2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ísland – án jarðefnaeldsneytis árið 2030

Loftslagsbreytingar eru stærsta ógn mannkyns. Þetta sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guerres, í mars á þessu ári á meðan hann velti því upp hversu margar neyðarbjöllur þyrftu að hringja til að heimurinn tæki almennilega við sér.

Nei, ekki kjarnorkustríð, borgarastyrjaldir eða hungur – heldur loftslagsbreytingar. Og enn heldur jörðin áfram að gefa sterk merki – sem fleiri villieldar, fellibyljir og hitabylgjur á þessu ári bera vott um. Texti Utangarðsmanna í laginu Hírósíma virðist ekki svo fjarlægur veruleiki þegar spár vísindamanna um 3° og 4° hlýnun jarðar eru skoðaðar.

Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og hefur verið staðfest í mörgum athugunum frá miðbiki síðustu aldar. Áhrif þess eru margvísleg, t.d. breytingar á veðurfari – aukið átakaveður, þurrkar, villieldar og breytingar á vindafari, súrnun sjávar og hækkun sjávarmáls. Loftslagsbreytingar munu stofna fæðuöryggi og heilsu í hættu á mörgum svæðum heimsins. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sendi út viðvörun í október enda hafa stjórnmálin tekið hægt við sér. Kallað var eftir tafarlausum aðgerðum til að takmarka losun ef markmið Parísarsamkomulagsins um 1,5°C hlýnun frá ársmeðalhita frá iðnbyltingu á að standa. Samkvæmt Parísarsamkomulaginu hafa 197 ríki heims, m.a. Ísland, skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að halda hnattrænni hlýnun jarðar frá iðnbyltingu undir 2° en undirmarkmið var 1,5°.

Notkun jarðefnaeldsneytis veldur skaðanum

Rannsóknir hafa leitt í ljós að notkun á jarðefnaeldsneyti – olíu, kolum og gasi – hefur  valdið mestri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eða 80% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum á árunum 1970 til 2010. Þessir orkugjafar losa koltvísýring út í andrúmsloftið og aukinn styrkur hans í andrúmsloftinu veldur því að hitastig jarðar hækkar. Jarðefnaeldsneyti heldur áfram að vera meginorkugjafinn í heiminum og þrátt fyrir fjölbreyttar áætlanir ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda jókst losun vegna jarðefnaeldsneyta um 1 gígatonn á ári frá 2000-2010. Talið er að aðeins um 100 alþjóðafyrirtæki séu ábyrg fyrir 71% af losun frá 1988. Þar af er talið að 25 fyrirtæki beri ábyrgð á helmingi losunar, eða 50%. Ljóst er að iðnaður og fyrirtæki sem nota jarðefnaeldsneyti bera mikla ábyrgð, en jafnframt við sem neytendur.

AUGLÝSING


Í vikunni kom út skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að heimurinn þurfi að þrefalda áætlanir um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis til að halda sig við markmið um 2° hlýnun ella verði afleiðingarnar hörmulegar. Skuldbindingum Parísarsamkomulagsins verði ekki mætt nema komi til viðbótaraðgerða.

Á Íslandi mun áhrifa einna helst gæta af ýmiskonar náttúruvá – breytingum á jöklum, vatnafari og sjávarstöðu. Í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga hér á landi er bent á aukna flóða- og rigningarhættu sem og að rýrnun jökla geti leitt til breytinga á jökulhlaupum og aukið kvikuframleiðslu undir Íslandi. Taka þurfi tillit til þess við áhættumat vegna eldgosa. Fyrst og fremst er þörf á auknum rannsóknum enda áhrif hlýnandi loftslags á veðurfar ekki ljós, svo sem á aftakaveður eða lægðagang. Súrnun sjávar er þó hraðari á okkar hafsvæði en víða annars staðar, sem hlýtur að valda áhyggjum, m.a. vegna áhrifa á sjávarútveg.

Áætlun ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin birti aðgerðaráætlun í loftslagsmálum í september síðastliðnum. Markmið áætlunarinnar er að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu árið 2030 og ná kolefnahlutleysi árið 2040. Draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda einkum með tveimur verkefnum, með orkuskiptum í samgöngum og með endurheimt votlendis, bindingu kolefnis með landgræðslu og skógrækt. Útfösun jarðefnaeldsneytis er langtímamarkmið og ekki á að hætta notkun fyrr en eftir 32 ár, eða árið 2050.

Meira og minna allur iðnaður á Íslandi losar gróðurhúsalofttegundir. Vélar og tæki í byggingariðnaði, losun á sér stað við meðferð úrgangs, í landbúnaði og frá iðnaðarferlum vegna stóriðju. Þá er losun talsverð í flugsamgöngum og skipaflutningum. Innan skipaflutninga hefur losun hins vegar dregist saman með loftslagsvænni skipastarfsemi, losun hefur staðið í stað í landbúnaði en aukist vegna stóriðju og flugsamgangna.

Fossil free Iceland 2030

Á miðvikudaginn stóð Sænsk-íslenska viðskiptaráðið fyrir ráðstefnu í Háskólabíói undir yfirskriftinni: Fossil free Iceland 2030 – Ísland án jarðefnaeldsneyta. Áhersla var lögð á orkuskipti í vegasamgöngum og rafvæðingu bílaflotans. Efni ráðstefnunnar rímar við verkefni stjórnvalda um að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum, en eins og yfirskriftin ber með sér er lagt til að gengið sé lengra og markmiðið sett hærra. Framsögumenn voru frá Íslandi, þar með talið samgönguráðherra, og frá Svíþjóð. Svíar eru rísandi stjörnur í rafbílaheiminum, ásamt Noregi, en samspil framsýnnar stefnumótunar og hagfelldra markaðsskilyrða hefur unnið þeim þann titil. Mikil áhersla hefur verið á tækniþróun fyrir rafrænar vegasamgöngur og fyrirtæki eins og Scania eru leiðandi í heiminum með hybrid-strætisvagna og -vörubíla. Í þeirri áskorun sem aðlögun vegna loftslagsbreytinga eru fyrir heiminn felast líka tækifæri, eins og fram kom á ráðstefnunni.

Meðal þeirra sem tóku til máls á ráðstefnunni Fossil free Iceland 2030 – Ísland án jarðefnaeldsneyta var Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Mynd / Hákon Davíð

Í júní á þessu ári sagði umhverfisráðherra: „Rafbílar gætu orðið næsta stóra byltingin í samgöngu- og loftslagsmálum hér á landi“. Á ráðstefnunni kom fram að á Íslandi eru góðar forsendur til rafbílavæðingar sem og talsverður efnahagslegur ávinningur. Í fyrsta lagi er talið að rafvæddur bílafloti noti aðeins lítið magn af framleiddu rafmagni hér á landi. Um 280 þúsund bílar eru skráðir á Íslandi en mögulega muni þeir aðeins nota um 3% af framleiddu rafmagni. Í öðru lagi getur landið orðið með öllu óháð innflutningi á olíu vegna vegasamgangna, en það mun skila efnahagslegum ávinningi í formi gjaldeyristekna og hafa jákvæð áhrif á vöruskiptajöfnuð. Notkun rafbíla mun ennfremur auka loftgæði með því að draga úr mengun. Innviðauppbygging þarf að eiga sér stað samhliða en nú þegar hafa hraðhleðslustöðvar verið settar upp við hringveginn og þá má jafnframt huga að mörgum nýsköpunartækifærum svo sem varmaskiptastöðvum sem taka inn á sig heitt vatn og breyta því í rafmagn. Fyrir nokkrum dögum var það svo staðfest af Evrópsku umhverfisstofnuninni að m.t.t. líftíma og framleiðslu eru rafbílar mun umhverfisvænni. Það á ekki einungis við í tengslum við losun gróðurhúsalofttegunda heldur einnig til að draga úr mengun, sem er ekki síður skaðleg umhverfinu.7

Ísland hefur reynslu af umfangsmiklum orkuskiptum, þegar átak var gert í orkuskiptum við húshitun á 20. öld sem var framfaraskref í átt að betri lífskjörum og sjálfbærara samfélagi. Af öðrum mögulegum ávinningi er ímynd Íslands – öll orka í daglegu lífi Íslendings yrði fengin af endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sala rafbíla hefur aukist talsvert á Íslandi og hlutfall endurnýjanlegrar orku í vegasamgöngum hér á landi er nú 7,7%. Stjórnvöld hafa stutt við þessa þróun með ívilnunum, þ.e. með afslætti af virðisaukaskatti þegar keypt eru slík farartæki. Markmið íslenskra stjórnvalda er nú að hlutfall endurnýjanlegrar orku verði 40% árið 2030 og að nýskráningar bensín- og díselbíla verði óheimilar það ár. Þetta á að minnka losun frá vegasamgöngum um 35% árið 2030 sé miðað við árið 2005. Til samanburðar hefur norska þingið sett markið á að allir nýir bílar losi ekkert árið 2025. Í Noregi er meirihluti keyptra nýrra bíla nú rafmagnsbílar. Í Svíþjóð er gengið enn lengra og miðað við að minnka losun um 70% í vegasamgöngum miðað við 2030.

Mynd af vef Hagstofu Íslands.

Forsendur fyrir orkuskiptum í samgöngum hér á landi eru góðar með tilliti til smæðar landsins og aðgengi að orku. Stjórnvöld eiga að setja markið hærra hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku í vegasamgöngum, ef milljónalönd eins og Noregur og Svíþjóð geta það, getum við það líka. Nýjustu fréttir úr alþjóðasamfélaginu styðja það markmið og nýlegar tölur Hagstofunnar bera jafnframt vott um að einstaklingar á Íslandi losi mestan koltvísýring í Evrópu. Í samræmi við yfirskrift ráðstefunnar – skal stefnan sett á Rafmagnað Ísland 2030.

Loftslagsbreytingar eru eitt umfangsmesta verkefni sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag og hefur áhrif á alla þætti samfélags, svo sem lifnaðarhætti, atvinnugreinar, efnahag og náttúru. Tökum það verkefni föstum tökum. Í vegasamgöngum er dauðafæri til að gera enn betur.

Sjá einnig: Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is