• Orðrómur

Jónína ljóstraði upp um fullkomnasta glæp Íslandssögunnar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Það var á köldum mánudagsmorgni í febrúar 1995 sem ráðist var að tveimur konum, starfsmönnum olíufélagsins Skeljungs, þar sem þær voru á leið að skila inn helgaruppgjöri fyrirtækisins í Íslandsbanka við Lækjargötu.

Um var að ræða þrjá hettuklædda menn og barði einn þeirra aðra konuna í höfuðið með slökkvitæki svo hún féll í götuna og marðist illa. Því næst rifu þeir til sín töskuna með peningunum og voru á örskotsstundu flúnir á á hvítum Saab sem fannst á Ásvallagötu síðar um morguninn. Bifreiðin var stolin og augljóst að reynt hafði verið að kveikja í henni. Í bílnum fannst meðal annars taskan frá Skeljungi en í botni hennar var þjófavarnartæki sem hannað var til að gefa frá sér hljóð og sprauta litarefni á innihaldið við ákveðnar aðstæður. Búnaðurinn reyndist bilaður.

Ræningjarnir komust undan með tæplega 6 milljónir króna.

- Auglýsing -

Sönnunargögn brennd

Síðdegis þann sama dag var lögregla kölluð að fjörunni í Hvammsvík í Kjós þar sem enn brann bál og augljóst var að hefði verið reynt að farga fatnaði, ávísunum og kreditkortanótum. Einnig fannst peningapoki frá Skeljungi. Sumt var þegar brunnið en unnt var að bera kennsl á annað. Meðal annars náðist lífssýni úr fatnaði.

Rannsókn lögreglu var gríðarlega umsvifamikil en gekk erfiðlega þar sem vísbendingar voru litlar sem engar auk þess sem engar upplýsingar var að fá úr hinu íslenska glæpamannasamfélagi. Svo virtist sem ræningjarnir væru því alls ótengdir og hefðu einfaldlega gufað upp að verknaði loknum.

- Auglýsing -

Fljótfærni og dómharka

Tíminn leið og engar nýjar vísbendingar komu fram. Lögregla óttaðist að málið myndi ná tíu ára fyrningartíma. Biðin var starfskonum Skeljungs sérstaklega erfið. Þær höfðu verið nafngreindar á sínum tíma og orðið fyrir miklu áreiti í kjölfarið. Þær voru stöðugt spurðar út í ránið, ekki síst hvort þær hefðu sviðsett það sjálfar. Fljótfærni og dómharka landans tók verulegan toll af þeim eins og fram kom í viðtölum síðar.

Smám saman fékk Skeljungsránið á sig það orð að sennilega yrði það aldrei upplýst. Höfðu sumir á orði að um væri að ræða fullkomnasta glæp á Íslandi.

- Auglýsing -

Árin liðu og margir gleymdu Skeljungsráninu. Það er síðan árið 2001 að þátturinn Sönn íslensk sakamál, sem sýndur var á RÚV, tók málið fyrir og urðu vatnaskil í málinu í kjölfarið. Kona að nafni Jónína Baldursdóttir hafði samband við lögreglu og sagðist vilja greina frá leyndarmáli sem hefði legið þungt á henni.

Vildi ekki byrðina lengur

Jónína sagði fyrrverandi sambýlismann sinn, Stefán Aðalstein Sigmundsson, bera ábyrgð á ráninu. Í viðtali við DV árið 2002 sagði Jónína að Stefán hefði hringt í hana og hefði honum verið mikið niðri fyrir. „Hann sagði mér að hann hefði staðið að þessu ráni í Lækjargötunni og lýsti því fyrir mér að þeir hefðu verið þrír og þetta hefði verið vandlega undirbúið. Þeir biðu þarna eftir stelpunum sem þeir vissu að kæmu um þetta leyti. Þegar þær stoppuðu stukku tveir þeirra á eftir bílnum. Stefán greip með sér slökkvitæki sem var í bílnum og ætlaði að nota það til að sprauta á þær til að skapa ótta. En þegar til kom var tækið bilað og þegar ekkert kom út úr því panikkaði hann og barði eina þeirra. Það hafði ekki staðið til að meiða neinn.“

Ránið var þaulskipulagt. Stefán og samverkamenn hans skiptu yfir í reiðhjól sem fararskjóta eftir að hafa losað sig við Saabinn, hjóluðu hver í sína áttina og hittust við jeppa sem þeir óku í Hvalfjörðinn til að brenna sönnunargögn. Stefán bað Jónínu að fela hans hluta af fengnum sem hún og gerði til skamms tíma og fékk 200 þúsund krónur fyrir. Henni hafði liðið illa með þessa vitneskju. „Ef maður tekur þá stefnu í lífinu að vera heiðarlegur og njóta lífsins þá verður maður að losa sig við svona byrði.“

Jónína var ekki ákærð fyrir yfirhylmingu þar sem hún hafði komið að fyrra bragði til lögreglu og greint skýrt og skorinort frá öllu sem hún vissi um málið.

Handtaka og dómur

Stefán var handtekinn í kjölfarið og játaði hann sinn þátt í ráninu, rakti röð atburða fyrir lögreglu og gekk með þeim flóttaleiðina. Hann gaf einnig lífssýni sem reyndist vera það sama og í fjörunni í Kjósinni. Síðar dró hann játninguna til baka og sagðist hafa verið beittur þrýstingi af hendi lögreglu við skýrslutöku. Dómstólar lögðu ekki trúnað á frásögn Stefáns.

Stefán var dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði árið 2004 og var dómurinn þyngdur um sex mánuði ári síðar fyrir Hæstarétti sem kallaði ránið „þaulskipulagt og ófyrirleitið.” Var þá liðinn áratugur frá ráninu.

Stefán Aðalsteinn var eini einstaklingurinn af þremenningunum sem þurfti að svara til saka fyrir Skeljungsránið þar sem ekki tókst að sanna sök á annan þeirra og hinn þriðji svipti sig lífi fyrir skýrslutöku.

Ránsfengurinn komst aldrei til skila.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Konur eiga ekki að þurfa að vera framúrskarandi til að skipta máli

Íslenskt samfélag hefur heldur betur verið hreystivöllur og fjörefni er kemur að jafnréttismálum enda stórar stikur á...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -