Jón Nordal, tónskáld og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, er látinn, 98 ára að aldri. Hann var á meðal virtustu tónskálda Íslands og lætur eftir sig fjöldann allan af perlum á tónlistarsviðinu.
Jón Nordal fæddist í Reykjavík 6. mars 1926 og lést 5. desember s.l. Foreldrar hans voru Ólöf Nordal og Sigurður Nordal prófessor. Systkini hans voru Bera, og Jóhannes. Morgunblaðið segir frá andlátinu og rekur æviferil Jóns.
Jón var skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík á árabilinu 1959 til 1992, auk þess að kenna píanóleik og tónfræði. Sem píanóleikari hélt Jón tónleika hér á landi og erlendis, bæði sem einleikari og í samleik.
Eftir Jón liggja stór hljómsveitarverk og einleikskonsertar, margs konar kammertónlist og einleiksverk, orgelverk, kórlög og stærri kórverk, leikhústónlist, sönglög og fleira. Jón er höfundur laga sem eiga sérstakan sess hjá þjóðinni. Á meðal þekktra laga hans eru „Hvert örstutt spor“ við ljóð Halldórs Laxness og kórlagið og „Smávinir fagrir“ við ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Jón samdi .að lag 14 ára.
Eiginkona Jóns var Solveig Jónsdóttir menntaskólakennari. Hún var fædd árið 1932 og lést árið 2012. Foreldrar hennar voru Þórunn Björnsdóttir og Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn. Börn Jóns og Solveigar eru Hjálmur, Ólöf og Sigurður.