Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Ísdrottningin Ásdís Rán komin heim: Íslenskir karlmenn oft hræddir við mig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ísdrottningin, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, hefur verið á milli tannanna á Íslendingum síðan hún var kornung. Hún hefur marga fjöruna sopið síðan hún kom fyrst fram á sjónarsviðið sem fyrirsæta á unglingsaldri. Ásdís er nú komin til Íslands, eftir að hafa meira og minna búið erlendis í fjölmörg ár, aðallega í Búlgaríu. Í kjölfar alls kyns ævintýra, verkefna og viðskipta flutti hún aftur heim í kjölfar Covid-tímabilsins og er sest hér að í bili. En þó að hún sé komin heim á klakann er augljóst að Ásdís er ekki ákveðin í að setjast hér alfarið að.

„Ég vil nú ekki meina að ég sé komin heim alveg fyrir fullt og allt, en dóttir mín vildi koma til Íslands núna, sérstaklega eftir erfitt Covid-tímabil í Búlgaríu. Hún sá á samfélagsmiðlum að jafnaldrar hennar voru miklu frjálsari hér á Íslandi og ég fann að hún vildi fara og mér fannst ég ekki geta annað en farið heim, að minnsta kosti tímabundið. Hún er að fara í gegnum unglingsárin, sem eru mjög mikilvæg félagslega séð. Það voru búnar að vera harðar Covid-reglur í Búlgaríu og námið fór meira eða minna fram í gegnum netið í tvö ár og hún var nánast búin að vera með mér 24 tíma á dag allan þann tíma. Hún var bara búin að fá nóg. Þannig að það lá beinast við að koma heim til Íslands,“ segir Ásdís, sem er augljóslega ánægð að dóttir hennar fái að njóta sín á Íslandi, þó að hún sjálf sé aðeins á báðum áttum enn þá:

 „Hún er mjög glöð að vera hér, en ég á alltaf svolítið erfitt með að vera eingöngu á Íslandi. Eftir svona mörg ár í öðrum menningarheimi er ég orðin vön ákveðnum hlutum. Þó að landið sé frábært, þá er eitthvað sem veldur því að ég er ekki alveg búin að aðlagast eftir allan þennan tíma úti. Sérstaklega fyrst eftir að ég kom heim, þá fannst mér stundum eins og að það væri þungt teppi yfir mér. Bæði veðrið og líka að hafa ekki sömu möguleika til að gera hluti.“

Ásdís hefur um árabil verið stærstan hluta ársins í Búlgaríu og það er augljóst að hún kann mjög vel við sig þar og að Búlgaría er í raun orðin heimavöllur hennar. 

„Ég hef aðlagast lífinu í Búlgaríu vel og mér hefur í raun liðið mjög vel þar, alveg frá því að ég kom fyrst til landsins.“

 

- Auglýsing -

Brynvarðir bílar, límósínur, demantar og lífverðir

Ásdís fór upphaflega til Búlgaríu með fyrrverandi manni sínum, knattspyrnumanninum Garðari Gunnlaugssyni. Hugmyndin var að lifa rólegu og þægilegu lífi, þar sem hann fengi athyglina, en hún sæi um heimilið. En mjög fljótt kom í ljós að framvindan ætti eftir að verða önnur.

„Þetta byrjaði allt með því að Garðar fékk tilboð frá CSKA Sofia í Búlgaríu árið 2008. Þá vissum við í raun ekki mikið um landið, en höfðum í einhvern tíma verið að hugsa um að okkur langaði að flytja í hlýrra land og á endanum ákváðum við að slá til. Hann skrifaði undir samninginn og við ákváðum í kjölfarið að flytja til Sofiu, höfuðborgar Búlgaríu. Maður fann mjög fljótt að knattspyrnumennirnir eru algjörar stórstjörnur þarna, sem olli því að fjölmiðlarnir fóru fljótt að skoða hver væri eiginkona Garðars. Þá gerðist það eiginlega á einni nóttu, að fjölmiðlar fengu mikinn áhuga á mér. Það var til svo mikið af myndum og greinum um mig, að þær fóru strax að veltast um í gulu pressunni og þá varð ekki aftur snúið. Ég hafði séð fyrir mér að ég yrði fótboltaeiginkona með börn og myndi lifa rólegu lífi í Búlgaríu, en það breyttist hratt,“ segir Ásdís brosandi og heldur áfram:

 

- Auglýsing -

„Ég fékk strax mikla athygli og gat því fljótt búið til minn eigin feril. Ég fékk mjög fljótt vel borgað fyrir þau verkefni sem ég tók að mér og þetta var eiginlega bara draumur í dós. Mér leið mjög fljótt eins og ég væri komin á minn heimavöll og kunni mjög vel við alla athyglina sem ég fékk og hvað ég fékk mörg tækifæri.“

Ásdís neitar því samt ekki að sumt sem þyki eðlilegt í Austur-Evrópu væri litið öðrum augum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. 

