en kann að raskast með litlum eða engum fyrirvara.
Drottinn gaf og drottinn tekur.
**********
Á myndinni er Gunnuhver og hann er í sjálfu sér eitt kennslubókardæmi um hversu lifandi Reykjanesið er og í raun viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum.
Þegar boranir hófust eftir heitu vatni fyrir Reykjanesvirkjun var Gunnuhver lítill kraumandi hver í nágrenninu, suðupottur, aðgengilegur án áhættu.
Nú er Gunnuhver eins og myndin sýnir!
Sú breyting er eindregið rakin til jarðborana vegna hinnar nýju virkjunar.
**********
Svartsengi, Krýsuvík, Eldvörpin, Fagradalsfjall, Litli hrútur, Merardalur, Gunnuhver, Keilir ………… og lengi má telja.
Þessi staðaheiti og örnefni og mörg önnur munu verða landsmönnum töm á tungu um langa framtíð.
Reykjanesið er sprelllifandi!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -