Sunnudagur 15. september, 2024
6.1 C
Reykjavik

Íslenskir farþegar strandaglópar erlendis – Ferðaskrifstofan Farvel ehf. hætt starfsemi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

20 ferðalangar á vegum ferðaskrifstofunnar Farvel ehf. eru nú strandaglópar í Thailandi eftir að ferðaskrifstofuleyfi Farvel ehf. var fellt niður.  Samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu er ástæðan sú að þrátt fyrir margar ítrekanir hefur Farvel ehf. ekki skilað hækkaðri tryggingu til Ferðamálastofu eins og þeim bar skylda til lögum samkvæmt. Að endingu var Ferðamálastofu nauðugur kostur að grípa til þess úrræðis að fella ferðaskrifstofuleyfi Farvel ehf. niður.

Fólkið er nú á eigin vegum erlendis og þarf að koma sér á eigin kostnað heim, og líklegt er að hótelkostnaður sem ferðamennirnir voru búnir að greiða til Farvel ehf. muni lenda aftur á þeim, það er að fólkið þarf að greiða hótelkostnaðinn tvisvar.

„Þetta er svakalegt rugl,“ segir fjölskyldufaðir sem staddur er í Thailandi í samtali við Mannlíf. Hann og fjölskylda hans, fjögur samtalas, greiddu 1.340.000 krónur fyrir ferðina með flugi og hóteli í þrjár vikur.

„Fólk situr nú uppi með sárt ennið og þarf að kaupa sér flug á 128 þúsund á mann og líklegt er að stór hluti hótelkostnaðar lendi á fólki aftur,“ segir hann, en samtals eru 20 manns í ferðinni á vegum Farvel ehf.

Hér má lesa tilkynningu á vef Ferðamálastofu.

Fengu upplýsingar fyrir hálftíma síðan 

- Auglýsing -

Ferðamennirnir fengu tölvupóst klukkan 14:00 í dag að íslenskum tíma frá Ferðamálaskrifstofu þar sem þeim var tilkynnt um málið. Tölvupósturinn var sendur á tengilið hópsins, sem kom upplýsingum áfram til farþega. Lesa má hann í heilu lagi hér fyrir neðan.

Þegar heimasíða Farvel er opnuð eru engar upplýsingar þar að finna, síðan liggur niðri eða hefur verið lokað. Facebook-síða Farvel er enn þá opin, og samkvæmt henni eru áfangastaðir fleiri en Thailand.

Hér fyrir neðan má sjá tölvupóstinn í heilu lagi:

- Auglýsing -

Tölvupóstur þessi er sendur á tengiliði hópa sem eru erlendis á vegum ferðaskrifstofunnar Farvel ehf. Tengiliðirnir eru vinsamlegast beðnir um að koma eftirfarandi upplýsingum til sinna ferðafélaga.

Ferðamálastofu þykir leitt að tilkynna að ferðaskrifstofuleyfi Farvel ehf., hefur verið fellt niður þar sem fyrirtækið uppfyllir ekki lengur lagaskilyrði fyrir starfsemi sinni og er starfsemi því hætt. Þeir sem nú þegar eru erlendis á vegum ferðaskrifstofunnar eru því á eigin ábyrgð.

Samkvæmt upplýsingum frá Farvel ehf. hefur ferðaskrifstofan ekki greitt flugfélögunum fyrir heimferð þína/ykkar. Því miður reynist Ferðamálastofu ekki unnt að koma fólki heim og verða farþegarnir því sjálfir að sjá um að kaupa sér heimflug. Fyrir þeim kostnaði geta farþegarnir gert kröfu til Ferðamálastofu í tryggingarfé Farvel ehf. þegar heim er komið.

Það er búið er að taka frá fyrir þig/ykkur sæti í gegnum ferðaskrifstofuna Vita fyrir þá sem vilja nýta sér þeirra þjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá Vita mun fargjaldið kosta kr. 128.000 per farþega. Þeir sem vilja geta bókað og greitt flug í gegnum Soffíu Helgadóttur hjá ferðaskrifstofunni Vita að öðrum kosti verða þeir að sjá sjálfir um að koma sér heim. Hægt er að bóka flugið í gegnum netfangið [email protected] eða í síma 570-4461. Svarað er í síma dagana 23., 27., 30. desember og 2. og 3. janúar.

Einnig kann að vera að einhverjir farþegar verði rukkaðir um greiðslu vegna hóteldvalar þar sem Farvel ehf. hefur ekki greitt fyrir hótelgistingar að fullu. Fyrir þeim kostnaði geta farþegarnir gert kröfu til Ferðamálastofu í tryggingarfé Farvel ehf. þegar heim er komið.

Ástæða niðurfellingarinnar er að þrátt fyrir margar ítrekanir hefur Farvel ehf. ekki skilað hækkaðri tryggingu til Ferðamálastofu eins og þeim bar skylda til lögum samkvæmt. Að endingu var Ferðamálastofu nauðugur kostur að grípa til þess úrræðis að fella ferðaskrifstofuleyfi Farvel ehf. niður. Þar sem Farvel ehf. hefur ekki skilað inn hækkaðri tryggingu, í samræmi við vaxandi umsvif fyrirtækisins, liggur ljóst fyrir að einungis mun vera hægt að greiða lítið hlutfall af þeim kröfum sem áætlaðar eru að muni berast í tryggingu þá sem Farvel ehf. hefur hjá Ferðamálastofu. Farþegar eru því hvattir til að kanna samhliða rétt sinn hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.

Frestur til að setja fram kröfu er 8. mars n.k.

Krafa í tryggingarfé er send inn í gegnum þjónustugátt á vef Ferðamálastofu www.ferdamalastofa.is. Skráning fer fram með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Með kröfunni þarf að senda gögn sem sýna fram á kaup pakkaferðar þ.e.a.s. kvittanir fyrir greiðslu, farseðla, pakkaferðasamninginn eða hvers kyns ferðagögn. Kröfur sem ekki eru studdar fylgigögnum verða ekki teknar til greina. Kröfur sem berast eftir að kröfulýsingafresti lýkur eru ekki teknar til greina.

Fyrst þegar kröfulýsingarfresturinn er liðinn er hægt að taka afstöðu til allra krafna. Öllum kröfuhöfum er svarað formlega. Ákvarðanir Ferðamálastofu lúta ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að öðru leyti en að ofan greinir er farþegum bent á að kanna tryggingar sínar hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.

Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu. Viðbótarupplýsingar verða sendar í tölvupósti á tengiliði og einnig birtar á vef stofnunarinnar www.ferdamalastofa.is þegar og ef þær liggja fyrir.

Með kveðju

Starfsfólk Ferðamálastofu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -