Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Jakob Bjarnar sakar Rúv um spillingu: „Þarna eru auðvitað samansúrruð hagsmunatengsl“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður og fyrrum Kátur piltur, skýtur föstum skotum á Ríkisútvarpið í pistli á Face­book í gær. Veltir hann því fyrir sér hvort það geti verið eðlilegt að dagskrárgerðarmenn starfi samhliða sem tónlistarmenn á kvöldin.

„Fæstum þætti eðlilegt ef ég starfrækti veitingastað á kvöldin en fjallaði sem blaðamaður um veitingageirann vítt og breytt á daginn. Og gæfi mig út fyrir að vera faglegur í því. En þetta er nákvæmlega sambærilegt við það sem er að gerast hjá Ríkisútvarpinu og hefur tíðkast lengi. Þar eru ýmsir dagskrárgerðarmenn sem samhliða starfa sem tónlistarmenn á kvöldin. Þarna eru auðvitað samansúrruð hagsmunatengsl,“ skrifar Jakob Bjarnar.

Hann heldur áfram.
„Ef á að vera hægt að verja þennan ríkisrekstur á samkeppnisvettvangi þá verður stofnunin að vera fagleg. En það er hún auðvitað ekki og skákar í því skálkaskjólinu að Íslendingar eru prinsipplaus þjóð. Auðvitað er þetta ekkert stórmál í hugum flestra en ef við föllumst á að þetta sé í góðu lagi hvernig á þá að vera hægt með góðu móti að gagnrýna spillingu þegar meiri sameiginlegir hagsmunir eru undir? Prinsipp eru ekki umsemjanlegt fyrirbæri, eða spurning um hvar á að setja línuna. (Ég geri ekki ráð fyrir að fá mörg læk á þennan status ef nokkurt — hún verður alltaf þykk þögnin þegar ég impra á þessu.)“

Færslan hefur vakið hellings viðbrögð en í athugasemdum má finna þó nokkra nafntogaða einstaklinga.

Egill Helgason skrifaði stutta spurningu til Jakobs. „Svavar Gests?“ Jakob svaraði að bragði. „Eins og hann Ingi í Borgarnesi sagði; þetta hefur alltaf verið gert með rassgatinu og enginn gert athugasemdir við það. Við getum nefnt fjöldann allan af tónlistarfólki sem hefur gert góða hluti í útvarpi og sjónvarpi. Elskaða dagskrárgerðarmenn. En þetta stenst því miður ekki skoðun.“ Egill spyr þá um Jools Holland. „Egill einn uppáhalds þáttur minn í sjónvarpi er Af fingrum fram með Jóni Ólafssyni. Þetta snýst ekki um hvað mér þykir skemmtilegt,“ svaraði Jakob að bragði.

Bubbi Morthens tekur undir með Jakobi Bjarnari en hann var á tímabili með útvarpsþættina Færibandið á Rás 2.

- Auglýsing -

Villi Goði kemur einnig með innlegg í umræðuna. „Svo hefur verið athyglisvert að fylgjast með í gegnum tíðina hvernig einstaka útvarpsmaður hefur tekið íslenska tónlist úr spilun af persónulegum ástæðum. Ekki fílað bandið af einhverjum ástæðum. Ekki fengið að koma baksviðs eða bara alltaf verið í nöp við fólk sem hefur hæfileika í tónlist sökum eigin vanhæfni á því sviði. Ætti ekki að vera einhversskonar regla hjá RUV um að allir íslenskir tónlistarmenn fái reglulega spilun hjá útvarpinu sem við greiðum öll nefskatt? Burtséð frá því hvað einstaka bitrum útvarpsmanni finnst.“

Ekki eru þó allir sammála Jakobi en Ólafur Páll Gunnarsson eða Óli Palli eins og hann er kallaður, útvarpsmaður og forseti Popplands svarar Jakobi og heldur uppi vörnum fyrir Ríkisútvarpið. „Ég hef bara þetta að segja sem opinber starfsmaður Ríkisútvarpsins. Við sem þar störfum erum fyrst og fremst að vanda okkur við að gera gott útvarp fyrir sem flesta. Það er örugglega margt sem er hægt að gera betur en okkur tekst í dag en það er engin spilling – ekkert samsæri – enginn klíkuskapur og ekkert slíkt. Við erum opinberir starfsmenn og högum okkur samkvæmt því. Það vilja allir meiri spilun en þeir fá – það er staðreynd.

Þið sem gagnrýnið mest – hafið þið kynnt ykkur dagskrána á Rás 2? Hlustið þið virkilega á Rás 2? Vitið þið um alla póstana sem við erum með til að kynna íslenska tónlist? Og hver raunverulegur munur er á Rás 2 og öðrum stöðvum varðandi íslenska tónlist td?
Við erum að gera mikið af góðum hlutum varðandi Íslenska tónlist – allskonar tónlist, en fyrst og fremst þurfum við að sinna eigendum útvarpsins – hlustendum. Það getur ekki verið sjálfsagður réttur fólks sem fæst við það að búa til músík – að hún sé sjálfkrafa spiluð á Rás 2 – það virkar bara ekki þannig. Matur er mis-góður, og það er músík líka. Þetta er ekki allt jafn gott. Ég ber mikla virðingu fyrir tónlistarfólki yfir höfuð og elska tónlist.

Ást og friður í massavís.“

- Auglýsing -

Þessu svarar Jakob Bjarnar fullum hálsi. „Þú ert ekki alveg að skilja mig. Þetta er ekki árás á RÚV. Þetta fjallar um prinsipp, hæfi og trúverðugleika. Hæfishugtakið snýst ekki endilega um að þú sért að misnota aðstöðu þína beint eða óbeint heldur hvort þú sért í aðstöðu til þess.“

Óli Palli lætur sér hvergi bregða og svarar Jakobi um hæl. „Eru ekki lög og reglur til að passa uppá að við mannfólkið höldum okkur innan ramma og högum okkur ekki eins og skepnur? Erum við ekki alla daga í allskyns aðstöðu til að gera þetta og hitt – en gerum það ekki vegna þess að reglur samfélagsins banna það. Hættu þessu rugli Jakob og settu Band on the Run á fóninn.“

Þorsteinn Hreggviðsson, starfsmaður Rúv veitir góða innsýn inn í störf Rúv þegar kemur að þessum málum. „Sem starfsmaður á Rás 2 þá verð ég að segja þér það er mikið hugsað um þetta hér á bæ, enda smá hausverkur meðal annars vegna svona umræðu sem er sjálfsögð. Í hvert skipti sem starfsmaður/kona er að gefa út lög þá þurfa að vera sterkari rök um að taka þau í spilun en gilda um tónlistarefni frá öðru tónlistarfólki. Ef fólk er tengt þá víkur það af tónlistarfundum meðan ákvörðun er tekin um það lag.“

Þessi pistill Jakobs hefur sem sagt vakið talsverða athygli og viðbrögðin eru mikil enda ekki í fyrsta skipti sem Jakob hristir upp í hlutunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -