Föstudagur 19. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Við þurfum aðgerðir. Mennskunnar vegna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Nú hafa Evrópulönd á borð við Finnland, Frakkland, Portúgal og Lúxemborg með Angelu Merkel og Þýskaland í fararbroddi, svarað kallinu og undirstrikað vilja til að taka á móti allt að 1500 börnum á flótta frá Grikklandi. Á sama tíma keppist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við að vísa að minnsta kosti fimm fjölskyldum og börnum þeirra, í mjög viðkvæmri stöðu til Grikklands. Rauði krossinn hafði mótmælt fyrirhuguðum brottvísunum og það höfum við í Viðreisn einnig gert,“

segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar í pistli sínum í Mannlíf.

Þorgerður bendir á þá staðreynd að tugmilljónir barna séu á flótta vegna stríðsátaka, náttúruhamfara eða annarra neyðaraðstæðna í leit að öryggi, skjóli og vernd. Þorgerður segir fólk ekki flýja heimili sín að gamni sínu, heldur af neyð. „Börn á flótta eru sérstaklega berskjölduð. Þau eru líklegri til að lenda í klóm barnaþrælkunar, mansali og ofbeldi. Slíkur hryllingur er ekki vandi sem einskorðast við landamæri. Lönd, þar með talið Ísland, sem hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar m.a. barnasáttmálann og mannréttindasáttmálann bera mikla ábyrgð og eiga að bregðast við.“

Sum mál flóttabarna rata í íslenska fjölmiðla, önnur ekki

„Á hverju ári leita börn á flótta og fjölskyldur þeirra til Íslands að vernd. Á hverju ári er fjölda þessara barna vísað frá því þau uppfylla ekki skilyrði stjórnvalda og eiga því ekki lagalegan rétt á vernd á Íslandi. Sum mál rata í fjölmiðla. Önnur ekki. Fyrsti viðkomustaður margra fjölskyldna á flótta er Grikkland,“ segir Þorgerður og bendir á að þar sé ástandið núna óboðlegt; lítið pláss og skortur á almennilegri aðstöðu eða tækifærum. Amnesty International, UNICEF og fleiri hafi kallað eftir því að Grikkland og önnur Evrópuríki reyni að bregðast við með því að rýma flóttamannabúðir sem áttu að rúma 5000 flóttamenn, en þar búa í dag um 40 þúsund.

„Helstu mannréttindasamtök heimsins mótmæla því að endursenda fólk til Grikklands. Svo einfalt er það. Þess vegna er algengt að fólk reyni að komast til annarra landa og leita þar að vernd, það er ekki flókið að setja sig í þeirra spor og skilja hvers vegna.“

- Auglýsing -

Óljóst hvað verður um fjölskyldurnar

„Svo komu fram fréttir um frestun brottvísunar, í fyrstu var haldið fram að það væri vegna þess að Grikkir gátu ekki tekið á móti þeim vegna aðstæðna. En það tók um klukkustund fyrir íslensk stjórnvöld að ítreka að svo væri ekki. Það hefði ekki láðst að fá samþykki frá réttu stjórnvaldi ytra, og úr því hafi verið bætt. Nú er með öllu óljóst hvað verður um þessar fjölskyldur. Það er óviðunandi,“ segir Þorgerður.

„Það er pólitísk ákvörðun hjá Merkel og öðrum þjóðarleiðtogum að taka á móti börnum á flótta. Mannúðin er sálin í Evrópu segir Merkel. Í enn eitt skiptið stimplar hún sig inn sem framsýnn og mennskur þjóðarleiðtogi. Það er líka pólitísk ákvörðun að aðhafast ekkert, líkt og ríkistjórnin gerir. Ef lögin og reglugerðir heimila ekki mannúðarmiðaða nálgun, þarf einfaldlega að breyta þeim. Það þarf ekki fleiri nefndir eða aðrar fjarvistarsannanir til þess að þurfa ekki að taka pólitískar ákvarðanir. Við þurfum aðgerðir. Mennskunnar vegna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -