Ísey nokkur rakst á heldur betur hlýja kveðju þegar hún skaust í Bónus í gær. Þar skipti hún bók sem hún hafði fengið í jólagjöf en í þeirri sem hún fékk sér í staðin leyndist falleg áritun.
Frá þessu greinir Ísey í hópi Breiðholtsbúa á Facebook. „Hæhæ. Ég fór í Bónus í Lóuhólum í dag til að skipta bók sem ég hafði fengið tvær af og fékk aðra bók, sem væri svo sem ekki frásögu færandi nema að þegar ég ætla að fara að lesa þá er þetta skrifað inní bókina. Kannast einhver við þetta? Grunar að fyrri eigandi vilji geyma svona hlýja kveðju,“ segir Ísey.
Áletrunin sem í bókinni er að finna er falleg kveðja frá barnabarni til afa sín og með kveðjunni fylgir falleg teikning frá barninu. Kveðjan er svohjóðandi: „Til Afa Baldurs. Frá Eydísi Hildi. Ég elska þig afi minn.“