„Auðvitað er margt skrýtið og sérstakt miðað við það sem við þekkjum, sérstaklega þegar kemur að þekktu og ríku fólki í Austur-Evrópu. Brynvarðir bílar, límósínur, demantar og lífverðir eru bara eðlilegur hlutur fyrir fólk sem á peninga í Búlgaríu og lífsstíllinn er oft og tíðum mjög ýktur. Sumir af þeim sem eiga mestu peningana eru ekki í löglegri starfsemi. Þegar við tölum um austurevrópskar mafíur þá erum við að tala um alvöru mafíur. Undirheimarnir í Búlgaríu eru ekki eins og undirheimar Íslands og sumt er eins og það sé klippt út úr bíómynd. En þó að það hafi á köflum verið skrautlegt að vera innan um þessa hluti getur það líka verið mjög skemmtilegt.“

Ásdís segir að mjög margt hafi breyst á undanförnum árum í Búlgaríu og að höfuðborgin sé orðin mun vestrænni en hún var. Það sé fjöldi viðburða um alla borg og frábærir veitingastaðir og kaffihús á hverju strái. Þó að hún hafi ferðast um allan heim og búið víða, kann hún hvergi betur við sig en í Sofiu. 

 „Mér finnst Búlgaría stórkostlegt land og ég elska Búlgaríu. Mér hefur alltaf liðið vel þarna og var meðtekin af samfélaginu strax og hef alltaf upplifað almenna velvild frá fólki.“

„Ég vil trúa því að hún sé enn á lífi“

Það er augljóst að Búlgaría er orðin stór hluti af Ásdísi og að hún sér fyrir sér að vera áfram með annan fótinn þar. Eitt af því áhugaverðara og erfiðara sem Ásdís upplifði í Búlgaríu var þegar ein besta vinkona hennar, Ruja Ignatova, hvarf sporlaust árið 2017, eftir að hafa tengst fjársvikamáli sem vakti heimsathygli. Ruja var, þegar hún hvarf, orðin milljarðamæringur í gegnum rafmyntina OneCoin. Ásdís og Ruja voru í miklu sambandi allt þar til daginn sem sú síðarnefnda hvarf sporlaust og ekki hefur spurst til hennar síðan.

 „Við höfðum verið vinkonur alveg frá árinu 2009 og þekktumst mjög vel. Hún fjárfesti í fyrsta fyrirtækinu mínu í Búlgaríu og við urðum fljótt góðar vinkonur. Hún var alltaf vel stæð, en undir það síðasta var hún orðin milljarðamæringur og líf hennar hafði breyst samkvæmt því. Ég var með henni síðustu tvo mánuðina áður en hún hvarf og þá vildi hún ekki umgangast nema örfáa. Þá vorum við mest við Svartahafið, þar sem hún var með risastóra snekkju á fjórum hæðum. Þó að ég hafi auðvitað ekki haft hugmynd um hvað var í vændum, fann ég undir það síðasta að hún var orðin mjög skrýtin og slæm í skapinu. Ég hélt að hún væri bara orðin þunglynd og buguð af álagi, af því að vera að stjórna þessu öllu alein. Hún var orðin mjög vör um sig og óttaðist að fólk væri á eftir henni, en ég hélt að það væri bara af því að hún var orðin svo rosalega rík og í Austur- Evrópu eru miklu fleiri hættur fyrir ríkt fólk. En svo hvarf hún bara og ég hef ekkert heyrt frá henni síðan, né nokkur annar í kringum hana.“

 Heimsathygli

Mál Ruju hefur vakið heimsathygli og auk fjölda blaðagreina stendur yfir vinna að bæði heimildamyndum og -þáttum um málið í heild. Fjölmiðlar í Bretlandi og víðar hafa fengið Ásdísi í viðtöl vegna málsins. 

 „Það er kannski ekki skrýtið að fjölmiðlar og þáttagerðamenn vilji fá mig í viðtöl af því að ég er nánast sú eina sem umgekkst hana mikið sem er ekki í fangelsi. Hún treysti ekki mörgum og ég var ein af örfáum sem hún hleypti nálægt sér. Ég hef fengið mjög margar fyrirspurnir frá fjölmiðlum um allan heim, alveg síðan hún hvarf. Fyrr á árinu var ég í tökum vegna heimildaþátta um hana og OneCoin-ævintýrið allt saman. Ég reikna með að það komi bæði stórir heimildaþættir og bíómynd um málið í haust og á næsta ári.“

 

Ásdís og Ruja voru mjög nánar og Ásdís vonar að sjálfsögðu að vinkona hennar sé á lífi, en eftir því sem tíminn líður verður það sífellt ólíklegra.

„Ég vil auðvitað trúa því að hún sé á lífi, en úr því sem komið er virðist það mjög ólíklegt. Það hefur enginn sem var í kringum hana heyrt neitt síðan hún hvarf, hvorki ég né aðrir.“

 Byrjaði í viðskiptum sem unglingur

Áður en Ásdís flutti til Búlgaríu hafði hún tekið þátt í fjölda verkefna hér heima og iðulega var hún sjálf drifkrafturinn á bak við alls kyns viðburði, vörulínur og fleira. Við færum talið frá Búlgaríu aftur að Íslandi og ég spyr Ásdísi út í öll þau fjölmörgu verkefni sem hún hefur tekið þátt í og komið sjálf af stað. Hún segist í raun hafa verið frumkvöðull og viðskiptakona allar götur frá því að hún var unglingur.

 „Ég hef verið viðloðandi viðskipti frá því að ég var 17-18 ára gömul. Þá byrjaði ég að sjá um alls konar viðburði og síðan stofnaði ég fyrirsætuskrifstofu út frá því. Ég hef alltaf verið með mikið sjálfstraust og þorað að fara mínar eigin leiðir og ganga á eftir því sem ég vil. Ég sé það núna að það var líklega meira hugrekki og kraftur í mér en flestum jafnöldrum mínum á þessum tíma. Það var alltaf mikill eldmóður í mér og hausinn á mér oft að springa úr hugmyndum. Ég man að ég tók þátt í keppni um viðskiptaáætlanir þegar ég var 16 ára hjá Iðntæknistofnun og í kjölfarið hringdi ég í viðskiptafólk víða um bæinn og bað um fundi hingað og þangað. Sumum fannst skrýtið að sjá stelpu á þessum aldri með viðskiptahugmyndir, en almennt fann ég að fólk virti mig fyrir hugrekkið og mér var yfirleitt alltaf tekið vel.“

Ásdís hefur um árabil verið á milli tannanna á fólki á Íslandi. Hún er sjálf orðin mjög vön því, en segir að stundum hafi hún þurft að hugsa sig tvisvar um vegna fólksins í kringum sig. Það tók hana til dæmis talsverðan tíma að taka ákvörðun um að sitja fyrir á forsíðu Playboy.

„Ég var með tilboð frá Playboy á borðinu í tvö ár, áður en ég ákvað loksins að kýla á það. Þá var það Garðar sem hvatti mig til þess. Ég hafði verið hikandi, ekki síst vegna þess að ég var að hugsa um fjölskylduna mína, vegna þess að ég vissi að það yrði mikið umtal um þetta á Íslandi. Það að fá athygli fyrir hluti eins og þessa snýst ekki bara um mann sjálfan. Enda kom það á daginn að það varð hálfgerð sprenging í fjölmiðlunum hérna heima þegar ég lét verða af því að sitja fyrir hjá Playboy. En svo venst þetta og núna eru líklega flestir orðnir vanir því að ég búi til einhverjar fjölmiðlasprengjur á Íslandi,“ segir Ásdís og brosir.

 Ég er bara ekki með filter

Hún segist aldrei meðvitað hafa gert í því að vera umdeild. Hún telur að það stafi frekar af því að hún segi skoðanir sínar umbúðalaust og hafi alltaf gert. Hún segir það einfaldlega vera hennar stíl og að það sé ekki að fara að breytast í bráð.

 „Ég er bara ekki með filter og mér er alveg sama. Ég vil koma til dyranna eins og ég er klædd og ég hef alltaf verið þannig. Ef einhver þarf að tala illa um mig þá verður bara að hafa það, ég ætla ekki að fara að ritskoða mig,“ segir hún og er örlítið hugsi yfir því hvers vegna fólk hafi svo mikla þörf á að tala aðra niður.

 „Mér hefur alltaf fundist skrýtið hve margir á Íslandi hafa þörf fyrir að tala niður fólk sem það þekkir ekki. Kannski er það smæðin, en á Íslandi er að mínu mati of algengt að fólk vilji gera lítið úr þér, alveg sama hvað þú ert dugleg eða stendur þig vel. Þú færð ekki viðurkenningu fyrir þín störf fyrr en þú gerir eitthvað erlendis. Þá allt í einu breytist stemmingin og ég fann það mjög vel eftir að ég fór að gera góða hluti í öðrum löndum. Ég er ekki að vorkenna sjálfri mér og veit að það er mjög margt frábært fólk hér og ég á að margt fólk sem vill mér vel. En ef þú vekur athygli á Íslandi er mjög algengt að fólk vilji troða ofan á þér og tala þig niður,“ segir Ásdís og bætir við að hún finni mun á kynjunum.

 „Karlarnir eru meira „líbó“, en íslenskar konur hafa dáldið mikið verið að hafa sterkar skoðanir á mér og oft neikvæðar.“

 

Íslenskir karlmenn hræddir við mig

En þó að Ásdís segi íslenska karlmenn vera jákvæða í hennar garð, telur hún að þeir séu upp til hópa á einhvern hátt hræddir við hana. Hún hlær þegar talið berst að íslenskum karlmönnum.

„Það er ólíklegt að ég finni mann á Íslandi, en maður veit svo sem aldrei. Kannski á ég eftir að kynnast einhverjum frábærum íslenskum manni og stofna með honum fjölskyldu. Þá mun ég kannski vilja búa hér allan ársins hring. En ég sé það og finn, að þeir eru oft hræddir við mig. Kannski finnst þeim ég vera of mikið, eða að þeir séu ekki nógu góðir eða ríkir fyrir mig. En ég ætla ekki að alhæfa um íslenska karlmenn og kannski er þetta meira af því að ég er búin að vera áberandi í gegnum tíðina og það er kannski bara of mikið fyrir flesta. Ég er líka sterkur persónuleiki,“ segir Ásdís og brosir.

Ævisagan

Þessi öfluga athafnakona hefur lifað fjölbreyttu lífi og séð og upplifað hluti sem fæstir sjá. Það liggur því beint við að spyrja hana hvort það sé ekki von á ævisögu. 

„Það hafa margir leitað til mín í gegnum tíðina með þá hugmynd og ég er ekki frá því að núna gæti rétti tíminn verið að renna upp. Ég er búin að vera með það á bak við eyrað í talsverðan tíma að skrá ævisögu mína og ætlaði alltaf að láta vaða í kringum fimmtugt. Nú er ég orðin 42 ára, þannig að kannski fer að koma að þessu. Ég veit í það minnsta að þegar ég læt skrifa ævisöguna ætla ég ekki að draga nokkuð undan. Þá koma öll ævintýrin á borðið og mikið af hlutum sem hafa aldrei komið upp á yfirborðið. Þó að ég hafi farið í öll þessi viðtöl í gegnum tíðina, þá er mjög mikið eftir sem fólk veit ekki og ég hef ekki gefið upp hingað til. Öll ástarævintýrin og sögur af þekktu og ríku fólki. Ég er nú ekki illgjörn manneskja, en það verða örugglega einhverjir stressaðir áður en bókin kemur út,“ segir Ásdís og hlær.

Myndi deyja sátt 

Það er komið að lokum á spjalli okkar Ásdísar og við endum á að horfa yfir þennan langa og fjölbreytta feril með alls kyns ævintýrum og uppákomum. Þegar Ásdís lítur yfir farinn veg er henni efst í huga þakklæti yfir því hve margt hún hefur fengið að upplifa og hún segist ekki sjá eftir neinu.

„Mér finnst mikilvægast þegar maður horfir til baka, að geta sagt að maður hafi fengið tækifæri til að upplifa draumana sína. Ég get svo sannarlega sagt það um sjálfa mig. Ég er búin að gera nánast allt sem mig hefur langað að gera í gegnum tíðina. Ef ég myndi drepast á morgun myndi ég deyja sátt.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -