Föstudagur 29. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Kári lýsir spillingu sjómanna í Grindavík – Vafasamur rekstur frægustu sjoppu landsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kári Guðmundsson, veitingamaður í Grindavík, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu að ekki sé allt með feldu í rekstri Sjómannsstofunnar Vör. Sjoppan er fræg úr Stuðmanna laginu Sósa og salat en í því lagi er fullyrt að hún sé sú langbesta á landinu. Kári segir rekstur sjoppunnar lýsandi fyrir íslenska spillingu.

„Þetta er langbesta sjoppan sem ég hef komið í … sósa og salat?“ Ég rak upp stór augu 12 ára þegar Stuðmenn völsuðu inn á Sjómannsstofuna Vör í Grindavík í kvikmyndinni Með allt á hreinu og borðuðu hamborgara og franskar með hellingi af sósu, vá, langbesta sjoppan og hún í Grindavík. Lengi vel var Sjómannsstofan Vör eini staðurinn í Grindavík þar sem hægt var að setjast niður og kaupa sér mat. Nú er tíminn allt annar og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Í Grindavík hefur á síðustu árum orðið til þó nokkuð af veitingastöðum sem bjóða fínt úrval af góðum mat. […] Samkeppni er af hinu góða, svo lengi sem jafnt sé gefið. Nú eru komnir nýir rekstraraðilar á Sjómannsstofunni Vör við Hafnargötu. Er það ekki bara gott mál? Húsið hefur fengið töluverða yfirhalningu enda framkvæmdir löngu tímabærar að sögn Einars Hannesar Harðarsonar, formanns Sjómannaog vélstjórafélags Grindavíkur, á vef Grindavíkur, en félagið á húsið og leigir út reksturinn,“ skrifar Kári.

Hann segir vin formanns félagsins leigja staðinn undir markaðsvirði.

„Það sem vekur athygli og jafnvel furðu er að það er besti vinur formannsins sem fékk að leigja staðinn án þess að aðrir fengju tækifæri á að leggja inn tilboð. Engin leið er betri en opið útboð til að tryggja hagsmuni Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur til að fá sem mest fyrir sína eign. Þess í stað er staðurinn leigður út langt undir markaðsvirði og með 15 til 20 milljóna króna meðgjöf frá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur til leigutaka, í formi yfirhalningar á löngu tímabærum framkvæmdum að sögn formannsins. Vert er að athuga það að framkvæmdir felast ekki í endurbótum á þaki eða veggjum fasteignarinnar heldur uppfærslu á búnaði og tækjum fyrir veitingarekstur á samkeppnismarkaði,“ segir Kári.

Hann segir Sjómanna- og vélstjórafélagið verði af talsverðri fjárfestingu vegna þessa. „Í því felst gríðarleg skekkja fyrir rekstraraðila veitingahúsa að nýr rekstraraðili leigir húsnæði og tækjabúnað fyrir algjöra lágmarks fjárhæð. Áréttað skal að leigan grípur ekki einungis húsakostinn heldur líka allt sem þarf til að reka veitingahús; diska, potta, rándýr tæki og tól alls konar. Fær Sjómanna- og vélstjórafélagið þessa fjárfestingu til baka? Nei, við blasir að það eru engar líkur á því vegna þess að samið hefur verið til langtíma undir markaðsvirði,“ segir Kári.

Hann spyr hvort félagsmenn viti af þessu ráðabruggi vinanna. „Staðurinn er nú stórglæsilegur og opnaður aftur eftir endurbæturnar með því að bjóða upp á hádegisverðarhlaðborð og fleira í samkeppni við aðra veitingamenn í Grindavík sem þurfa að standa skil á öllu sínu upp á tíu og fjármagna sínar framkvæmdir sjálfir. Er eðlilegt að ný og endurbætt samkeppni í veitingarekstri sé fjármögnuð af Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur? Vita félagsmenn af ráðahagnum? Vita félagsmenn að ráðabrugg sem þetta er í engu samræmi við tilgang félagsins í 2. gr. laga þess? Gera félagsmenn sér grein fyrir því að það hefði örugglega fengist hærra verð fyrir fjárfestinguna með því að bjóða fleirum en besta vini formannsins einum að kjötkötlunum? Mann setur hljóðan þegar fréttir berast af því að Ísland fær verstu spillingareinkunn af Norðurlöndum. „Hvar er þessi spilling?“ spyr maður. Er hún kannski miklu nær, bara akkúrat hérna heima í Grindavík?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -