Sunnudagur 8. september, 2024
7.1 C
Reykjavik

Jörð kraumar í „nafla alheimsins“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við Íslendingar erum minntir reglulega á það að náttúran og kraftar hennar láta ekki að sér hæða og hlýða í engu vilja mannanna. Stuttu eftir að hugur allra var með íbúum Flateyrar og Suðureyrar eftir snjóflóð þar, fer land að rísa með látum á Reykjanesskaganum, nánar tiltekið við fellið Þorbjörn, sem er bæjarfjall Grindavíkur. Menn hugsa nú til íbúa bæjarins og þess hverju dyntótt náttúruöflin geta tekið upp á í túnfæti hans.

Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra lýsti yfir óvissustigi vegna landrissins föstudaginn 24. janúar og fylgjast viðbragðsaðilar grannt með stöðu mála allan sólarhringinn.

Útgerðarbær í blóma

Grindavík er einn af öflugri útgerðarbæjum landsins, þar búa um 3500 manns, sem flestir hafa atvinnu af sjávarútveginum eða ferðaþjónustu, m.a. á Keflavíkurflugvelli. Íbúum hefur fjölgað verulega í bæjarfélaginu síðustu ár og hafa ný hverfi byggst upp og önnur eru á skipulagi.

Hinum megin við Þorbjörn er síðan Bláa lónið sem er mest sótti ferðamannastaður landsins, og þar vinnur fjöldi Grindvíkinga, auk starfsmanna annars staðar af Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Daglega má ætla að um 1.500 manns séu í eða við Bláa lónið. Fari allt á versta veg og eldgos verði gæti þurft að flytja um 5.000 manns frá svæðinu með neyðarrýmingu.

Hvað er að gerast?

- Auglýsing -

Jarðhræringar á Reykjanesskaganum hafa mælst frá 21. janúar og er miðja þeirra vestan við Þorbjörn. Mælingar hafa farið fram í áratugi á Reykjanesskaganum, en landrisið síðustu daga er óvenjulegt fyrir svæðið og óvenju hratt að mati sérfræðinga, um 3-4 mm á dag og í heildina orðið yfir 3 sm þar sem það er mest. Landrisið er vísbending um kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi og voru GPS-mælar settir upp á fjallinu svo hægt væri að fylgjast betur með þróun mála. Reykjanesskaginn liggur á flekaskilum, sem færast sundur með árunum og benti Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur á það í samtali við Rás 1 fyrr í vikunni að síðasta eldgos hefði verið árið 1240 og flekarnir hafi færst töluvert á þeim tíma. Því væri kominn tími á eldgos, því fylla þurfi í gatið sem flekaskilin mynda „og það er það sem eldgosin gera“.

Á sama tíma hefur jarðskjálftahrina verið við rismiðjuna, norðaustan við Grindavík, og hafa skjálftarnir ekki farið fram hjá nokkrum bæjarbúa. Alls hafa mælst 85 skjálftar síðustu tvo sólarhringa (fimmtudag kl. 9) og hafa tveir þeirra mælst stærri en 3 á Richter: 3,5 um hálffimmleytið og annar upp á 3,2 um fimmleytið, báðir á miðvikudagsmorgun. Flestir skjálftanna, eða 48, eru minni en 1 á Richter að stærð.

Hver er staðan?

- Auglýsing -

Íbúar voru að vonum uggandi þegar óvissuástandi var lýst yfir af hálfu Almannavarna, enda mannlegt að óttast um afdrif sín og afkomu, auk veraldlegra eigna þegar vá vofir yfir. Íbúafundur var haldinn mánudaginn 27. janúar og var íþróttahús Grindavíkur þéttsetið. Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og Almannavörnum, auk viðbragðsaðila, fóru yfir stöðuna og allar mögulegar sviðsmyndir. Helsta hættan, ef af gosi verður, er nálægð Grindavíkur við Þorbjörn. Hins vegar voru íbúar fullvissaðir um að sérfræðingar fylgdust með svæðinu allan sólarhringinn og allir viðbragsaðilar væru að vinna vinnuna sína.

Íbúum var bent á að hver og einn gerði ráðstafanir hvað eigið öryggi og aðstæður varðaði, þannig að allir væru viðbúnir ef gos yrði. Mikilvægt væri að hafa kveikt á GSM-símum svo skilaboð frá Neyðarlínunni berist til íbúa. Ef neyðarástand skapast að nóttu til mun lögreglan keyra um bæinn með sírenur í gangi. Komi til neyðarrýmingar verður fólk flutt til Reykjavíkur og Reykjanessbæjar í fjöldahjálparstöðvar. Íbúum var jafnframt ráðlagt að skoða innbústryggingar í samráði við tryggingafélög sín. Einnig var íbúum bent á að líta sér nær, og huga að nágrönnum, hvort þeir væru upplýstir um stöðuna og færir um að koma sér í burtu kæmi til goss.

Fjölskipaður fundur almannavarnarnefndar var síðan haldinn á miðvikudag þar sem um 30 manns frá viðbragðsaðilum báru saman bækur sínar. Viðbragðsáætlun og rýmingaráætlun eru langt komnar og áætlað að báðar áætlanir verði tilbúnar nú um helgina.

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur

Búið er að ræða við stjórnendur hjúkrunarheimilisins Víðihlíðar, auk stjórnenda leiksskóla og grunnskóla. „Við munum hugsa fyrst og fremst um þá íbúa ef til rýmingar kemur, og svo alla hina,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. „Allir leggjast á eitt og á þremur vinnudögum er búið að semja viðbragðsáætlun. Maður áttar sig ekki á þessu fyrr en maður fer að vinna með þetta, það þýðir ekki að útbúa slíkt skjal sem á svo að lifa lengi,“ segir bæjarstjórinn og bendir á að gott sé að taka slíka áætlun upp reglulega og jafnvel þó að vá vofi ekki yfir. Áætlað er að opna aðstöðu fyrir sálræna aðstoð í samstarfi við Rauða krossinn, til að taka á móti fólki og veita því sálgæslu, stuðning og aðstoð.

„Ég er samt furðu róleg yfir ástandinu, en held að við
græðum ekkert á því að vera að panika og hræða okkur að óþörfu.“

Hvað segja íbúar?

Þrátt fyrir að jörðin hristist nú reglulega undir fótum Grindvíkinga hefur atvinnulífið og daglegt líf ekki stöðvast í „nafla alheimsins“, eins og Grindvíkingar kalla oft bæinn sinn í daglegu tali. Nóg er að gera við höfnina, lífæð bæjarins, enda mikil veiði. Nýtt íþróttahús verður vígt á sunnudag og hvetur bæjarstjórinn bæjarbúa til að mæta. „Þetta er tækifæri fyrir bæjarbúa til að hittast og hugsa um það jákvæða í íþróttalífinu og fyrir framtíðinni.“

Hjónin Berglind Kolbeinsdóttir og Eiríkur Bjarki Jóhannesson eru á meðal fjölmargra íbúa, sem eru búin að gera ráðstafanir. „Bílarnir okkar tveir eru klárir og búr tilbúin fyrir hundana okkar og ketti, ásamt mat og kattasandi,“ segir Berglind. „Við erum klár fyrir þetta stóra EF, erum með gátlista við rúmið og ferðataskan er tilbúin. Ég er samt furðu róleg yfir ástandinu, en held að við græðum ekkert á því að vera að panika og hræða okkur að óþörfu.“

Hjónin Berglind og Eiríkur eru við öllu búin

Grindvíkingar eru þekktir fyrir að slá á létta strengi og hafa margir þeirra deilt á samfélagsmiðlum auglýsingu um drykkinn Eldgos, sem nú er fáanlegur á afslætti í takmörkuðu magni, eftir að hafa verið ófáanlegur á markaði síðan 1240. Starfsfólk Brautar, söluturns í bænum, segir beiðni viðskiptavina um gos og hraun þó fljótt hafa orðið þreyttan brandara, en nægar birgðir séu samt enn til.

Þrátt fyrir að óvissustig sé enn við lýði og hið stóra EF vofi yfir daglegu lífi og athöfnum Grindvíkinga er ljóst að þeir búa sig undir það versta, en vona það besta með húmorinn að leiðarljósi. Hristingurinn undir jörðinni hefur einnig hrist samfélagið saman og þegar eitthvað bjátar á stendur samfélagið í Grindavík þétt saman og samkenndin er ríkjandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -