• Orðrómur

Vilhjálmur segir lífshættulega stöðu á Landspítala: „Stjórnvöld þurfa að girða sig í brók“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Kæri viðtakandi. Sótt hefur verið um fyrir þig í ADHD teymi Landspítalans. Biðtími eftir þjónustu hefur lengst töluvert. Skortur er á fagfólki í teyminu og framtíð þess og staðsetning innan heilbrigðiskerfisins er óljós eins og er. Unnið er að því að finna lausn.“

Svo hljóðar bréf sem einstaklingar sem bíða greiningar hjá ADHD teymi Landspítalans hafa fengið sent í gegnum Heilsuveru síðustu daga.

Um er að ræða einstaklinga sem þegar hafa fengið umsókn sína um greiningu hjá teyminu samþykkta og hafa því verið á biðlista.

Viðtakandi bréfsins sem Mannlíf hefur undir höndum hefur beðið greiningar í rúmt ár. Þegar viðkomandi, sem vill ekki láta nafns síns getið, fékk umsókn sína samþykkta fyrir rúmu ári var honum tjáð að biðin eftir greiningu gæti orðið allt að tvö til þrjú ár. Bréfið lýsir því grafalvarlegri stöðu þegar kemur að ADHD greiningum á spítalanum, sem þó var slæm fyrir. Bréfið er undirritað af Svövu Dagnýju Árnadóttur, ritara ADHD teymisins.

Báðir geðlæknar sagðir hafa gefist upp undan álagi

Bið eftir greiningu á ADHD hefur aldrei verið lengri. Í samtali við Mannlíf segir Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, ástandið vera óboðlegt, ef ekki hreinlega lífshættulegt. Hann segist undanfarna daga hafa fengið að sjá nokkur bréf eins og það sem vitnað er í hér að ofan.

- Auglýsing -

Samkvæmt upplýsingum frá teymisstjóranum seint í maí síðastliðnum skildist Vilhjálmi að tekist hafi að fullmanna sálfræðistöður innan teymisins, en þrátt fyrir það væri biðtíminn um þrjú ár.

Vilhjálmur segir þröngan hóp mögulega hafa getað fengið forgang í greiningu hingað til, en það séu ekki margir sem falla þar undir.

„Ekki bætir úr skák að báðir geðlæknar eru sagðir hafa gefist upp undan álagi og horfið til starfa hjá núverandi geðheilsuteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins,“ segir Vilhjálmur. Samkvæmt Vilhjálmi voru þessir tveir geðlæknar samtals með eitt 100% stöðugildi. „Nú blasir svo við að ADHD teymi Landspítalans er endanlega óstarfhæft,“ bætir hann við.

Bréf frá ADHD teymi Landspítala
- Auglýsing -

Öruggt að börn af landsbyggðinni muni síður fá þjónustu

Ef horft er til Þroska- og hegðunarstöðvar og stöðu barna virðist útlitið enn svartara.

„Þar á bæ mun biðlistinn vera um tvö ár, sem er afar stórt hlutfall af ævi barns og hefur tvöfaldast nú um mitt ár. Biðlisti frá fyrra ári taldi 304 börn og nú á miðju ári bættust 360 börn við,“ segir Vilhjálmur. Þær tölur hefur hann eftir Oddnýju Harðardóttur, sem situr í fjárlaganefnd Alþingis.

Þroska- og hegðunarstöð heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en þrátt fyrir það er stöðinni jafnframt ætlað að sinna þjónustu á landsvísu. Vilhjálmur telur að núverandi ástand muni koma afar illa niður á börnum búsettum á landsbyggðinni.

„Nú þegar fjármagnsskortur og álag er að lama starfsemina er ekki bara viðbúið heldur öruggt að börn af landsbyggðinni muni síður fá þjónustu, nema eitthvað mjög alvarlegt komi til.“

Vilhjálmur segir að heyra megi á forsvarsmönnum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar að reksturinn sé að bugast undan álagi og atgervisflótti við það að bresta á. Hann sé jafnvel þegar hafinn.

„Heilbrigðisráðherra hefur undanfarið sagst munu leggja fram hugmyndir að lausnum. Eins og staðan er nú hef ég litla trú á að þessar hugmyndir komist til framkvæmda eða verði að minnsta kosti kynntar fyrir kosningar – og enn síður trúi ég að nægt fjármagn muni fylgja. Að minnsta kosti ef eitthvað er að marka hænuskref og afturhald fjárveitingavaldsins undanfarið, svosem varðandi kostnaðarþátttöku vegna sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna,“ segir Vilhjálmur.

Treysta þurfi fagfólki

„Þetta vandamál er ekki nýtt af nálinni, heldur teygir það sig tvo áratugi aftur í tímann. Mín tilfinning er einfaldlega sú að innan stjórnkerfisins óttist menn ekki bara aukinn kostnað vegna greininga, heldur haldi jafnframt að slíkt leiði sjálfkrafa til lyfjameðferðar í öllum tilfellum. Á meðan er stefnuleysið slíkt að þeir sem að koma fórna hreinlega höndum, enda öll starfsemi og framtíðarplön í algjöru uppnámi, sama hvert litið er. Hér þurfa stjórnvöld hreinlega að girða sig í brók.“

Vilhjálmur segir að það þurfi að treysta því fagfólki sem kemur að ADHD greiningum. Hann þvertekur fyrir að hér sé einhver stórkostleg hætta á ofgreiningum. Hann segir þá heilbrigðisstarfsmenn sem sérhæfa sig á þessu sviði vera fullfæra til verksins.

„Snemmtæk íhlutun með faglegri greiningu og viðeigandi meðferðarúrræðum mun einfaldlega breyta stöðunni til hins betra – og það hratt,“ segir Vilhjálmur ákveðinn.

„Ef þessum hringlandahætti linnir ekki, er kannski kominn tími á að minna heilbrigðisráðherra á hugmynd um lausn sem lögð var inn á hennar borð fyrir margt löngu. Í stuttu máli þá buðust ADHD samtökin, í samvinnu við fagfólk í heilbrigðisgeiranum, til að stíga fram fyrir skjöldu og leysa málið með skilvirkum hætti, svo fremi sem fjármagn fylgdi. Ekki kannski, ekki bráðum – heldur strax,“ segir Vilhjálmur.

„Um leið þarf að útfæra leiðir til úrbóta á meðan skortur á geðlæknum með sérþekkingu er viðvarandi. Þetta má hæglega gera með þverfaglegri samvinnu sálfræðings, heimilislæknis og geðlæknis sem kæmi að ákvörðun um lyfjameðferð ef svo ber undir,“ segir Vilhjálmur að lokum.

 

Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -