Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Verðkönnun: Þetta er kostnaðurinn við að fá jólasveina í heimsókn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú þegar jólin nálgast fara margir að huga að ýmsu skemmtilegu fyrir börnin á aðventunni. Jólasveinaheimsóknir hafa notið töluverðra vinsælda síðustu ár, en þá koma sveinarnir í heimahús, spjalla við börnin (og eflaust þá fullorðnu líka) og skemmta með einum eða öðrum hætti.

Mannlíf fór á stúfana (takk) og kannaði hvað það kostar að fá hina ýmsu sveina í heimsókn og hvað sé innifalið í heimsóknum þeirra.

 

Jólasveinar.is

Jólasveinar.is bjóða upp á margs konar þjónustu þegar kemur að jólasveinaheimsóknum. Alla daga í desember er boðið upp á heimsóknir í heimahús. Þá stoppar jólasveinninn í 5 mínútur á heimilinu, segir sögur af sjálfum sér, syngur lag með börnunum og útdeilir gjöfum, sé þess óskað. Verð fyrir slíka heimsókn er 11.000 krónur.

Fyrir þá sem vilja lengri heimsókn frá jólasveininum er einnig boðið upp á 15 mínútna heimsókn. Hann syngur þá 3-4 lög og sprellar lengur. Þessi kostur er sagður vinsæll til dæmis í stærri fjölskylduboðum. Þá er verðið 18.800 krónur. Verð fyrir tvo saman er 32.800 krónur.

Á aðfangadag er hægt að fá heimsókn frá jólasveini í heimahús til klukkan 16 og er verðið það sama þann dag og aðra. Sömuleiðis er í boði að panta heimsókn á jóladag. Þá er 20% álagning á almennt verð.

- Auglýsing -

Skjóða, systir jólasveinanna, sem mörg börn þekkja ef til vill úr jólaskemmtunum og úr Jóladagatali Hurðaskellis og Skjóðu tekur einnig að sér heimsóknir af öllum stærðum og gerðum um jólin.

Hjá jólasveinar.is starfa lærðir leikarar og vanir áhugaleikarar sem meðal annars koma úr Leikhópnum Lottu.

 

- Auglýsing -

Einararon.is

Á síðunni einararon.is er ýmist boðið upp á að fá Askasleiki eða Grýlu (nú, eða mæðginin saman) í heimsókn. Á síðunni segir að þau heilsi „upp á börn og fullorðna, ganga á milli fólks, gefa sér góðan tíma fyrir myndatökur, eru þaulvön veislustjórnun og stuttum (eða lengri) atriðum fyrir hópa, bæði innan- og utandyra.“

Ef bókuð er heimsókn frá Askasleiki stoppar sveinninn í 7 mínútur, tekur lagið og getur gefið pakka eða í skóinn. Verð fyrir þetta er 5.000 krónur.

 

Skyrgámur.is

Í gegnum síðuna skyrgámur.is er boðið upp á margs konar þjónustu frá jólasveinum. Hægt er að bóka jólasveina í fjölskylduboð, í heimahús til að gefa börnum pakka og í aðfangadagsheimsókn, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir 10 mínútna heimsókn tveggja jólasveina þar sem þeir syngja, spjalla og töfra ef til vill eitthvað skemmtilegt, ásamt því að koma með pakka fyrir börnin (sem foreldrar útvega fyrir fram) er verðið 12.500 krónur, en 20% af verðinu rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar.

Sama verð er fyrir um það bil 10 mínútna heimsókn tveggja jólasveina á aðfangadag.

 

Askasleikir.is

Á askasleikir.is er hægt að fá heimsókn þar sem jólasveinn eða jólasveinar stoppa fyrir utan heimahús í 5 mínútur, ræða jólin og geta gefið pakka ef það er undirbúið fyrir fram. Verð fyrir einn jólasvein er 5.000 krónur en 8.000 krónur fyrir tvo.

Viljir þú fá jólasvein inn um gluggann heima hjá þér eða eftir öðrum leiðum geta þeir gert það og stoppað í 10 mínútur. Þeir taka lagið, spjalla og geta gefið pakka eða í skóinn hafi það verið undirbúið. Fyrir slíka heimsókn er verðið 10.000 krónur fyrir einn jólasvein og 15.000 krónur fyrir tvo jólasveina.

Fyrir aðfangadagsheimsókn, þar sem einn jólasveinn stoppar fyrir utan heimahús í 7 mínútur, tekur lagið og getur gefið pakka sé þess óskað, er verðið 6.000 krónur.

 

Sveinki.is

Sveinki.is er jólasveinaþjónusta sem býður upp á alls kyns möguleika. Hægt er að fá jólasvein til að stjórna jólabingói, hann kemur í vinnustaðaheimsóknir, á jólaböll og svo getur hann stjórnað spurningakeppni í svokölluðu sveinka-kvissi eða farið með gamanmál og spilað á gítar sem partí-sveinki.

Svo eru það auðvitað hinar hefðbundnu heimsóknir í heimahús og margt fleira. Fyrir heimsókn tveggja jólasveina í heimahús, þar sem þeir syngja jólalög og segja brandara, er verðið 12.000 krónur. Fyrir sams konar heimsókn tveggja sveina á aðfangadag, þar sem þeir geta afhent pakka sé þess óskað, er verðið það sama, 12.000 krónur. Þó er tekið fram að hægt sé að óska eftir tilboði ef um er að ræða margar íbúðir í sömu blokk eða mörg hús í sömu götu.

 

Torfi Guðbrandsson – Bjúgnakrækir

Torfi Guðbrandsson er einyrki með jólasveinaþjónustu. Hann er með Bjúgnakræki á sínum snærum, sem heyrst hefur að sé jafnvel óðum að skapa sér orð sem besti Bjúgnakrækir landsins. Heimsókn í heimahús fer þannig fram að jólasveinninn mætir á svæðið, yfirleitt út í garð eða birtist á glugga og biður um að fá að koma inn. Eftir það er kynning, Bjúgnakrækir sýnir börnunum stafinn sinn, sem er úr hrútshorni, og bjúgun sem hann ferðast jafnan með ef hann skyldi verða svangur. Oft er hann með sitthvað annað spennandi í poka sínum sem hann leyfir börnunum að skoða. Að því loknu tekur Bjúgnakrækir nokkur lög með þeim og í lokin fá þau yfirleitt gjöf frá honum, sem gengið hefur verið frá fyrir fram. Oftast endar heimsóknin á myndatöku.

Heimsókn Bjúgnakrækis er á bilinu 20-30 mínútur og kostar 15.000 krónur.

Verðið á sams konar heimsókn fyrir jólaboð eða á aðfangadag er 20.000 krónur.

Bókanir hjá Torfa (sem hann kemur áleiðis til Bjúgnakrækis) fara fram á Facebook-síðu hans, netfanginu [email protected] og í síma 616-7887.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -