Miðvikudagur 5. október, 2022
4.8 C
Reykjavik

Jenný Anna er látin: „Ég er breysk manneskja. Ég er fljótfær, kjaftfor.“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Jenný Anna Baldurs­dóttir er látin. Hún var þjóðfélagsrýnir og í hópi vinsælustu bloggara landsins. Jenný Anna var 69 ára er hún lést. Jenný Anna skrifaði lengi hugrenningar sínar þegar Eyjan.is var sá miðill sem var miðstöð pólitískrar umræðu á netinu. Jenný Anna lýsti sér sjálf með eftirfarandi orðum:

„Ég er breysk manneskja. Ég er fljótfær, kjaftfor, hugsa stundum (og skrifa líka) áður en ég tala og þarf reglulega að biðjast afsökunar á brestum mínum þegar ég missi mig við allskonar tækifæri. Þá er það frá – allir eru mannlegir og jadíjadída.“

Jenný notaði þessa mynd ítrekað sem höfundamynd á blogginu

Jenný Anna hóf ferill sinn sem bloggari á vef Morgunblaðsins. Jenný Anna var óhrædd við að tjá óvinsælar skoðanir og á endanum varð hún vinsælasti bloggarinn á vef Morgunblaðsins.

Þá ákvað Jenný Anna árið 2009 að sölsa um og færa sig á Eyjuna. Ákvað Jenný að flytja sig um set eftir að Davíð Oddsson var gerður ritstjóri Moggans.

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá að þessi merka kona sé fallin frá. Þar segir:

Okkar ástkæra eiginkona, móðir, tengdamóðir og amma, JENNÝ ANNA BALDURSDÓTTIR, Herjólfsgötu 38, Hafnarfirði, lést á Landspítala Hringbraut fimmtudaginn 28. janúar. Útför mun fara fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

- Auglýsing -

Einar Vilberg Hjartarson Sara Hrund Einarsdóttir María Greta Einarsdóttir Ari Benóný Malmquist Helga Björk Laxdal Björn Axelsson og barnabörn

Á Eyjunni Var Jenný fljót að skipa sér í hóp vinsælustu bloggaranna. Oft skrifaði hún þar stuttar, snarpar færslur og gagnrýndi þar samfélag sitt og stjórn harðlega. Síðan voru aðrar persónulegri og lengri, þar sem hinn kaldhæðni ritsnillingur opnaði sig um ýmis persónuleg mál.

- Auglýsing -

Annað dæmi um skrif Jennýjar er pistill eins og þessi:

Ég hef ekki bloggað mjög lengi – Só?  Stundum verður maður yfirkominn af því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þolþröskuldurinn hreinlega brast

Staðreyndin er þó sú að ég er lifandi búmmerang, sorrí, ég kem alltaf aftur og aftur og aftur,  og allar yfirlýsingar mínar um annað eru á pari við þegar ég hét öllum mínum fyrrverandi ævarandi tryggð, ég meina það fullkomlega þangað til að ég geri það ekki lengur.

Ég sá mig ekki hafa geðheilsu til að blogga við undirspil öskur Vigdísar Hauksdóttur eða lyga SDG og dugnað hans í að svíkja kosningaloforðin sem hann gaf þjóðinni eins og hann væri með gullstangir í fórum sínum til handa þessari þjáðu og þjónkunarfullu þjóð, sem gleypti kjaftæðið um nánast fullkominn heim, bara ef þjóðin kysi hann.

Áfallið yfir að landsmenn mínir gleyptu þessa snákaolíu hráa var þó verst.

Halló, þegar við kusum voru 4 ár frá hruni og allir alveg: Helvítið hann Steingrímur og Jóhanna sem að sögn hrunflokkanna settu þjóðina á höfuðið.

Jóhanna,  Steingrímur J og þeirra samstarfsmenn eru örugglega óvinsælasta ræstingarfólk í heimi.

Talandi um að vera fastur í Fellinibíómynd þar sem aðalleikararnir (á sýru) ljúga eins og sprúttsalar upp á fólkið sem tók að sér að þrífa upp eftir hrunflokkana, sem eru hrunflokkar enn í dag og munu verða þar til þeir gera sjálfa sig upp.

Ég veit ekki hversu oft bloggandinn heltók mig á þessu tímabili – en sú staðfasta kona sem ég er (jeræt) náði áttum og það endaði með því að ég kveikti í lykilorðinu að mínu eðla bloggi svona figúratívt, sjálfri mér til verndar.

Ég kvaldist í hljóði,  bakaði og lærði harðangur og klaustur (rosalega skemmtileg prjónaaðferð).

En nú er ég komin aftur -lesendum eyjunnar til mikillar gleði, jájá, og ætla að láta gossa, bara eins og andinn blæs mér í brjóst.

Það eru einkum tvö mál sem gera það að verkum að tjáningarþörfin er að drepa mig.

Ef það böggar einhvern þá eru útidyrnar hér og Mogginn fæst á öllum betri bensínstöðvum.

Að málunum sem ég mun einhenda mér í að blogga um til að byrja með, nei ekki í dag, ég ætla ekki að fara að blogga doðranta, kommon, er Lekamálið hennar Hönnu Birnu (já hún á það tótallí sko af því hún er ráðherra málaflokksins).

Bullið, barnaskapurinn, vanstillingin, hrokinn og þvælan í SDG sem náði hámarki í viðtali við Gísla Martein í dag, er svo óásættanlegt þegar æðsti maður þjóðarinnar á í hlut, að það er ekki hægt að dansa skottís fram hjá því.

Fyrr myndi ég hætta að reykja, ganga á Esjuna, stunda sjóstund og hefja át á fisklifur.

Takk SDG fyrir að koma mér í bloggham.  Ég vissi að þú ættir eftir að gera eitthvað fyrir mig.

Gísli Marteinn er maður dagsins.  Ég var að gefast upp á GM þeim ljúfa dreng, fannst að þarna færi Familie Journalþáttur, með skoðanabræðrum hans í aðalhlutverki það reyndist sem betur fer ástæðulaus ótti.

Gísli Marteinn, taktu stjórn- og stjórnaraðstöðufólk með þessum hætti líka, sýndu mér og öðrum sem þrá viðtöl þar sem gengið er eftir svörum versus drottninga, að þú sért kominn til að vera svona sem alvöru maður – alltaf, ekki bara gegn andstæðingum þínum í stjórnmálum.

Ég sé ykkur á morgun villingarnir ykkar.  Þið sem viljið halda ykkur frá vondri konu sem rífur kjaft upp á eitthvað á Vigdísi þegar þannig liggur á mér, farið og látið gott af ykkur leiða við að bjarga heiminum,  fara til messu or somþeing.

Æ dónt gif a fokk tú bí onest.

Sí jú.

Jenný Anna yngri

Jenný Anna tjáði sig um feril sinn í viðtali við fjölmiðla árið 2007.

„Ég byrjaði að blogga í febrúar 2007 því þá hafði ég allt í einu svo mikinn tíma. Ég var ný­lega komin úr með­ferð eftir að hafa drukkið á mig sykur­sýki, orðin sjúk­lingur og gat ekki unnið. Ég hafði áður unnið mjög mikið og var nú kyrr­sett heima með þeim af­leiðingum að ég fór að blogga eins og enginn væri morgun­dagurinn.“

Vinsældir Jennýjar má meðal annars rekja til þess að hún kom til dyranna akkúrat eins og hún var klædd. En eins og hún sagði sjálf:

„Ég hef ekkert að fela.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -